„Viðbrögðin við auglýsingunni hafa verið mjög góð. Það hafa nokkrar konur haft samaband og þær fyrstu eru að koma í atvinnuviðtal í dag, föstudag,“ segir Gísli Matthías Auðunsson eigandi Matar og drykkjar. Það er ekki oft sem að fyrirtæki auglýsa eftir starfsfólki sem komið er yfir sextugt , það gerðist þó í vikunni þegar Matur og drykkur auglýsti á fésbók eftir tveimur eldri konum til starfa. „Skilyrðin eru að þær séu konur eldri en 60 ára, hafi gaman að íslenskum mat og drykk og geta unnið aðra hverja helgi frá 10.30 – 14.30. Þekkir þú hressa ömmu sem vantar örlitla aukavinnu og langar að hafa gaman,“ segir í auglýsingunni. „Við erum hátt í tuttugu sem vinnum hjá Mat og drykk, meiri hlutinn yngra fólk. Okkur langar að fá eldra fólk til starfa til að breikka aldursbilið. Það er nauðsynlegt að hafa eldra og reynslumeira fólk í hópnum,“ segir hann og bætir við. „Hér starfa góðir fagmenn. Við erum að fara af stað með dögurð eða brunch. Svo það er ýmislegt skemmtilegt í bígerð hjá okkur.“ Fyrir áhugasama má geta þess að enn er tekið við umsóknum.
Matur og drykkur er til húsa að Grandagarði 2, gamla Ellingsenhúsinu.