Hvenær á að leggja bílnum?

„Það kemur að þeim degi hjá öllum að heilsan leyfir ekki frekari akstur“, segir í bæklingi sem Umferðarstofa og Félag eldri borgara í Reykjavík  hafa gefið út um eldri ökumenn í umferðinni. Margir geta sjálfir metið hvenær er tímabært að hætta. „En ef aðrir hafa áhyggjur af hæfni þinni til að aka, skaltu taka því alvarlega. Líttu á það sem vísbendingu um umhyggju fyrir þér og áhyggjur af velferð þinni“, segir jafnframt í bæklingnum.  Þar er einnig kveðið uppúr um hvenær fólk á að hætta akstri.

Þegar læknirinn þinn segir stopp.

Þegar lögreglan segir stopp.

Þegar fjölskyldan segir stopp.

Þegar aðrir þora ekki lengur með þér í bíl.

Í bæklingnum er fólki einnig ráðlagt að skipuleggja tilveruna án bíls. Sagt er að menn geti auðveldað sér breytinguna með því að hugsa um hvar best sé að búa næstu 10 árin. Þeir þurfi að velta fyrir sér hvort þeir geti verið í núverandi húsnæði án þess að hafa bíl, eða hvort þeir þurfi að flytja til að vera nær ættingjum og vinum, eða til að hafa betri aðgang að verslun og þjónustu.

Ritstjórn júní 30, 2020 08:20