Hvers vegna eru sjötugir hamingjusamari en aðrir?

Ingrid Kuhlman er eini Hollendingurinn sem er með meistaragráðu í norrænum fræðum með áherslu á íslensku. Enda er hún altalandi á íslenska tungu. Hún býður blaðamanni Lifðu núna út í garð, þar sem við setjumst í sólina. Það hefur vissulega verið óvenjulegt sumarveður síðustu vikurnar, sólskin á suðvesturhorninu alla daga.  Ingrid hefur verið á Íslandi í 21 ár. „Ég er orðin meiri Íslendingur en Hollendingur“, segir hún hlæjandi. „Það er tvennt sem hefur valdið því. Ég hef verið að halda námskeið á íslensku árum saman og svo er það menningin, maður aðlagast henni og verður meiri Íslendingur eftir því sem árin líða.“

Ingrid á pallinum heima

Ingrid býr á Álftanesi með manninum sínum, Eyþóri Eðvarðssyni. Þau eiga tvö uppkomin börn og reka fræðslufyrirtæki sem heitir Þekkingarmiðlun og margir kannast ugglaust við.  Þau hafa  staðið fyrir umfangsmiklu námskeiðahaldi í gegnum tíðina.

Kynntust á Nýja Garði

Ingrid er fædd og uppalin í Amsterdam. Hún lærði norræn fræði við Háskólann í borginni og fékk styrk til að fara í eitt ár til Íslands til að læra íslensku. Síðan fékk hún styrk til að vera eitt ár til viðbótar. Þá var hún búin að kynnast ungum Vestfirðingi, hann var í sálfræði í Háskólanum og bæði bjuggu þau á Nýja Garði. Þegar bæði voru búin að ljúka BA prófi í sinni grein, ákváðu þau að fara til Hollands, þar sem Eyþór lauk meistaranámi í vinnusálfræði og fór að vinna hjá Hollenska vinnuveitendasambandinu.  Þau voru komin með tvö börn og vegna þess hversu erfitt það var að fá barnagæslu var tæpast inni í myndinni að þau færu bæði að vinna úti. Grunnskólinn var til dæmis frá 8:30-11:30 og frá 13:30-15:30.

Taka lest á sólarströnd

Þau vissu að þetta væri auðveldara á Íslandi og ákváðu að flytja hingað heim, þegar þeim bauðst að byggja upp stjórnendaþjálfun hjá Gallup árið 1999. „Við sjáum ekki eftir því“, segir Ingrid „sérstaklega ekki þegar það er svona veður!“. En hún saknar vorsins í Hollandi, sem kemur fyrr en hér og er hlýtt og notalegt. „En hér er svo mikil náttúra og kyrrð. Það er hægt að keyra í 15 mínútur og vera kominn út í náttúruna. Slíkt fyrirfinnst ekki í Hollandi, þar sem búið er að rækta hvern einasta blett“. En hún bætir við að loftslagsmálin skipti meira og meira máli. „Við búum hér á eyju og þurfum að fljúga til að komast í burtu, en í Evrópu eru menn farnir að taka lest, þegar þeir ætla á sólarströnd. Það gengur náttúrulega ekki hér“.

Hvað er vellíðan?

Ingrid hefur undanfarin ár stýrt framtíðarþingum um farsæla öldrun sem hafa verið haldin að frumkvæði Öldrunarráðs Íslands. Hún gerði svo rannsókn á vellíðan eldra fólks, sem var hluti af lokaverkefni hennar í meistaranáminu í jákvæðri sálfræði við Buckinghamshire New University á síðasta ári. Það var ekki síst þess vegna sem blaðamaður Lifðu núna ákvað að sækja hana heim. „Lokaverkefnið snerist um að greina viðtöl við sjö einstaklinga á aldrinum 70-79 ára, en samkvæmt könnunum er það þessi aldurshópur sem upplifir mesta hamingju í lífinu. Verkefnið var að forvitnast um hvernig þeir skilgreina vellíðan og hvaða þættir það eru sem hafa áhrif á vellíðan þeirra. Það er ljóst að menn skilgreina ekki hamingjuna á sama hátt þegar þeir eru fertugir og þegar þeir eru sjötugir. Ingrid segir að í rannsókninni hafi komið fram sjö þemu.

Að skapa sína eigin hamingju

Þeir sem rætt var við, voru í fyrsta lagi  þeirrar skoðunar að menn skapi sína eigin hamingju. Menn eigi ekki að bíða þess að verða hamingjusamir, heldur taka frumkvæði að því að hafa áhrif á eigin vellíðan. Ef fólki líði ekki vel, þurfi það að gera eitthvað í því sjálft, til dæmis lesa skemmtilega bók og ein kvennanna nefndi Pollýönnu í þessu sambandi! Þá þýði ekki að velta sér uppúr því sem maður geti ekki haft áhrif á. Ingrid segir að þetta fólk beri sig yfirleitt ekki saman við aðra, það telji mikilvægt að gera það besta úr því sem það hafi og leggi áherslu á að njóta hvers augnabliks og litlu hlutanna í lífinu.

