„Ég er orðinn leiðsögumaður erlendra ferðamanna og það er nóg að gera. Ég er búinn að bóka mig í 90 daga í sumar. Ég dreif mig í leiðsögunám fyrir um fjórum árum og síðan hef ég verið á ferðinni. Það var auðvitað smá átak að hífa sig upp og drífa sig í skóla aftur. En það var gagnlegt og skemmtilegt og fólkið sem var með mér í náminu skemmtilegt upp til hópa,“ segir Randver Þorláksson leikari og leiðsögumaður. Það þekkja allir Íslendingar leikarann Randver, hann hefur leikið í tugum verka í leikhúsum, í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Auk þess hefur hann unnið í útvarpi og lesið upp svo eitthvað sé nefnt. Randver hefur ekki alveg sagt skilið við leiklistina, honum á eftir að bregða stuttlega fyrir á skjánum í nýrri sjónvarpsseríu -Ráðherranum sem sýnd verður næsta vetur.
Í haust stendur Randver á tímamótum, hann verður sjötugur en segist hvergi nærri hættur að vinna. „Ég nenni ekki að leggjast með tærnar upp í loft eða vera endalaust í golfi. Á meðan heilsan er góð er allt of snemmt að hætta að vinna sjötugur. Ég veit að vísu að rullunum í leikhúsinu og kvikmyndum fækkar þegar maður er kominn á þennan aldur. Það verða einfaldlega kynslóðaskipti en ég geng alveg sáttur frá því borði,“ segir hann.
„Mér finnst leiðsögumannsstarfið mjög skemmtilegt. Auðvitað fer það svolítið eftir fólkinu sem maður er með hverju sinni en að öllu jöfnu er þetta skemmtilegt. Hver ferð er náttúrulega smá performance, maður tuðar í lágmark sex tíma á dag. Sem þætti vel af sér vikið ef maður væri í leikhúsi og stæði á sviðinu í jafn langan tíma. Svo er maður er í lengri ferðum þá tegist vinnudagurinn upp í 8 til 11 tíma. Ég hef mest verið að vinna hjá Iceland Travel og Grey Line og það er mikið fagfólk sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum. Maður er mikið í að fara Gullna hringinn, suðurströndina og á Snæfellsnes. Mér finnst hins vegar skemmtilegast að fara hringferðir og ef ég mætti nefna einhvern landshluta sem er í uppáhaldi þá er það Norðurland.“
Randver verður sem sagt ekki mikið heima í sumar. „Eina sem maður saknar er fjölskyldan og svo kemst maður ekki oft í golf þegar maður vinnur svona mikið. Maður fórnar miklu þegar maður fórnar golfinu,“ segir Randver og hlær og bætir við „ég er búinn að spila í nokkur ár, ég myndi ekki segja að ég væri forfallinn golfspilari en mér finnst þetta góð og skemmtileg hreyfing.“
Randver er giftur Guðrúnu Þórðardóttur og saman eiga þau tvö börn og tvö barnabörn. „Ég er mikill fjölskyldumaður. Við Guðrún erum mikið með barnabörnin sem eru tveir drengir annar rúmlega eins árs og hinn fjögurra ára,“ segir Randver en harðneitar því að hann sé farinn að taka strákana á golfvöllinn með sér. „Þeir eru allt of ungir til þess. En maður nýtur þess að leika við strákana og fera með þá út á róló. Reyndar er ég farinn að fara með þann eldri í leikhús og bíó. Maður reynir að gera eitthvað menningarlegt með honum hinn er aðeins of ungur til þess enn þá.“