Öldrunarþjónusta á gervigreindaröld

Ráðstefnan Öldrunarþjónusta á gervigreindaröld: Nýsköpun í öldrunarþjónustu og aukin lífsgæði aldraðra verður haldin í Hörpu, fimmtudaginn 10.apríl 2025.

Tilgangur ráðstefnunnar er að vekja athygli á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir nú þegar þjóðin er að eldast og hvaða lausnir hægt er að vinna með, þá sérstaklega lausnir í tengslum við tækniþróun og forvarnir. Ráðstefnan er á vegum Sjómannadagsráðs, Hrafnistu og DAS íbúða. Sjómannadagsráð hefur verið leiðandi afl í uppbyggingu á þjónustu fyrir aldraða á Íslandi frá stofnun, árið 1937.

Á ráðstefnunni verður fjallað um tækniþróun í heilbrigðiskerfinu, þá sérstaklega gervigreindina og hvernig hún mun létta störf í umönnun. Fjallað verður um hvernig tæknin hjálpar fólki að búa lengur heima hjá sér og vera sjálfbjarga sem lengst og rætt verður um heilbrigða öldrun og hvernig hægt er að hlúa betur að heilsu þjóðar sem er að eldast með öflugum forvörnum.

Það er brýnt að huga að þessu mikilvæga málefni sem snertir okkur öll og opna á uppbyggilegt samtal margra aðila. Sjómannadagsráð, Hrafnista og DAS íbúðir vilja leggja sitt lóð á vogarskálarnar með þessari ráðstefnu og vonast til að tengja saman sem flesta aðila sem vilja koma að málinu. Það skiptir máli að horfa til framtíðar með framsækni og jákvæðni.

Dagskrána er að finna á sjomannadagsrad.is og hrafnista.is og miðasala er á tix.is.

Ritstjórn apríl 4, 2025 07:00