Nýársgleði er bæði gömul og ný

Nýtt ár gengur í garð á morgun og margir nota tækifærið og setja sér markmið eða heita því að gera betur næstu tólf mánuði en þá tólf sem nú eru að renna sitt skeið. Við notum líka tækifærið til að fagna hinu nýja og kveðja það gamla með góðum mat, flugeldum, brennum, bombum og freyðandi víni. Hér eru nokkrar skemmtilegar staðreyndir um gamlárskvöld og hátíðahöldin tengd þessum tímamótum. .

  • Fyrsta nýársveislan var haldin fyrir 4000 árum. Júlíus Sesar keisari Rómaveldis varð fyrstur til að gera 1. Janúar að almennum frídegi. Hann hafði nefnt janúarmánuð eftir rómverska guðinum Janusi. Hann var guð dyra, hliða og annarra opnana og hafði tvö andlit. Annað horfði fram á við en hitt aftur. Keisaranum fannst þess vegna við hæfi að nefna fyrsta mánuð ársins í rómverska tímatalinu eftir honum, enda eðlilegt að menn horfðu bæði fram og aftur á bak á slíkum tímamótum.
  • Samkvæmt könnunum strengja um það bil 40% manna á Vesturlöndum áramótaheit. Samkvæmt rannsókn á vegum vísindamanna í Stanford háskóla strengja um það bil 45% Bandaríkjamanna áramótaheit. Sambærilegar rannsóknir í Evrópu hafa leitt í ljós að svipaður fjöldi gerir slíkt hið sama en að meðaltalið úr þessum rannsóknum sýna að 40% Vesturlandabúa nota tækifærið til að lofa sjálfum sér bót og betrun þegar nýtt ár gengur í garð. Vinsælustu áramótaheitin eru: Að léttast, hætta að reykja, huga betur að heilsunni, hreyfa sig meira og vera betri við sína nánustu. Svipaðar rannsóknir sýna að um það bil 25% heitstrengjara standa við heit sín í um það bil tvær vikur..
  • Borðaðu grænt grænmeti. Hjátrúin segir að ef menn borði grænan mat á gamlárskvöld tryggi það velmegun og velsæld á nýju ári. Verið því viss um að hafa sem mest af grænu grænmeti á áramótaborðinu og til að vera alveg viss væri gott að borða slatta af grænum baunum þegar klukkan slær tólf. Baunir eiga nefnilega að vera sérlega áhrifaríkar í að laða að neytandanum peninga.
  • Skálað í tugum lítra af freyðivíni. Það er hefð víða að skála í freyðivíni þegar nýtt ár gengur í garð og í Vínbúðinni seljast tugir lítra af slíkum drykkjum fyrir þetta kvöld. Sú hefð á hins vegar rætur að rekja aftur til sautjándu aldar og hún á uppruna sinn í Frakkland. Það var nefnilega einmitt þá að menn fundu fyrir tilviljun aðferð til að mynda loftbólur í hvítvíni og um svipað leyti varð korktappinn til. Frakkar voru fljótir að átta sig á að skemmtilegt væri að skjóta tappa úr flösku á miðnætti á gamlárskvöld til að marka upphaf nýs árs og siðurinn breiddist með ógnarhraða út um heiminn þaðan.
  • Víða safnast fólk saman til að telja niður þar til klukkan slær tólf og fagna þegar nýja árið hefst formlega. Hvergi er þó jafnfjölmennt og á Time Square í New York. Hér á landi er hefð fyrir að innfæddir jafnt sem erlendir ferðamenn safnist saman á Skólavörðuholtinu fyrir framan Hallgrímskirkju. En Times Square í New York á metið. Þar safnast að jafnaði saman um það bil ein milljón manna til að horfa á kúlu síga niður súlu og stöðvast á slaginu miðnætti. Þessi hefð nær aftur til ársins 1907 og fyrsta kúlan var um það bil 317 kg. Hún var skreytt 100 23 vatta perum en kúlan sem nú sígur svo tígullega niður súluna er þakin 2.688 kristöllum og lýst upp með 32.000 led perum. Hún er 5.3 tonn að þyngd og ummálið er 3.6 metrar.
  • Hin gömlu kynni gleymast ei og Nú árið er liðið í aldanna skaut. Það er löng hefð fyrir því að syngja, Hin gömlu kynni gleymast ei eða Auld Lang Syne, á miðnætti í gamlárskvöldsboðum í enskumælandi löndum. Íslendingar syngja það ekkert endilega þótt allir kunni Hin gömlu kynni en sumir kjósa að taka undir með RÚV og syngja Nú árið er liðið í aldanna skaut. Sá sálmur er eftir Valdimar Bríem, lagið eftir danska tónskáldið Andreas Peter Berggreen og hefðin að spila það á miðnætti í Ríkisútvarpinu hófst árið 1930. En hvort sem menn syngja sig inn í nýtt ár eða ekki minnir texti beggja þessara hefðbundnu áramótalaga okkur á að leggja að baki þrautir og leiðindi, horfa björtum augum fram á við og gleyma ekki gömlum og góðum vinum þótt gefist aðrir nýjir.
  • Gættu þess að hafa góðan vin til taks. Margs konar hjátrú er tengd við gamlárskvöld og komu nýs árs. Ein er sú að fyrsta manneskjan sem þú mætir á nýju ári leggi grunn að hvað bíður þín. Þess vegna er ágætt að tryggja að maður standi sem næst einhverjum sem manni líkar regulega vel við og treystir þegar klukkan slær. Pör ættu líka að passa að sýna hvort öðru ástúð á þessum tímapunkti því ef þú kyssir ekki maka þinn um leið og tólfta slag klukkunnar deyr út er hugsanlegt að samband ykkar fari í vaskinn á nýju ári.
  • Mummers-skrúðgangan í Philadelphiu er ein skemmtilegasta nýárshefð sem um getur. Um það 10.000 þátttakendur ganga í gegnum ráðhúsið og sýna listir sínar í einstökum búningum. Skrúðgangan var fyrst gengin á sautjándu öld en hún er samsuða írskra, þýskra, enskra og sænskra siða. Önnur Evrópuríki hafa svo í gegnum tíðina bæst í hóp þeirra sem bætt hafa við margvíslegum hefðum frá sínu heimalandi og þær verið aðlagaðar að göngunni. Skrúðgangan skiptist í fimm deildir, það er grínliðið, stúlknasveitin, fantasíudeildin, strengjasveitin og fantasíubreiðfylkingin. Það er víst mikið ævintýri fyrir jafnt ferðamenn sem borgarbúa að horfa á gönguna marsera á gamlárskvöld.
Ritstjórn janúar 1, 2025 11:14