Rækta félagsskap við afkomendur og vini

Rauði þráðurinn í rannsókninni var hins vegar sá hvað það væri mikilvægt að stofna til eða viðhalda góðum tengslum. Rækta félagsskap við afkomendur og vini. Fylgjast með barnabörnunum og taka þátt í lífi þeirra. „En maður þarf að hafa fyrir því, það þýðir ekki að bíða heima eftir að síminn hringi“, sagði viðmælandi í rannsókninni. Ingrid segir að þetta sé stærsti þátturinn í vellíðan fólks á þessum aldri. Hún bendir á að í Bretlandi hafi verið stofnað sérstakt ráðherraembætti sem heiti Minister of Loneliness, eða ráðherra einmanaleikans. Um þriðjungur Breta sem er sjötugur eða eldri, er oft eða mjög oft, einmana.

Myndi leggjast í kör

Þriðja þemað var að stunda reglubundna líkamsrækt. Einn þáttakandi í rannsókninni sagðist myndu leggjast í kör, ef hann hreyfði sig ekki. Menn sögðust sofa betur, vera orkumeiri og hafa bæði líkamlegan og andlegan ávinning af hreyfingunni. „Hún er ábyggilega besta geðlyfið“ var haft á orði. En hreyfingin stuðlaði líka að því að fólk hitti aðra og allir sem tóku þátt í rannsókninni hreyfðu sig í hópi, stunduðu zumba, Qi gong, væru í gönguhópi, sundi eða spiluðu mini-golf ásamt öðru fólki.

Mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni

Það þótti líka skipta máli að gera gagn „þó maður sé á áttræðisaldri“.  Ingrid segir að menn vilji hafa tilgang í lífinu og vera einhvers virði fyrir aðra. Sumir fari í sjálfboðaliðastarf, séu í Oddfellow, kvenfélagi eða gerist heimsóknarvinir. „Aðrir taka þátt í stjórnmálum“, segir Ingrid, en almennt vilji fólk hafa eitthvað fyrir stafni, hafa eitthvað sem fangar hugann. „Ein er í Rótarý, önnur stundar listmálun, sumir ferðast, prjóna eða leysa krossgátur“, segir hún.

Að upplifa jákvæðar tilfinningar

Viðmælendur undirstrika mikilvægi þess að líta glaður og stoltur yfir farinn veg og vera sáttur við sjálfan sig og stöðuna sem maður er í. Einnig að horfa björtum augum til framtíðarinnar. Í viðtölunum má skynja margar jákvæðar tilfinningar eins og gleði, þakklæti, æðruleysi, áhuga, von, stolt, skemmtun, innblástur, kærleik og lotningu. „Menn vilja vera góð fyrirmynd fyrir aðra“, segir Ingrid.

Að vera nálægt náttúrunni

„Tengingin við náttúruna kemur mjög sterkt fram hjá viðmælendum“, segir Ingrid og bætir við að það hafi mikil áhrif á vellíðan fólks að vera nálægt náttúrunni. „Það að fylgjast með vorfuglum, fá súrefni í lungun í gönguferðum og upplifa heilandi mátt vatnsins í sundinu, eða mátt hafsins, gefur fólki kraft og vellíðan. Þetta er ekki nefnt í kenningum um vellíðan, en er hluti af því stóra samhengi sem við erum partur af“, segir hún.

Njóta lífsins á dýpri hátt en áður

Viðmælendur lýsa því einnig hvernig hægt er að upplifa jákvæðar tilfinningar eins og þakklæti og kærleik þrátt fyrir erfið veikindi maka og síðar makamissi. „Það fylgir því sorg að missa maka, en áföll geta þroskað fólk og gert því kleift að njóta lífsins á annan og dýpri hátt en áður“, segir Ingrid.  Hún segir að öll þau atriði sem hún nefnir í sambandi við rannsóknina, tengist. Hreyfing hafi til að mynda áhrif á líkamlega, andlega og félagslega vellíðan. Hún gefi fólki tilgang og tækifæri til að kynnast nýju fólki. Hún nefnir líka að væntingar verði raunhæfari þegar fólk eldist, ef það kemst ekki á Esjuna finnist því frábært að fara í gönguferð um hverfið. Þá lágmarki eldri borgarar samskipti við fólk sem dregur það niður og hætti með aldrinum að láta smámuni angra sig.

Forsenda farsællar öldrunar

Það líður að lokum viðtalsins, við sötrum kaffi og konfektið sem Ingrid bar fram er að bráðna í sólinni. Hún segir að niðurstöður rannsóknarinnar um vellíðan eldra fólks  komi heim og saman við margt sem hafi komið fram á framtíðarþingunum um farsæla öldrun. „Fólk veit alveg um hvað þetta snýst og hamingjan eykst á þessum aldri, ef fólk er við góða andlega og líkamlega heilsu. Það er í raun forsenda farsællar öldrunar“, segir hún að lokum.

Það er stutt í náttúru á Álftanesi þar sem Ingrid og Eyþór búa

 

 

Ritstjórn júní 17, 2019 07:53