Þórunn Sveinbjörnsdóttir fyrrverandi formaður LEB skrifar. Hún tók líka myndirnar með greininni
Fólk kemur í straumum í Hveragerði til að vera á Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins. Það var árið 1955 að framsýnn læknir Jónas Kristjánsson varð hvatamaður að stofnun Heilsustofnunarinnar. Kjarninn í hugmyndafræði hans var að efla heilbrigði, auka vellíðan og styrkja einstaklinginn í að bera ábyrgð á eigin heilsu og velferð. Þessi hugmyndafræði er alveg jafn mikilvæg í dag og hún var þá. Jafnvel enn þarfari vegna þunga áreitis á fólk í nútímalífi sem er svo hlaðið hraða og spennu.
Fólk sem kemur í dag á Heilsustofnun er flest sent þangað af lækni sem gefur heilsufarsmat. Ef talið er að meðferð í Hveragerði geti bætt heilsu og líðan er hægt að sækja um. Oftast er einhver bið eftir að komast að. Hér er fólk á öllum aldri. Margir koma á efri árum og er það sennilega yfir 50% þeirra sem hér dvelja. Þessi hópur hefur oft dregið það að sinna heilsunni, sérstaklega hreyfingu og styrkingu. Margt eldra fólk dregur það fram yfir starfslok að gera eitthvað fyrir líkamlegt ástand svo sem verki, slitgigt, svefnkvilla, ofþyngd, og striðleika. Þá hafa margir lent í slysum sem enn er óunnið úr. Á Heilsustofnuninni fer fram innritunarviðtal og læknisviðtal og að því loknu er sett upp meðferðarstundaskrá sem er sniðin að þeim þörfum sem heilsa hvers og eins segir til um. Mjög margar leiðir eru farnar í endurhæfingu þátttakenda: ganga, vatnsleikfimi, nudd, heilsuböð, leirböð, Kaldar bunur, nálastungur, vaxmeðferð, heitir bakstrar, styrktarþjálfun og slökun.
Fjöldi starfsmanna er rúmlega 100 og hér eru sjúkraþjálfarar, íþróttakennarar, nuddarar, sjúkraliðar, sálfræðingur, næringarfræðingar, hjúkrunarfræðingar og læknar og síðan starfsfólk í mötuneyti, ræstingu, við skrifstofustörf og fleira.
Heilsustofnunin hefur stækkað mikið í áranna rás en byrjað var með nokkur herbergi, þjálfunaraðstöðu, leirböð og sundlaug. Í dag er mjög fjölþætt þjálfun og fræðsla hjá stofnuninni. Staðan er metin þannig að með því náist mestur árangur og getur slík þjálfun, ef fólk heldur áfram að hreyfa sig og fara í styrktarþjálfun, bætt árum við lífið. Það er því til mikils að vinna að bæta heilsu á efri árum því í mörgum skoðanakönnunum kemur fram að eitt það dýrmætasta sem við eigum er heilsan. Til að halda henni getur verið mikilvægt að gera eitthvað í því, svo sem að sækja um að fara á Heilsustofnun. Fjölmargir fræðslufyrirlestrar geta haft mikil áhrif á að betri árangur náist. Kafað er í næringu, svefn, kvíða, verki, áhrif hreyfingar og slökun.
Eitt af því sem setur sérstakan svip á dvöl á Heilsustofnuninni er maturinn. Hér býr enn að fyrstu gerð því grunnurinn er grænmetisfæði. Einn flottasti salatbar er hér og siðan eru allskonar réttir bornir fram sem aðalréttir og líka fiskur tvisvar í viku. Allt brauð er hollt og gott og bakað á staðnum, allt án hveitis. Einstakt jurate er framleitt úr íslenskum jurtum sem er afbraðsgott, grösin tínd af starfsmönnum. Grænmeti er lífrænt ræktað á sumrin í gróðurhúsum NLFÍ á staðnum. Á morgnana er hægt að næla sér í kaffibolla. Inn á herbergjum í nýrri álmunum eru örlítið meiri þægindi svo sem sturta og sum herbergin eru með sjónvarpi. Þessi lúxus kemur fram í verðinu sem fólk borgar fyrir veruna. Nokkur stig eru á verði. Elstu herbergin eru mun minni og því er greitt lægra verð fyrir þau. Mjög langir gangar skapa miklar göngur sem eflir líka þrek. Umhverfi Heilsustofunarinnar er upplagt til að njóta útiveru allt árið þó hálka að vetri geti verið slæm. Félagslíf er líka á staðnum margar setustofur sem fólk notar til að spjalla, félagsvist, og söngur í hverri viku. Heilsustofnunin hefur hlotið nýsköpunarverðlaun heilsulindarsamtaka Evrópu ESPA í nokkur skipti fyrir sína faglegu starfssemi. Sjá meira á heilsustofnun.is