Reynt að fjölga líffæragjöfum hér á landi

Eru íslendingar að missa af hugsanlegum líffæragjöfum.

Eru Íslendingar að missa af hugsanlegum líffæragjöfum?

Látnir líffæragjafar, hér á landi, eru tveir til sex á ári. Flestir þeir sem gefa líffæri látast úr heilablæðingu. Talið er að 25 til 30 manns þurfi á gjafalíffærum að halda á hverju ári. Menn hafa mikið velt fyrir sér leiðum til að fjölga líffæragjöfum. Liður í því er að breyta lögum um brottnám líffæra úr látnum einstaklingum. Þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér, verði það að lögum, að nema megi brott líffæri úr líkama látins einstaklings hafi sá hinn sami ekki lýst sig andvígan því. Ekki má þó nema brott líffæri úr látnu fólki leggist nánustu vandamenn gegn því. Sambærileg frumvörp hafa áður verið lögð fram á þingi en ekki náð fram að ganga. Eins og staðan er í dag verður hinn látni að hafa samþykkt að gefa líffæri sín að sér gengnum eða að hans nánustu ættingjar verða að samþykkja líffæragjöfina. Hægt er að fara inn á vef Landlæknisembættisins og skrá afstöðu viðkomandi til líffæragjafa.

 Fáir líffæragjafar á Íslandi

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.

Í skýrslu sem unnin var á vegum starfshóps sem Kristján Þór Júlíusson, heilbrigisráðherra skipaði og lögð var fram í fyrra segir að lagabreyting í átt til ætlaðs samþykkis ein og sér hafi ekki þau áhrif að líffæragjöfum fjölgi. Í áðurnefndri skýrslu er haft eftir Runólfi Pálssyni yfirlækni nýrnalækninga Landspítalans og Kristni Sigvaldasyni yfirlækni á gjörgæsludeildar í Fossvogi að gjafatíðni á Íslandi sé lág. Ástæðuna megi meðal annars rekja til þess að ekki sé nægjanlega samhæft skipulag á þeim sjúkrastofnunum sem að málinu koma. Kristinn og Runólfur vinna nú að rannsókn sem spannar tímabilið 1993–2014 varðandi dánarmein og líffæragjafir. Rannsókninni er ætlað að leiða í ljós Ísland sé að missa af gjöfum og hvert hlutfallið sé. Kristinn og Runólfur gera ráð fyrir að ljúka rannsókninni á þessu ári.

 

 

 

Ritstjórn desember 4, 2015 13:00