Ellilífeyrir fyrir lægra setta en eftirlaun fyrir hina

Rafn Kjartansson

Rafn Kjartansson

Töluvert hefur að undanförnu verið rætt um orðræðuna um eldra fólk á Íslandi.  Bent hefur verið á orð eins og bótaþegar, lífeyrisþegar og fleiri skyld orð sem eru algeng í almennri umræðu. Orð sem benda til þess að menn séu einhvers konar þiggjendur eða ölmusumenn.  Rafn Kjartansson er íslenskur eftirlaunamaður búsettur í Bretlandi.  Hann skrifaði Gráa hernum og Félagi eldri borgara í Reykjavík bréf, þar sem segir meðal annars.

Það vakti undrun mína þegar ég fékk fyrstu skilagreinar frá lífeyrissjóðnum sem hafði tekið á móti hluta af laununum mínum, mánaðarlega í um fjóra áratugi, að þar stóð skýrt og skilmerkilega að ég væri móttakandi „ellilífeyris“ frá þeim sjóðin.  Ég hafði haldið að um „eftirlaun“ væri að ræða, enda búið að halda eftir af launum mínum áratugum saman til greiðslu síðar, þegar starfsferli lyki.

Rafn tók sig til að fletti þessu upp í íslenskri orðabók og sagði að þar væri þessi skilningur að mestu staðfestur, en þó ekki afdráttarlaust – skýringin væri eilítið loðin.

Þegar ég fór að skoða málið nánar komst ég að því að í Lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr.1,10.janúar 1997 er orðið ellilífeyrir notað 28 sinnum að því er mér taldist til.  Í þessum lögum eru hvergi orðuð eftirlaun. Hins vegar hefur Alþingi einnig gefið út Reglur (nr.496)um greiðslu eftirlauna forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.  Reglurnar fjalla um greiðslur til þessara aðila úr LSR. Þar kemur orðið „eftirlaun“ fyrir 19 sinnum, en hvergi er að finna orðstofninn „elli“ í því plaggi og mætti helst ætla að þessum aðilum væri sá þáttur ævinnar óviðkomandi og aðeins ætlaður hinum óæðri.

„Það er óneitanlega slæmt afspurnar ef alvarlegar málvillur eru í löggjöf“ segir Rafn í bréfinu, „lögin ættu einmitt að vera fólki til fyrirmyndar um rétt og nákvæmt málfar og síst af öllu finnst manni að hljóðan lagatexta gefi til kynna einhvers konar manngreinarálit, en allir eiga jú að vera jafnir fyrir lögunum“, segir hann.

Rafn lét ekki við það sitja að fletta upp í orðabók og lagatextum, heldur skrifaði Merði Árnasyni, ritstjóra íslenskrar orðabókar sem þá var eining alþingismaður.  Hann benti honum á að svo væri að sjá af plöggum Alþingis að ellin færi í manngreinarálit og legðist einungis á hina lægra settu.  Hann sagði að hann hefði einnig nefnt að þetta kæmi engan veginn heima og saman við klassíska frásögn Snorra-Eddu af þeim atburði er Elli kerling sigraði sjálfan þrumuguðinn Þór í glímu og hefði hann þó verið sterkarstur allra goða.  Mörður er nú horfinn af þingi, en Rafn hafði einnig samband við BHM og lífeyrissjóðina.  Þessu lýsir hann nákvæmlega í bréfinu og jafnframt því að hann hafi haft samband við Helga Hrafn Gunnarsson pírata um þetta mál.  Síðan segir orðrétt í bréfinu.

Auðvitað eru mörg hagsmunamál eldri borgara brýnni en þetta.  Engu að síður á hugtaka- og málnokrun stóran þátt í að móta viðhorf fólks og það fer kannski einmitt að verða tímabært að stöðva mánaðarlegar tilkynningr frá lífeyrissjóðum (að undanteknum Stapa á Akureyri) og Tryggingastofnun til tugþúsusunda einstaklinga þar sem látið er að því liggja að viðkomandi séu nánast ölmusuþegar, en ekki að nýta þau réttindi sem fólkið hefur aflað sér með langtímagreiðslum í lífeyrissjóði, svo og borgaralegan rétt sinn í samskiptum við Tryggingastofnum.

Rafn segir að greiðslur frá Tryggingastofnun geti sem best heitið grunnlífeyrir, lífeyristrygging eða eitthvað annað sem mönnum finnist við hæfi, nóg sé af flínkum nýyrðasmiðum á Íslandi.

 

 

Ritstjórn maí 4, 2016 12:33