Dame Mary Berry er eiginlega bresk útgáfa af Mörthu Stewart. Hún er höfundur fjölda matreiðslubóka hefur haldið úti vinsælum sjónvarpsþáttum um matreiðslu og reynir ekki að leyna því að hún elskar veislur. Mary Berry fagnaði níræðisafmæli sínu mánudaginn 24. mars og sagði lesendum breska Vogue af því tilefni að jú, það yrði kaka og kampavín á afmælisdaginn.
Mary er litríkur og skemmtilegur karakter. Hún er full lífsgleði, mjög meðvituð um tísku og elskar veislur. Hún er ástríðufullur garðyrkjumaður og sérstaklega hæfileikaríkur bakari. Í ár segist hún ætla að halda upp á afmælið með látlausum veislum með ættingjum og vinum. En lífið hefur ekki alltaf farið mjúkum höndum um hana og þegar hún var þrettán ára meira að segja tvísýnt um að hún myndi lifa. Mary fékk lömunarveiki og lá í þrjá mánuði á sjúkrahúsi en náði sér að lokum. Henni gekk ekki vel í skóla, hefur síðar sagt að einu tímarnir sem hún hafi notið sín í hafi verið matreiðslutímarnir.
Hún fór ung til til Parísar og lærði matreiðslu í Le Cordon Bleu-skólanum. Hennar fyrsta starf var hjá bresku rafmagnsveitunni og þar kenndi hún fólki að nota rafmagnsofna og sýndi meðal annars í sjónvarpi hvernig ætti að baka Victorian Sponge Cake í slíkum ofni. Að því loknu fékk hún vinnu hjá the Dutch Dairy Bureau og vann þar við að búa til uppskriftir. Þá bauðst henni að smakka uppskriftir úr tilraunaeldhúsi á vegum almannatenglafyrirtækis og þar lagði hún drög að fyrstu bók sinni.
Vinsælli en fótboltinn
Fyrsta bókin, The Hamlyn All Colour Cookbook, kom út árið 1970 og varð til þess að henni bauðst vinna sem ritstjóri matarhluta tímaritsins Ideal Home. Síðan þá hefur hún gefið út yfir 70 bækur og þær náð metsölu. Hún rak lengi matreiðsluskóla, stýrði sjónvarpsþáttum um bakstur, eldamennsku og garðyrkju og það var hún sem átti hugmyndina að hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum, The Great British Bake Off. Hún hætti þar árið 2016 en þættirnir ganga enn og eru að sögn Mary vinsælli en meira að segja fótboltinn.
Hún giftist Paul Hunnings árið 1966 og þau eru hamingjusamlega gift enn í dag. Hún segir lykilinn að góðu hjónabandi vera að sýna hvort öðru virðingu og ekki æsa sig eða segja hluti sem maður sjái svo seinna eftir. Þau eignuðust þrjú börn, Thomas, William og Annabel, en misstu William í bílslysi árið 1989. Hann var aðeins nítján ára. Sorgin var djúp og erfið fyrir foreldra hans en Mary segir í viðtalinu við Vogue að hún njóti þess að tala um hann. „Við vorum heppin að eignast hann,“ segir hún. „Hann færði okkur svo mikla hamingju. Ég finn til mikillar samkenndar með fólki sem hefur misst börn í skíðaslysi eða ef þau vita ekki hvar þau eru. Við fengum að vera fjölskylduheild alveg fram að því að hann dó.“
Það hjálpaði þeim öllum í sorginni að vera saman og Mary rak matreiðsluskóla frá heimili þeirra í Penn í Buckinghamshire og gat þannig varið mun meiri tíma með Paul og börnunum. Hennar val var að tala um líðan sína og varðveita minningarnar um árin nítján sem þau fengu með William. Hún segist samt ekki dæma þá sem kjósa að byrgja hlutina inni. Hver og einn hafi sína aðferð til að vinna úr erfiðum hlutum.
Langlífi er mikið í fjölskyldunni en móðir Mary, Marjorie, varð hundrað og fimm ára og naut góðrar heilsu nánast fram í andlátið. Pabbi hennar, varð áttatíu og fimm ára og Mary minnist þess hve mikið högg það var fyrir móður hennar þegar hann lést. Þau höfðu þá aldrei sofið hvort í sínu lagi síðan þau gengu í hjónaband og gamla konan óttaðist að geta ekki sofið án mannsins síns. Mary hringdi í hana daglega til að fullvissa sig um að henni liði vel og gamla konan náði að jafna sig og fara að njóta lífsins aftur.
Og nú er dóttir hennar að hefja tíunda áratug lífs síns. Hún er ennþá spræk og hreyfir sig af léttlega þótt hún hafi mjaðmabrotnað fyrir þremur árum, hringt sjálf á sjúkrabíl og þurft að bíða í tæpa þrjá tíma eftir honum á gólfinu í gróðurhúsinu sínu. Hún er stöðugt að prófa nýja hluti, nýtur þess að fara í langar göngur og segir aldrei of seint að læra eitthvað. Aðspurð um hvaða köku hún ætli að hafa í afmælinu sínu segir hún það ekki ákveðið en það að baka sé leið til að sýna kærleika og kökur færi fólk nær hvert öðru. Þær séu leið til að fagna.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.