Skáldsagan Merking eftir Fríðu Ísberg er óvenjuleg, en hún fjallar um íslenskt samfélag í kannski ekki svo mjög fjarlægri framtíð. Á baksíðunni á bókarkápunni segir að samkenndarprófið sem fjallað er um í bókinni sé byltingarkennd tækni. Rannsóknir staðfesti marktæka fylgni milli andsamfélagslegrar hegðunar og að mælast undir lágmarksviðmiðum prófsins. Einstaklingum býðst að taka prófið og merkja sig í kjölfarið í opinberan kladda Sálfræðingafélags Íslands til að sýna samfélaginu fram á að þeim sé treystandi. Íslenska þjóðin er klofin í málinu. Hvað um þá sem falla á prófinu? Aðalpersónur sögunnar, Vetur, Eyja, Ólafur Tandri og Tristan tilheyra mismunandi hópum og hafa mismunandi skoðanir á merkingunni. Framundan er þjóðaratkvæðagreiðsla sem sker úr um hvort merkingarskylda verði bundin í lög. Hér á eftir fer kafli út bókinni. Ólafur Tandri baráttumaður fyrir merkingunni, er hér á leið heim af kosningaskrifstofunni, til eiginkonunnar Sólveigar, en þau eru algerlega ósammála um merkinguna.
Á ég að kaupa eitthvað á leiðinni heim?“ skrifar hann.
„Eitthvað sætt? Snakk?“ bætir hann við.
Ekkert svar. Hann reynir að vinna. Hann slitnar uppúr textanum, verður sár yfir þögninni. Síðan verður hann fúll á móti. Hann valdi þetta ekki. Hvernig átti hann að vita að hann yrði fyrir hótunum og aðkasti? Hann bíður eftir svari í nokkrar mínútur í viðbót. Skyndilega fær hann á tilfinninguna að Sólveig sé heima að búa sig undir skilnaðarsamtalið. Hann snýr sér við og spyr Himnar hvort hann sé á leiðinni heim bráðum. Himnar hristir höfuðið án þess að líta af skjánum. Óli hringir á leigubíl og sækir frakkann sinn á slána. Þegar bíllinn kemur biður hann bílstjórann að keyra sig í hverfisbúðina.
Hann veit hvað hann þarf að gera. Hann þarf að hætta í baráttunni. Hvar sem samræður þeirra byrja enda þær allar í rifrildi um merkinguna, eins og smálækir sem geta ekki annað en runnið inn í sama straumþunga fljótið. Sólveig endurtekur aftur og aftur að miðlægt sálfræðikerfi sé ekki lausnin. Að samkennd sé flóknara fyrirbæri en þetta, að glæpamenn geti verið fullir samkenndar og siðblindir blásaklausir. Og þó svo að hægt væri að draga einhverjar ályktanir út frá tíðni og fylgni þessara þátta vegi skömmin og mótlætið sem fylgir falli þyngra en hjálpin sem er veitt.
Það skiptir engu máli hvaða rökum Óli teflir á móti. Auðvitað veit hann að þetta er engin töfralausn, að merkingarskyldan mun ekki leysa öll þeirra vandamál eða útrýma glæpum og ofbeldi. Auðvitað veit hann að þetta er ekki svart og hvítt. En Sólveig getur hins vegar ekki litið framhjá óyggjandi tölfræðilegum staðreyndum: glæpatíðni stórminnkar í merktu hverfunum. Níu af hverjum tíu sem hlutu dóm á síðasta ári voru ómerktir. Einn af hverjum fjórum föngum fellur á prófinu. Segjum sem svo að samfélagið myndi grípa þessa einstaklinga, fjórðung allra þeirra sem sitja inni, og veita þeim viðeigandi úrræði áður en þeir brjóta af sér. Merkingin er ekki refsing heldur forvörn. En Sólveigu finnst það barnaleg hugsjón sem stenst ekki nánari skoðun og þannig halda þau áfram út í hið óendanlega. Hann reynir að setja sig í hennar spor, segist skilja hana. Hún sé empatísk manneskja og það sé í eðli empatískra manneskja að sjá hið mannlega í öðrum. En hún þurfi að skilja að siðlausa prósentið nýtir sér einmitt það; meðvirkni hennar.