Búið til ævintýri með barnabörnunum

Barnabörnin eru fljót að vaxa úr grasi. Afar og ömmur ættu því að nýta tímann vel og gera hverja samverustund sem skemmtilegasta með börnunum. Það er dýrmætt fyrir afa og ömmur að búa til skemmtilegar minningar gera eitthvað sem börnin muna alla ævi. Næst þegar barnabörnin koma í heimsókn til að fá gista væri til dæmis hægt að krydda heimsóknina með þessu.

  1. Takið alla púðana og sessurnar í sófum og stólum í stofunni og búið til virki. Svo er hægt að slökkva ljósin og kveikja á vasaljósi. Það gerir stemminguna ævintýralega, segið svo börnunum frá ykkar eigin æsku eða segið þeim sögur af einhverju skemmtilegu. Afar og ömmur þurfa ekki að hafa áhyggjur þó það verði svolítið draslaralegt í stofunni.
  2. Búið til sérstakan morgunmat. Því ekki að búa til eitthvað sem börnin fá ekki dagsdaglega heima hjá sér. Það gæti til að mynda verið hafragrautur með ávöxtum eða einhverju öðru. Pönnukökur eða bara hvað eina sem ungviðinu gæti þótt gott. Afar og ömmur þurfa ekki að einblína á hollustu í sama mæli og foreldrar.
  3. Farið í göngutúr. Gerið gönguferðina skemmtilega með því að snúa henni í fjársjóðsleit. Það má líka benda börnunum á áhugaverða hluti og staði og segja þeim sögur af þeim eða láta þau segja ykkur hvernig þau sjá veröldina.
  4. Finnið einhverja gamla og góða bíómynd og horfið á hana með börnunum. Segið þeim hvenær þið sáuð myndina og hvaða áhrif hún hafði á ykkur. Munið bara að poppa áður en myndin hefst, flestum börnum finnst popp gott.

Þetta eru bara hugmyndir að einhverju sem væri hægt að gera með börnunum. Það er um að gera að vera nógu og hugmyndaríkur og gera sérhverja samverustund sérstaka á einhvern hátt.

Ritstjórn janúar 24, 2018 10:10