Sótti um á annað hundrað störf

Ásgerði Guðbjörnsdóttur datt ekki annað í hug en hún myndi finna sér vinnu með hraði eftir að henni var sagt upp störfum hjá Tryggingamiðlun Íslands árið 2012, eftir tíu ára starf. Þar vann hún sem skrifstofustjóri, sá um bótamál, launagreiðslur, var í sambandi við erlenda birgja svo eitthvað sé nefnt. En tíminn leið og hún sótti um hvert starfið á fætur öðru, fékk einstaka sinnum viðtal en enga  vinnu. Ásgerður á fjölbreyttan og glæsilegan starfsferil að baki. Hún hefur starfað hjá skipafélögum, tryggingafélagi, á verkfræðistofu, búið á Kýpur í áratug þar sem hún sá um bókhaldið í fjölskyldufyrirtækinu og fleira mætti telja til. Þá hefur hún alið upp fjögur börn og komið þeim til manns.

Sótti um allsstaðar um

Það getur verið þrautin þyngri að finna vinnu þegar fólk er komið um sextugt.

„Tryggingamiðlun Íslands skipti um eigendur 2012 og hana keyptu  tveir ungir menn. Þeir fóru í að breyta og hagræða og ég var orðin ein af elstu starfsmönnum miðlunarinnar, allir aðrir mun yngri en ég á vinnustaðnum, og á endanum var ég látin fara. Ég var alveg óttalaus og fór strax í að leita mér að nýrri vinnu. Sótti um hjá skipafélögunum, í bönkunum og hjá tryggingarfélögunum og á verkfræðistofum. Ég sótti líka um hjá Landspítalanum í sjúklingamótttöku og ýmislegt annað. Ég held að ég hafi sótt um vel á annað hundrað störf. Ég sótti hreinlega alls staðar um. Mér bauðst ekkert annað en yfirseta í prófum hjá Háskólanum í Reykjavík og svo réði ég mig í einn mánuð í sauðburð norður á   Strandir. Mér fannst gaman í yfirsetunni og ekki síður í sauðburðinum þó það hafi verið mikil vinna. Fyrsta vinnan sem ég fékk var hjá íþróttafélagnu Þrótti. Þar var ég húsvörður, sá um ræstingar og annað tilfallandi. Ég þoldi þá vinnu hins vegar illa því þar var mikill  stólaburður. Íþróttasalurinn var leigður til veisluhalda um helgar og þá þurfti að bera inn stóla og svo þurfti að hreinsa út áður en íþróttafólkið kom á æfingar. Ég fékk vinnu á hjúkrunarheimilinu Eir og hóf störf þar 1.september 2015. Þar fór ég að vinna við umönnun aldraðra og er þar enn. Ég finn hins vegar að ég mun ekki endast mjög lengi í þeirri  vinnu því hún er líkamlega mjög erfið.“

Erfiður tími

 Ásgerður segir að tímabilið sem hún hafði ekki vinnu hafi verið mjög erfitt. Hún hafði þó ýmislegt fyrir stafni tók öll þau námskeið sem buðust á vegum Vinnumálastofnunar og VR. Hún tók meðal annars námskeið í hagnýtu bókhaldi og tölvunámskeið. „Þó ég hafi unnið á tölvu áratugum saman og kunnað ágætlega að nota hana fór ég samt á námskeiðin, maður lærir alltaf eitthvað nýtt enda er þróunin ör í tölvuheiminum. Ég held að ég hefði hreinlega drepist ef ég hefði ekki farið á þessi námskeið. Það er mjög niðurdrepandi að sækja um hvert starfið á fætur öðru og fá sjaldan nokkur viðbrögð. „Fáir þökkuðu fyrir umsóknina aðrir en opinberar stofnanir og Gámafélagið. En að öðru leyti fékk ég lítil viðbrögð, komst að vísu í örfá viðtöl en þau leiddu ekki til þess að ég fengi starf. Þú getur rétt ímyndað þér hvað þetta brýtur mann niður,“ segir Ásgerður.

