Orðið „elliglöp“ á bannlista

Jón G. Snædal.

Mörgum er í nöp við að nota orðið elliglöp og vilja helst útrýma því með öllu og nota frekar orðið heilabilun, eða skerðingu á andlegri færni. „Við á minnismóttökunni sem sér einkum um greiningar á orsökum á vitrænni skerðingu notum aldrei hugtakið „elliglöp“ heldur „heilabilun“, segir Jón G. Snædal yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum. Hann segir að starfsmenn hafi rætt þetta og verið sammála um að nota ekki orðið „elliglöp“. Margir sem komi í greiningu séu ekki svo langt gegnir að talað sé um heilabilun. „Við erum alltaf frekar varkár að kalla ástandið heilabilun fyrr en við erum viss um að svo sé. Tölum þá einfaldlega um væga skerðingu. Heilabilun er sem sagt ástand þegar viðkomandi er hættur að geta séð um atriði daglegs lífs sem hann/hún gat vel séð um áður. Við notum auðvitað frekar heiti á þeim sjúkdómi sem er orsök ástandsins svo sem Alzheimer sem er algengastur en alls ekki eina ástæðan,“ segir Jón og bætir við að öll lýsing sem notuð sé á ástandi sem feli í sér lakari vitræna getu sé viðkvæm, sama hvaða orð sé notað.

Anna Sigríður Þráinsdóttir.

Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins segir að umræða um notkun orðsins „elliglöp“  hafi komið í kjölfar frétta af Hinriki danaprins. „Í fyrstu frétt sem við birtum um að Hinrik Danaprins væri kominn með heilabilun var notað orðið elliglöp. Það kom frekar illa við mörg okkar sem hér störfum og það er hlutverk okkar sem erum með málfarið á okkar könnu að velta slíkum orðum upp og gera athugasemdir við notkun þeirra, segir Anna Sigríður. Hún segir að fáir hlustendur hafi gert athugasemdir við orðið þó rætt hafi verið um það á samfélagsmiðlum. „Ástæða þess að ég amaðist við þessu orði var sú að orðið glöp hefur neikvæða merkingu, merkir mistök eða skyssa og er notað í ýmsum neikvæðum orðum eins og afglapi og glappaskot. Önnur rök sem ég hef fyrir því að nota orðið ekki voru svo þau að sjúkdómsheitið er heilabilun,“ segir Anna Sigríður.

Orðabókarskýringin á elliglöpum er andleg hrörnun sökum elli. Hjá íslenskri Málstöð fengust þær upplýsingar að menn þar á bæ settu sig ekki upp á móti notkun orðsins „elliglöp“. Orðið væri að finna í orðasöfnum fyrir lækna og talmeinafræðinga. Í íorðabanka lækna er orðið skilgreint sem andleg ellihrörnun, sem er þýðing á enska hugtakinu senile dementia.  Annað orð sem notað er sem samheiti er elliheilabilun. Skilgreiningin á því er ástand sem stundum finnst hjá öldruðum og einkennist af skerðingu á vitrænni getu, félagsfærni og sjálfsbjargargetu.  Í orðabanka talmeinafræðinga er samheiti orðsins elliglöp orðið vitglöp og er þýðing á orðinu dementia.

 

 

Ritstjórn september 27, 2017 10:52