Föstur eða ekki föstur?

Dr. Michael Mosley er þekktur í Bretlandi fyrir heimildaþætti sína um heilsu. Nokkrir þátta hans hafa verið sýndir á RÚV og vöktu ekki síður athygli hér en í heimalandinu. Hann er einnig höfundur bóka og tvær þeirra, Bætt melting – betra líf og 8 vikna blóðsykurkúrinn, hafa komið út hér á landi. Í þeim fer Dr. Michael í gegnum margt af því helsta sem hann hefur komist að í rannsóknum sínum og tilraunum er varða áhrif lífsstíls á heilsu.

Dr. Michael er heillaður af meltingarvegi mannsins. Hann, líkt og aðrir vísindamenn, er farinn að gera sér grein fyrir að margslungnari og merkilegri starfsemi fer fram í þörmunum en áður var talið. Þar er upptaka næringarefna og flutningur þeirra út í blóðrásina. Þeir framleiða einnig hormóna sem hafa mikið að segja um andlegt jafnvægi og skapsmuni okkar, bera ábyrgð styrk ónæmiskerfisins og þar leynist einnig þunnt lag taugunga er teygja sig um alla þarmana. Og hvers vegna er þetta merkilegt? Jú, þetta er sama gerð taugunga og eru í heilanum og Dr. Michael kallar þetta net litla heilann. Sá heili sér um að meltingin sé í góðu lagi.

Mörgum er í minni heimildaþáttur er sýndur var á RÚV um hvernig hugsanleg tengsl gætu verið milli heilbrigði þarmaflórunnar og einhverfu. Nokkuð er hins vegar síðan að vísindamenn gerðu sér grein fyrir að samband er milli kvíða og þunglyndis og truflana á bakteríustarfsemi í þörmum. Vitað er að fúkkalyf drepa ekki bara þær bakteríur er valda veikindum í mönnum heldur einnig þær eðlilegu og æskilegu. Þess vegna er mikilvægt fyrir fólk að huga vel að mataræði fyrir og eftir slíka lyfjatöku. Nýlega hafa læknar einnig gert tilraunir með að græða eða koma fyrir heilbrigðri þarmaflóru í skeifugörn og ristli þeirra er þjást af sáraristilbólgu.

Útrýming baktería alvarleg mistök

Þótt Dr. Michael tali ekki um fötlun eins og einhverfu bendir hann á að sjálfsofnæmisskjúkdómar hafi aukist á undanförnum árum en þá má rekja beint til niðurbrots ónæmiskerfis líkamans. Þarmaflóran sér um að byggja það upp og Dr. Michael fullyrðir að með því að viðhalda heilbrigði þarmanna geti fólk einnig haldið í skefjum slíkum einkennum. Flestum þætti þetta víst nokkuð nóg en auk alls þess er að ofan er talið hefur starfsemi bakteríanna í þörmunum áhrif á matarlyst okkar, í hvaða matartegundir við sækjum og hvernig við vinnum úr þeim. Það virðist til að mynda skipta miklu máli hvað þyngdarstjórnun varðar hvernig þarmaflóran er.

Því miður virðist fáfræði og hvatvísi mannsins hafa spillt miklu hvað varðar heilbrigði þessa hluta meltingarvegarins. Rétt eins og hann sást ekki fyrir í að útrými skógum og votlendi gætti hann heldur ekki að sér þegar kom að hans eigin innstu rökum. Við höfum útrýmt sumum af okkar gömlu, góðu vinum, eins og þarmabakteríurnar eru stundum kallaðar, og þar með eyðilagt margra milljóna ára þróun. Allt er þó ekki enn glatað þótt tæpt standi, líkt og í loftslagsmálum. Það er hægt að endurheimta og endurrækta garðinn sinn þarna niðri og þar leikur matur og matreiðsla stórt hlutverk.

Dr. Michael gerði einnig þætti um föstur og hvernig þær geta hjálpað mönnum að halda kjörþyngd. Í kjölfar þess skrifaði hann bók um þá aðferð. Þetta hefur verið kallað 5:2 mataræðið en þá borðar fólk fimm daga í viku en fastar tvo. Þá daga er aðeins borðaðar um það bil 500 kaloríur. Síðar gerðir Michael sjónvarpsþætti um daglegar föstur og stór hópur fólks um allan heim fer eftir hinu svokallaða, 8-16 matarplani en þá borðar fólk þrjár máltíðir á átta klukkustunda bili yfir daginn en fastar þess á milli. Í fyrstu voru fáar athugasemdir gerðar við þessa aðferð, enda var hún talin vísindalega sönnuð og hún virkaði. Nú eru hins vegar uppi ýmsar efasemdir og mjög margir hafa bent á að ekki sé heppilegt að sleppa morgunmat, eins og margir gera sem fara eftir þessari aðferð og einnig hefur verið sýnt fram á að þessi leið passar ekki fyrir alla. Melting sumra er á þann veg að þeir þurfa að borða oft og lítið í einu. Þetta þýðir þó ekki að aðferðin sé allsendis ónýt.

Vinna Dr. Michaels og söfnun þekkingar á samspili mataræðis og heilsu er yfirgripsmikil og áhugaverð. Ef menn eru að leita leiða til að bæta heilbrigði sitt og meltingu ætti hann sannarlega að vera á leslista. Í sjónvarpsþáttum hans og bókum er að finna gríðarlegan fróðleik um ferlið frá munni, ofan í maga og niður í gegnum þarmanna og til allra líffæra líkamans.

 „Flestum þætti þetta víst nokkuð nóg en auk alls þess er að ofan er talið hefur starfsemi bakteríanna í þörmunum áhrif á matarlyst okkar, í hvaða matartegundir við sækjum og hvernig við vinnum úr þeim.“

Daginn eftir að þessi grein birtist á Lifðu núna bárust þær fréttir frá Grikklandi að Dr. Michael Mosley væri týndur. Hann var í fríi á eyjunni Symi ásamt konu sinni, fór í göngu um morguninn en skilaði sér ekki til baka. Dr. Michael fannst svo látinn utan við gönguleiðina sem hann hafði valið. Eiginkona hans Clare gaf yfirlýsingu og minntist hans sem ævintýragjarns og dásamlegs manns.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 3, 2024 07:00