Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.
Á facebook þar er lífið, vinirnir, samskiptin, gleðin og árangurinn. Já, ég þori að fullyrða þetta eftir að hafa verið útilokuð frá facebook í viku og beinlínis svelt af þeim vettvangi og nú skal ég segi ykkur söguna af hvernig það vildi til.
Á laugardaginn var laumaðist ég, eins og ég geri gjarnan, inn á vinnupóstinn minn. Er auðvitað að reyna að gæta jafnvægis milli vinnu og einkalífs, svona eins og flestir, en af og til blæs egóið svo hressilega út að ég tel mig fullkomlega ómissandi og þá henda mig svona útkikk eða innkikk kannski réttara sagt. Í pósthólfinu var að finna bréf frá facebook þar sem mér var tilkynnt að efni á síðu Lifðu núna stríddi gegn reglum samfélagsins á þeim miðli og innihéldi sviksamlegt, dónalegt, hatursfullt, meiðandi eða pólitískt efni og þar sem starfsmenn Elons Musk tæku alvarlega þá skyldu sína að vernda saklausa notendur fyrir dónakerlingum eins og mér yrði síðunni lokað brygðist ég ekki við póstinum og óskaði eftir endurskoðun.
Almennt er ég löghlýðin og samviskusöm svo mér datt ekki í hug að láta sem ég sæi ekki jafnbrýnt og aðkallandi erindi svo ég smellti á hlekkinn sem fylgdi, fékk upp hólf þar sem mér var gert í 500 orðum að gera grein fyrir syndum mínum og hvernig ég hygðist gera yfirbót. Ég tíundaði að sjálfsögðu sakleysi mitt og hélt því fram fullum fetum að fátt móðgandi eða illkvittnislegt væri að finna á Lifðu núna, eiginlega þvert á móti. Þarna væri að finna áhugavert, fróðlegt og skemmtilegt efni og bað síðan auðmjúklega um að menn í tæknihöll facebook endurskoðuðu álit sitt á minni ritstjórnarstefnu og litu til mín í náð.
Að þessu loknu taldi ég mig nokkuð góða og beið syndaaflausnar. Þess í stað birtist reiðileg tilkynning á skjánum. Hér með er þessari síðu lokað enda efni hennar slíkt að ekki sæmir sómakærum facebook-notendum að berja það augum. Og svo varð allt svart.
Frá þeirri stundu hefur líf mitt, vakandi og sofandi snúist um að ná aftur facebook. Allan daginn, aftur og aftur, hef ég farið sama hringinn. Sent beiðni um breytt lykilorð, breytt notendanafn, opnun, náð og miskunn en tölvan hélt áfram að segja nei. Ég var útskúfuð, hötuð og smáð. Ég er mögulega tæknifatlaðasta manneskja norðan Alpafjalla. Helst vegna þess að ég hef nákvæmlega engan áhuga á hvernig vélar virka, geri bara þá kröfu að þær hlýði þegar ég bið um eitthvað. Ef ég ýti á takka ætlast ég til að eitthvað gerist og ef það bregst er ég fyrst allra til að æpa: „Bilað, ónýtt, út með það.“ En nú var það ekki í boði. Margra ára vinna lá undir. Ég beit því á jaxlinn og hélt áfram að hrópa: „Sesam opnist þú!“ Leitaði meira að segja til tækniseiðkonu í öðru landi en þessi móri, nú eða skotta, sem hlaupin var í facebook fékkst ekki einu sinni kveðin niður með öllum hennar fjölvísu ráðum.
Nú voru góð ráð dýr. Ég hélt áfram að reyna og sko, fyrir einhverja ótrúlega töfra lauk Sesam upp dyrum sínum og ég komst inn á mánudagsmorgni eftir að hafa verið heila helgi án facebook. En þar með var björninn ekki unninn. Lifðu núna síðan var enn lokuð. Aðeins ég gat séð hana og notið hennar. Og aftur var haldið af stað sama hringinn, enn einn snúninginn. Á föstudegi, tæpri viku eftir að ég missti facebook var tölvunni svo komið í gjörgæslu tæknisnillings hjá Tölvuaðstoð. Úrvinda kona hélt heim, þess fullviss að hún stefndi hraðbyri í kulnun en með veika von í hjarta um að galdramaður þessi gæti komið hlutunum í samt lag.
Síðastliðinn mánudag var ljóst að jafnvel öflugur seiðkarl af hæstu gráðu í tæknikunnáttu gat ekki tjónkað við facebook. Tölvan var sótt og framlág kona skreiddist heim þess fullviss að málið hefði siglt í endanlegt og varanlegt strand. Eftir svefnlausa nótt hugkvæmdist mér loks að reyna að kaupa „boost“ á eina greinina á síðu Lifðu núna. Þá fékk ég þau skilaboð að ég gæti ekki keypt auglýsingu á efni sem ekki væri aðgengilegt í því landi sem ég hygðist dreifa því í. Ef ég vildi breyta þessu var mér ráðlagt að fara í Page settings og opna fyrir aðgengi í fleiri löndum. Þetta gerði ég og eftir langa leit fannst flipi með yfirskriftinni Country. Smellt var á hann og viti menn Lifðu núna var einungis aðgengilegt í Bandaríkjunum. Þessu var snarlega breytt og nú er allur heimurinn undir. Lifðu núna er öllum opið. En mikið hefði nú verið gaman og gott að uppgötva þetta fyrr. Lexían sem ég lærði af bröltinu er hins vegar tvíþætt, annars vegar að smella aldrei á nokkurn link eða tengill nema að vel athuguðu máli og hins vegar að gefast aldrei upp í baráttunni við blessaða eða bölvaða tæknina.