Rómeó og Júlía og frelsið

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Þrjátíu ár eru liðin frá því Bubbi Morthens sendi frá sér lag sitt og ljóð um Rómeó og Júlíu. Þetta er að margra mati meðal bestu laga Bubba, eins og kom til að mynda fram í kosningu þar um fyrir nokkrum árum. Samsvörunin við hið margrómaða leikverk Williams Shakespeare um elskendurna með þessi sömu nöfn, sem hann skrifaði fyrir um fjögur hundruð árum, er auðvitað augljós, það er að segja hin harmrænu og sorglegu afdrif aðalpersónananna tveggja.

Leikverk Shakespeares um Rómeó og Júlíu hefur verið túlkað á ýmsa vegu og verið kveikjan að fjölmörgum og margvíslegum verkum listamanna í gegnum tíðina, í tónlist, kvikmyndum og í fleiri formum. Án þess að vera með einhvern samanburð, þá fer ekki á milli mála að útfærsla Bubba er sérstaklega áhrifarík. Þar vegur án efa þungt hve lag hans og ljóð hafa djúpa skírskotun í samtímann, hvort sem það var nú markmið Bubba eða ekki. Frásögnin af þeim Rómeó og Júlíu í hans túlkun er nefnilega miklu meira en bara lýsing á sorglegum örlögum tveggja elskenda, sem í hans tilviki eru utanveltufólk, forfallnir eiturlyfjaneytendur, maður og kona eða strákur og stelpa, sem komin eru niður á neðsta botn samfélagsins. Eins og við á reyndar um mörg af þeim fjölmörgu lögum og ljóðum sem Bubbi hefur sent frá sér á löngum ferli, þá er Rómeó og Júlía áhrifarík lýsing á ástandi, sem engu er líkara en samfélag okkar í dag hafi mjög takmarkaðan áhuga á að breyta eða laga.

Á þeim þremur áratugum sem liðnir eru frá því Rómeó og Júlía kom út á plötunni Konu, þá hefur því miður lítið breyst til batnaðar í málefnum þess ógæfufólks sem háð er eiturlyfjum. Þetta fólk er enn meðhöndlað sem glæpamenn. Það er handtekið, því er haldið í klefa í nokkra klukkutíma og kannski sent á geðdeild í framhaldinu í nokkrar stundir til viðbótar. Svo er það sektað eða fangelsað þegar afbrotin hafa að einhverju marki safnast upp. Og oft eru þetta afbrot sem framin eru í ástandi sem brotamaðurinn hefur enga stjórn á, ástandi sem er eflaust stundum þess eðlis að áhyggjur af hugsanlegum afleiðingum koma ekki einu sinni til álita. Svo er þessum ræflum varpað eins fljótt út í samfélagið aftur og mögulegt er, og hringrásin fer aftur af stað. Þetta er vægast sagt ömurlegt.

Flestir vita lítið sem ekkert um aðstæður þess ógæfufólks samfélagsins sem hér er verið að reyna að lýsa. Og svo eru það ættingjarnir, en flestir eiga jú einhverja ættingja. Og þeir geta ekkert gert.

„Þau verða sjálf að vilja aðstoð,“ er svarið sem ættingjarnir fá þegar þeir leita til þeirra stofnana eða samtaka, þar sem þó er verið að reyna eftir fremsta megni, innan þeirra marka sem samfélagið mótar, að koma ógæfufólki til aðstoðar. En það er ekki á allra færi að rífa sig upp þegar í óefni er komið og standa sig til að eiga möguleika á aðstoð. Ættingjarnir þurfa því oft að horfa upp á syni, dætur, maka eða vini sökkva sífellt dýpra og dýpra í óefnið. Frelsið er nefnilega svo mikið metið. Frelsið er alltaf ofar öllu. Líka hjá þeim sem hafa misst tökin á lífinu eins og Rómeó og Júlía í lagi og ljóði Bubba Morthens. Það er þess vegna hægara sagt en gert að ætla að taka sjálfræðið af einstaklingi, jafnvel þó viðkomandi hafi verið langan tíma í neyslu, einstaklingi sem stefnir á fljúgandi hraða niður á botninn, eða er jafnvel kominn þangað.

En nú að öðru. Um daginn var skrifað undir kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, þar sem kveðið er á um hækkun lágmarkslauna í um 300 þúsund krónur á mánuði eftir þrjú ár. Það fylgdi þeirri sögu, að þeir sem hafa enn minna til að lifa af en þeir lægstlaunuðu, það er að segja, atvinnulausir, sumir aldraðir og öryrkjar, myndu ekki fá sambærilega hækkun á sínum framfærslulífeyri og þeir fá sem nefndir eru lægstlaunaðir. Það mætti halda að stjórnvöld vilji tryggja, að það verði örugglega áfram til hópar fólks í samfélaginu, sem muni um ókomna framtíð búa við ömurleg kjör. Þeir ráðamenn sem greindu frá þessari framtíðarsýn stjórnvalda, fyrir hönd þeirra sem verst eru settir í samfélaginu, voru reyndar nýbúnir að greina frá því að það væri forgangsmál þessara sömu stjórnvalda, að lækka gjöld á erlend álfyrirtæki. Forgangsmál, hvorki meira né minna. Það liggur því alveg ljóst fyrir hver forgangsröðunin er. Þeir allra verst settu í samfélaginu komast að minnsta kosti ekki þar að hjá stjórnvöldum. Og svo kvarta stjórnarherrarnir yfir því að almenningur skuli ekki allur eins og hann leggur sig svífa um á gleðiskýi og lofasyngja hve frábærlega vel þeir haldi um stjórnartaumana. Allt sé svo ótrúlega frábært sem þeir hafi gert.

Meðhöndlun stjórnvalda á þeim sem minnst hafa á milli handanna í samfélaginu eykur að sjálfsögðu ekki vonir um að samfélagið muni á næstunni taka af einhverri alvöru á málum þeirra sem eru nánast komnir út úr samfélaginu sem slíku. Framtíðin er því ekki björt hjá þeim sem eru í svipaðri stöðu og þau Rómeó og Júlía í hinu magnaða lagi og ljóði Bubba Morthens. Það væri kannski til bóta ef þeir sem sitja í valdastólum myndu koma út úr þeim glerhýsum sem þeir virðast lifa í og kynna sér raunverulegar aðstæður fólks. Þeir gætu byrjað á því að hlusta á Bubba syngja um Rómeó og Júlíu. Ef það dugar ekki, þá er bara að hlusta aftur, og aftur.

 

 

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson júní 8, 2015 14:16