Tengdar greinar

Perlur eru klassískt skart

Perlufestar og hálsmen eru elstu skartgripir mannsins. Þær hafa verið hafðar í hávegum allt frá árdögum mannkyns og hafa líklega fyrst fundist þegar menn gengu meðfram ströndinni í leit að mat. Ostrur eru góður munnbiti og ekki fer framhjá neinum perlan sem leynist í skelfisknum og heldur ekki fegurð þeirra.

Perlur voru algeng gjöf meðal kínverskra aðalsmanna allt frá árinu 2300 fyrir Krist. Á Louvre-safninu í París er til sýnis bútur úr perlufesti sem fannst í steinkistu persneskrar prinsessu sem var upp árið 420 fyrir Krist. Ríkuleg ostrubeð eru úti fyrir strönd hinnar fornu Persíu og í Persaflóa. Til er gömul arabísk þjóðsaga um tilurð perlna. Þar segir að þær myndist úr daggardropum. Ostran gleypi dropann þegar hann falli í sjóinn og perlan vaxi síðan upp af honum. Fleiri fallegar sögur eru til um hvers vegna og hvernig perlur verða til. Kínverjar töldu að dökkar perlur væru myndaðar í höfðum dreka og það gæfi þeim aukinn kraft. Japanir sögðu þær myndaðar af tárum kynjavera á borð við einhyrninga, álfadísir, hafmeyjar og engla. Persar sögðu þær hafa orðið til þegar regnbogi snerti jörðina eftir mikinn storm og allir gallar er í þeim fyndust væru vegna eldinganna er fylgdu fárviðrinu.

Nú vitum við að það eru ekki daggardropar heldur sandkorn, skeljabrot eða sníkjudýr sem berast inn í skelina sem verða upphafið að perlumyndun í henni. Fiskurinn bregst við með að framleiða kalksteind og hlaða henni utan um aðskotahlutinn í mörgum lögum. Sama efni klæðir skelina að innan og er kallað perlumóðir. Perluköfun var undirstöðu atvinnuvegur í löndunum við Persaflóa áður en þar fannst olía og hafin var perluræktun í stórum stíl í hlýjum sjó. Samkvæmt kínverskri þjóðtrú tákna þær þá visku er menn ávinna sér með reynlsunni og þær eiga að draga velmegun og lán að eiganda sínum.

Elizabeth Taylor átti gríðarlega verðmætt safn skartgripa, hér er hún með perlu sem nefnist, La Peregrina.

Bara fína fólkið mátti bera perlur

Í hinu forna Rómarríki voru perlur stöðutákn og vinsælustu skartgripir sem hugsast gat. Júlíus Sesar taldi að þannig ætti það að vera því hann samþykkti lög sem bönnuðu öðrum en valdastéttinni að bera perlur. Viðskipti með perlur voru blómleg á þeim tíma og langt frameftir miðöldum um alla Evrópu. Þær voru vinsælar í alls konar skart og bornar af aðalskonum og riddarar kusu að hafa þær innan á sér í bardaga því þeir trúðu að þær vernduðu þá.

Náttúrulegar sjávarperlur eru gríðarlega fallegar.

Á Viktoríutímanum þótti sjálfsagt að hver einasta kona ætti perlufesti. Venjulega gáfu ömmur eða guðmæður stúlkunum eina perlu í skírnargjöf og síðan bættist ein við á hverjum afmælisdegi þar til komin var sæmileg festi. Þá voru perlurnar þræddar á band og stundum gróf gullsmiður fjölskyldunnar nafn konunnar eða skjaldarmerki fjölskyldunnar í lásinn. Perlur gengu sömuleiðis gjarnan í erfðir líkt og búningasilfur hér. Perlur eru klassískir og fallegir skartgripir og frábært brúðarskart.En ólíkt eðalsteinum sem grafnir eru úr jörðu verða perlur til inni í lifandi verum. Það fór mjög fljótt að ganga á ostrustofnin þegar eftirspurnin jókst og ágangurinn á miðin þar með líka. Ostrustofninn var í mikilli útrýmingarhættu þegar menn komust upp á lag með að rækta þær. Nú er algengast að perluskart sé búið til úr ræktuðum perlum ýmist í ferskvatni eða sjó. Þar lauma menn aðskotahlut inn í skeljarnar og bíða síðan eftir að þær formi perlu. Í dag eru villtar sjávarperlur meðal sjaldgæfustu skrautsteinda sem maðurinn nýtir og sækir til að vinna úr þeim skrautgripi. Gamlir perluskartgripir seljast þess vegna fyrir metfé þegar þeir eru í boði á uppboðum. Meðal annars má nefna að perluhálsmen Jósefínu keisaraynju í Frakklandi og fyrri konu Napóleons Bonaparte seldist fyrir 3.3 milljónir dollara í New York fyrir sjö árum og þegar skargripir Elizabeth Taylor voru seldir eftir lát hennar seldist 16. aldar perlumen úr hennar eigu á 11.8 milljónir dollara.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 27, 2024 07:00