Deleríum búbónis, aldeilis ágæt pest

Að taka djarfar ákvarðanir er hluti af því að reka gott leikhús og Borgarleikhússtjóri sýndi og sannaði að það kann hún þegar hún ákvað að setja á svið Deleríum búbónis eftir þá Jónas og Jón Múla Árnasyni. Verkið er pólitískt og því var fyrst útvarpað árið 1958 og þegar ávextir voru sjaldséðir á borðum landsmanna og bílnúmer voru merkt sýslum. Heildsalinn Ægir Ó. Ægis á von á sendingu af jólavörum en þegar hún lokast um borð í Heklufossi vegna ægilegrar pestar, deleríum búbónis, sem geisað hefur utanlands sér hann fram á gjaldþrot.

Sumir vilja alltaf spyrja hvaða erindi einhver sýning eigi við daginn í dag og ef henni þarf að svara þá er hér saga af spillingu, samráði valdaaflanna, forréttindablindu valdastéttanna og hinu sígilda listasnobbi þar sem meira er um vert að vera hluti af Listvinafélaginu en með raunverulegan smekk. Hér er vissulega um períóduverk að ræða en stundum gefur fjarlægðin okkur færi á að spegla eigin raunveruleika og melta efnið betur vegna fjarlægðarinnar. Hér smellur allt saman, búningar, hljóð, lýsing og leikur svo á sviðinu verður til heimur í hnotskurn, fullkominn og einstakur í sínu en samt með boðskap til áhorfenda.

Hrein skemmtun frá upphafi til enda

Þótt Deleríum búbónis hafi verið sett upp níu sinnum og alltaf notið mikilla vinsælda er það ekki auðvelt viðfangs. Þetta leikrit einhvern veginn þverneitar að láta troða sér í nokkurt fyrirfram gefið form, er einhvers konar sambland af farsa, söngleik og revíu. Það hefur til að bera alla kosti þessara þriggja tegunda leikhúsflórunnar og eitthvað meira sem ekki er hægt að skilgreina og mætti kalla sjarma þeirra Múlabræðra.

Þessi sýning er hrein skemmtun frá upphafi til enda. Hér fær kómedían að ráða óbeisluð og allir leikararnir kunna listavel að spila úr öllu sínu og kóreógrafían bætir nýju lagi við verkið. Þarna nær hver hreyfing að vekja viðbrögð, vera heillandi falleg, fyndin eða undirstrika og bæta dýpt við senuna. Unnur Elísabet Gunnarsdóttir hefur unnið ótrúlega gott starf. Að öllum öðrum ólöstuðum verður að nefna að Sigurður Þór Óskarsson ber af öðrum í hreyfingum. Hann hefur ótrúlegt vald á slapstick comedy og nær að sveigja og beygja líkamann á ótrúlegan hátt. Tónlistin er frábærlega flutt og hljómsveitin skipuð þeim, Arnari Má Magnússyni, Matthíasi Hemstock, Nicolas Moreaux og Sigurði Flosasyni tekst að verða eðlilegur og sjálfsagður hluti af sviðsmyndinni og skapa dásamlegt andrúmsloft.

Skila bæði undir- og yfirtónum

Esther Talía Casey er frábær í hlutverki hinnar snobbuðu Pálínu sem þráir að komast inn í Listvinafélagið og getur ekki hugsað sér að lifa ef hún fær ekki bílnúmerið R 9. Halldór Gylfason og Valur Freyr Gunnarsson eru framúrskarandi flottir í gróðrarbralli sínu og örvæntingu þegar ekki gengur allt sem skildi. Vilhjálmur Neto er hreint út sagt dásamlegur og stelur senunni iðulega sem Gunnar Hámundarson leigubílstjóri sem er svo óheppinn að eiga númerið R 9. Það verður líka að nefna að þau syngja öll einstaklega vel og það er ekki sjálfgefið. Tónlist Jóns Múla ber þess merki að hann var mikill djassaðdáandi og það er ekki alltaf gott að koma saman textum sem falla að slíkri tónlist. Jónasi tókst það á snilldarlegan hátt en það þarf að fara vel með textann til að skila bæði yfirborðsmeiningunni og því sem kraumar undir niðri og það tekst þeim öllum.

Kannski þarf alltaf að spyrja hvaða erindi verk eigi við nútímann en þó spurt sé þarf ekkert endilega að svara á einn eða afgerandi veg. Þessi sýning er frábærlega unnin af einvala liði fagfólks, fyndin, ljúf og með beittum undirtóni þegar stórgrósserar ákveða að verða samskipa og svo auðvitað nóg af óviðjafnalegri tónlist.

Sjarmatröllin Múlabræður

Þeir Jónas og Jón Múli settu svip sinn á lífið á Íslandi meðan þeir lifðu. Jónas var orðsins maður. Hann var rithöfundur en starfaði einnig við blaðamennsku, sjómennsku og kennslu og sat á Alþingi. Tvær bóka hans slógu rækilega í gegn, Tekið í blökkina og Syndin er lævís og lipur. Þær voru til á flestum heimilum, enda þeir menn sem fjallað var um þekktir í þjóðlífinu. Jónas lést þann 5. apríl 1998.

Jón Múli Árnason starfaði í áratugi í útvarpinu og hafði eina bestu útvarpsrödd sem heyrst hefur hér á landi. Hann var mikill djassunnandi og náði gegnum þætti í útvarpi að vekja ástríðu margra annarra fyrir því tónlistarformi. Þeir bræður sömdu fleiri leikrit saman sem áttu það sammerkt að í þeim voru sönglög. Mörg þeirra lifa enn góðu lífi með þjóðinni en úr Deleríum búbónis eru það helst, Söngur jólasveinanna (Úti er alltaf að snjóa), Einu sinni á ágústkvöldi, Án þín og Ljúflingshóll sem enn eru sungin í útilegum og góðum partíum.

Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 1, 2023 07:00