Sannleikurinn kemur alltaf fram

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:

Einhverjir eru alltaf reiðubúnir til að leyna upplýsingum sem eiga erindi til almennings. Og því miður hjálpa stjórnvöld ekki til við að aflétta leyndinni. Þvert á móti leggja þau oft sitt að mörkum til að fela sannleikann.

Blaðamenn mega því miður enn sem fyrr gera ráð fyrir því að reynt sé að hindra að þeir geti sinnt störfum sínum eins og til er ætlast. Hlutverk blaðamanna er, eins og flestir þekkja, meðal annars að koma upplýsingum um hin ýmsu málefni sem almenning varðar á framfæri, og að veita stjórnvöldum, atvinnulífi og öðrum eðlilegt aðhald. Þetta er ekki bara eitthvað sem blaðamenn eru að fást við í vinnunni vegna þess að þeir hafi svo gaman að þessu, heldur eru þetta einfaldlega lýðræðisleg hlutverk fjölmiðlanna. Það að blaðamenn geti sinnt þessum hlutverkum er því á meðal forsendna þess að lýðræðið virki sem skyldi. Ef blaðamenn eru hindraðir í því að sinna eðlilegum lýðræðislegum hlutverkum sínum, þá er þar með verið að vinna gegn lýðræðinu. Óþægilega mörg dæmi eru um slík í okkar samfélagi á umliðnum árum. Og því miður geta þeir sem taka að sér það hlutverk að hindra blaðamenn við eðlilega vinnu sína vísað í lög eða reglur sem hægt er beita. Þannig geta þessir aðilar því í raun fengið aðstoð stjórnkerfisins, sem stjórnvöld virðast engan áhuga hafa á að laga að nútíma samfélagi í þessu sambandi, til að hefta lýðræðið, þrátt fyrir öll fögru fyrirheitin um annað.

Það er auðvelt fyrir varðmenn sérhagsmunanna að hefta eðlilega vinnu blaðamanna svo mánuðum og jafnvel árum skiptir með lögbönnum eða ákærum. Það er furðulegt hve langan tíma það tekur að kveða upp úrskurði í þessum málum, eins og til dæmis varðandi lögbannið frá því í fyrra gegn Stundinni sem frægt er. Sýslumaður úrskurðaði hagsmunagæslumönnunum í vil, að því er virðist án þess að taka tillit til tjáningarfrelsisins, og margra mánaða bið tók við. Þetta er fáránlegt system. Raunverulegt lýðræði á ekki að vera svona. Ef stjórnvöld meina eitthvað með því að vilja styrkja stöðu fjölmiðlanna þá myndu þau gera varðmönnum sérhagsmunanna erfiðara fyrir í að hindra blaðamenn þegar þeir gegna sínum eðlilegu störfum. Sérstaklega þegar haft er í huga að upplýsingar hafa almennt tilhneigingu til að koma fram fyrr eða síðar, eins og við á um sannleikann.

Það eru ekki bara einhverjir varðmenn sérhagsmuna sem leggja sig fram um að koma í veg fyrir að hinar ýmsu upplýsingar er varða almenning séu gerðar opinberar. Ýmsir valdamenn hafa verið duglegir í gegnum árin að misnotað aðstöðu sína, jafnvel ítrekað, og setið á upplýsingum sem sannarlega áttu erindi til almennings, ekki hvað síst í aðdraganda kosninga. Það sama á við um þetta eins og varðandi sérhagsmunina, helsta vonin er að blaðamönnum sé gert mögulegt að sinna eðlilegum hlutverkum sínum án óeðlilegra afskipta yfirvalda eða annarra.

Fréttir af árásum glæpamanna og jafnvel stjórnvalda í útlöndum á blaðamenn sem sinna vinnu sinni hafa verið óhugnanlega margar að undanförnu. Og það jafnvel á stöðum sem eru ekki svo ýkja langt frá okkur á landakortinu. Það hefði mátt búast við því að þær hörmungafréttir sem fluttar hafa verið myndu efla menn í því hér á landi að styðja frekar við bakið á íslenskum blaðamönnum heldur en hefta vinnu þeirra. Svo hefur þó því miður ekki orðið. Þó svo að íslenskir blaðamenn starfi við allt aðrar aðstæður en kollegar þeirra í útlöndum sem hafa orðið fyrir líkamlegum árásum og ógnunum ýmiss konar, þá gæti staðan verið svo miklu betri hér en hún er. Það er ekki til vitnis um vandað stjórnarfar eða gott siðferði að fela upplýsingar og þar með sannleikann.

Ben Bradlee, fyrrum ritstjóri Washington Post, sem gegndi meðal annars lykilhlutverki ásamt þeim Bob Woodward og Carl Bernstein í að afhjúpa Watergate-hneykslið sem felldi Richard Nixon af stóli Bandaríkjaforseta árið 1974, sagði eitt sinn, að sannleikurinn liggi sjaldnast fyrir frá byrjun í hinum ýmsum málum. Í lýðræði komi sannleikurinn hins vegar alltaf fram. Það geti stundum tekið langan tíma, ár eða jafnvel áratugi, en það takist engu að síður alltaf í lokin. Upplýsingar sem skipta máli munu því á endanum skila sér til almennings.

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson október 29, 2018 09:45