Njótum sumarsins

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:

Samfélagsumræðan hefur svo sannarlega tekið stakkaskiptum með heimsmeistaramótinu í fótbolta. Karp og tuð um hið fánýta og ómerkilega, sem svo ótrúlega oft einkennir umræðuna, er horfið eins og dögg fyrir sólu, sérstaklega eftir að „strákarnir okkar“ stóðu sig eins vel og raun ber vitni í fyrsta leiknum. Nýliðnar sveitarstjórnarkosningar eru nánast gleymdar og formælingarnar og upphrópanirnar með ásökunum og brigslyrðum, beinlínis vegna þess hvað sumir virðast eiga erfitt með að sætta sig við niðurstöðurnar, hafa þurrkast út og við hefur tekið einskær gleði í flestum ef ekki öllum hornum, þrátt fyrir misjafnt gengi í leikjunum í Rússlandi.

Það er eins og sumarið sé loksins komið, þrátt fyrir veðrið. Samfélagsmiðlar, dagblöð og fréttatímar ljósvakamiðla eru uppfullir af fótbolta. Það er ekkert rifrildi í gangi sem ástæða er til að taka eftir, bara spenna, ánægja og almenn gleði. Þvílíkur léttir.

 Opinber umræða snýst að miklu leyti um stjórnmál með einum eða öðrum hætti og hún er oft skrítin. Sumir virðast eiga erfitt með að sætta sig við þær niðurstöður sem fást úr hinu lýðræðislega ferli fulltrúalýðræðisins sem stjórnskipun okkar byggir á. Við kjósum hvorki ríkis- né sveitarstjórnir. Og það eru engar reglur í gildi um það hver útkoman verður eftir kosningar. Það ræðst fyrst og fremst af samskiptum og samkomulagi þeirra sem kosnir eru hverju sinni eins og dæmin í gegnum tíðina sanna. Enda höfum við kjósendur hver um sig bara eitt atkvæði. Það atkvæði segir til um hvað við styðjum en ekki hverju við höfnum, eins og sumir virðast halda, og litar því miður oft umræðuna.

 Í fjölflokkakerfi eins og hér á landi þá snýst málið um það hverjir geta og vilja vinna saman, svo framarlega sem enginn flokkur fær hreinan meirihluta í kosningum. Þetta ætti ekki að vera erfitt að skilja. Ég held að svona og annar sambærilegur misskilningur sé oft ástæðan fyrir því hvað opinber umræða um stjórnmál getur verið leiðinleg. Og tel næsta víst að það eigi sinn þátt í minnkandi áhuga almennings á stjórnmálum. En, til allrar lukku þá hófst heimsmeistaramótið um daginn, og tuðið og nöldrið varð eitthvað svo léttvægt, sérstaklega eftir jafnteflið gegn Argentínu. Gallinn er bara sá að heimsmeistaramótið tekur enda. Næsta víst er að einhverjir munu þá fyrr en seinna fara aftur af stað á samfélagsmiðlunum með sömu leiðindin og áður. Það má hins vegar njóta friðarins fram að því.

Bent hefur verið á að samfélagið í heild geti lært af velgengni „strákanna okkar“ og reyndar „stelpnanna“ einnig. Góður árangur landsliðanna í fótbolta hafi sýnt hvernig samvinna, góður andi og bara almennur dugnaður skili árangri. Næsta víst er að það er hægt að draga þá ályktun að þetta geti einnig átt við á fjölmörgum öðrum sviðum samfélagsins. Stjórnvöld gætu til að mynda tekið þetta til sín. Góð samvinna við þjóðina gæti komið fram í því að standa við loforðin sem gefin hafa verið, ekki bara fyrir síðustu kosningar heldur trekk í trekk í gegnum árin, loforð sem tryggðu að minnsta kosti sumum þeirra sem nú stjórna á æðstu stöðum þá stóla sem viðkomandi sitja í. Það er hins vegar ekki ástæða til að fara út í eitthvað svona tuð á þessu stigi. Nægur tími verður til þess síðar. Nú er um að gera bara að njóta sumarsins.

Grétar Júníus Guðmundsson júní 25, 2018 09:47