Allir sem þekkja hljómsveitin Hundur í óskilum vita að hvar sem þeir félagar drepa niður fæti er að vænta góðrar skemmtunar. Þeir Eiríkur G. Stephensen og Hjörleifur Hjartarson hafa fært okkur ýmsar hliðar Íslandssögunnar á hundavaði og einnig tekist á við stórvirkið Njálu. Það er skemmst frá því að segja að alltaf hefur þeim tekist að varpa nýju ljósi á viðfangsefni sín og opnað augu áhorfenda fyrir mörgu sem kannski lá ekki alveg í augum uppi. Nú taka þeir saman stórvirki Wagners, Niflungahringinn, með liðsinni Kötlu Margrétar Þorgeirsdóttur og sjóða niður í tveggja tíma dásamlega skemmtun.
Niflungahringurinn samanstendur af fjórum óperum sem alla jafna taka um það bil 15 klukkustundir í flutningi svo þau þurfa að halda ansi vel á spöðunum svo ekki tapist neitt af söguþræðinum. Og það tekst svo sannarlega þótt vissulega sé ögn minna um dramatískar tilfinningaþrungnar aríur og lögð ríkari áhersla á skoplegri hliðar þessara gömlu sagna. Það verður að segjast að þeim félögum tekst alltaf að finna frumlegar og kómískar leiðir að öllu og kunna öðrum fremur að tengja saman ólíka hluti sér í lagi þar sem tengslin liggja ekki beint í augum uppi. Fyrir svo utan að frumleg tónlistarsköpun þeirra, þar sem alls konar hljóðfæri koma við sögu og margvísleg tól eru notuð til að skapa hljóma og slá takt bæta líka nýju og áhugaverðu lagi við upplifunina.
Niflungahringurinn allur er frábær skemmtun. Eiríkur, Hjörleifur og Katla Margrét eru öll stórkostleg. Öll hljóðfæri leika í höndunum á þeim, þau syngja af list og eru ofboðslega fyndin. Nú og svo slær sviðsmaðurinn algjörlega í gegn í sínu. Það er Ágústa Skúladóttir sem leikstýrir þeim listavel og leyfir afslappaðri og skelmislegri orku þeirra að njóta sín til fulls. Leikmynd og búningar eru í höndum Þórunnar Maríu Jónsdóttur sem skapar ótrúlega skemmtilega ævintýraveröld á sviðinu þar sem lítil en vel úthugsuð atriði skipta miklu máli. Búningarnir eru svo einstaklega hugvitsamlega gerðir að þeir bæta alveg nýrri vídd við sýninguna. Niflungahringurinn allur er stórskemmtileg og vel unnin sýning og virkilega gaman að endurnýja kynnin við Rínargullið, Valkyrjuna, Fáfnisbanann og Ragnarök guðanna á þennan hátt.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