Orðin of gömul

„Ég vil ekki eldast og hafa ekkert að gera. Eins og aðrir hef ég mínar fjárhagslegu skuldbindingar og þoli það hreinlega ekki að vera án atvinnu. Ég vil ekki hætta að vinna enda hef ég fulla starfsgetu og fína reynslu. Ég er nákvæm og stundvís með afbrigðum. Ég er mjög sjaldan veik og þarf aldrei að vera heima með veik börn,“ segir hún og hlær og bætir við – ég er komin á þann aldur. „Ég hef ekki aðra skýringu á því hversu illa mér hefur gengið að fá vinnu aðra en að ég er orðin  rúmlega sextug og atvinnurekendum finnst ég hreinlega orðin of gömul.“

Með fjölbreyttan og farsælan starfsferil að baki.

Þykir vænt um gamla fólkið

Ásgerður segir að henni líki að mörgu leyti mjög vel að vinna á Eir. „Mér er farið að þykja vænt um gamla fólkið. Ég finn alveg að það eru sumir sem eru farnir að bíða eftir því að ég mæti í vinnuna. Það er margt fólk af erlendu bergi brotið sem vinnur á Eir en gamla fólkinu finnst gott að tala við einhvern um veðrið og gamla tíma. Einhvern sem skilur það og þekkir menningu þess og sögu. Útlendingarnir sem vinna með mér eru harðduglegir og sinna sínum störfum vel en þeir hafa bara lágmarkskunnáttu í málinu og þekkja ekki sögu gamla fólksins. Það væri nákvæmlega það sama uppi á teningnum ef Íslendingar færu að vinna á öldrunarstofnunum í útlöndum til dæmis á Filipseyjum eða Tælandi. Við myndum ekki geta spjallað við þá sem þar væru og þekktum ekki sögu þess fólks. Þar með verður tengingin minni þar sem við myndum ekki deila sömu reynslu. Fólkið sem ég vinn með er mjög duglegt og elskulegt. Mér finnst gaman í vinnunni en þetta er erfitt starf.“

Get ekki hugsað mér að enda á hjúkrunarheimili

„Ég lifi mjög einföldu lífi. Launin fyrir að sinna umönnun aldraðra eru lág svo það er ekki mikið afgangs. Ríkið græðir ekki mikið á mér því ég eyði nánast engu. Annars er ég ekki mikið að velta mér uppúr laununum. Ég veit nákvæmlega hvað ég hef og hvað bankinn tekur af mér um hver mánaðarmót. Það sem ég geri einna helst utan vinnu er að fara í kvikmynda- og leikhús. Ég er hluti af hópi sem hefur það að áhugamáli að sjá leiksýningar. Mér finnst það mjög gaman enda eigum við svo marga frábæra leikara sem gaman er að horfa  á. Ég kvíði því ekki að eldast ef maður hefur eitthvað skemmtilegt fyrir stafni. En mig langar ekki til að enda ævina inn á hjúkrunarheimili ég gæti ekki hugsað mér það. Þá vil ég nú frekar fá að fara áður en ég verð ósjálfbjarga. Ég er hlynnt líknardauða eins og fyrirkomulagið er  í Hollandi og nokkrum ríkjum Bandaríkjanna. Það á ekki að vera að halda fólki á lífi með lyfjum og tækjum eins lengi og nokkur kostur er. Dauðinn er ekki slæmur í sjálfu sér, stundum spyr ég mig fyrir hvern er verið að halda sjúku fólki á lífi. Við vitum það hvort sem er, að öll deyjum við á endanum. Mér finnst hins vegar að allir eigi að fá að deyja með reisn,“ segir  Ásgerður.

Getum gefið svo mikið

Hún segist enn gæla við að fá annað starf en eftir þá reynslu sem hún hefur gengið í gegnum varðandi atvinnuleit á hún erfitt með að trúa að það verði að veruleika. „Ég gæti vel hugsað mér að vinna á bókasafni eða við mótttöku hjá einhverju fyrirtæki. Eitthvað sem ég held ég gæti verið dálítið góð í enda finnst mér að við sem erum farin að eldast getum gefið svo mikið til samfélagsins.“

Ritstjórn febrúar 24, 2017 10:34