Sælkerinn og næringarfræðingurinn

Að njóta matar og líða vel með sjálfan sig getur sannarlega farið saman segja þau Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur og Albert Eiríksson lífskúnstner og sælkeri með meiru. Elísabet vinnur við næringarráðgjöf í Sporthúsinu og segist vera búin að skoða fjöldann allan af fólki á öllum aldri og hafa komist að þeirri niðurstöðu að öll fanatík sé af hinu vonda því hófið sé best í öllu. En það sé þessi heildræna nálgun að heilsu sem sé í öllum tilfellum skynsamlegust og best.

Matardagbókin

Þau eru bæði að austan, hann frá Fáskrúðsfirði og hún frá Vopnafirði, en þekktust ekkert þegar þau hittust fyrir tilviljun í matarboði fyrir nokkrum árum. Í framhaldi af því datt Alberti í hug að fá ráð hjá Elísabetu varðandi mataræði sitt. Ekki af því það væri eitthvað að hrjá hann heldur hefur áhugi hans á áhrifunum sem maturinn hefur á okkur eflst með árunum. “Ég þóttist vera búinn að komast að því að við gætum haft áhrif á allskonar lífsstílssjúkdóma með mataræðinu einu saman,” segir Albert. “Við Bergþór prófuðum að fara á grænmetisfæði alfarið og í tengslum við það fór ég að lesa mér til um það sem við látum ofan í okkur. Við það fórum við að borða miklu fjölbreyttari fæðu en áður en eftir nokkurn tíma bættum við kjöti og fiski aftur inn en héldum grænmetinu samt áfram inni í fæðinu. Þannig mataræði hentar okkur mjög vel.”

Albert og Elístabet kunna vel þá list að gera grín að sjálfum sér og málefninu. Myndina tók Helena Stefánsdóttir í Skyrgerðinni í Hveragerði.

Albert segist hafa sagt Elísabetu í upphafi í grófum dráttum hvað hann borðaði og hún hafi bara verið nokkuð sátt við það. “Hún sagði mér samt að halda nákvæma matardagbók þangað til við hittumst næst,” segir Albert. “Þá kom í ljós að ég var búinn að ljúga að sjálfum mér því sem ég sagði svo Elísabetu í byrjun, þ.e. að ég drykki ekki mikið kaffi, borðaði ekki mikið brauð, drykki mikið vatn og borðaði töluverðan fisk. Þegar ég skrifaði svo matardagbókina kom í ljós að ég borðaði mikið af brauði, drakk mjög mikið kaffi og lítið vatn og borðaði mjög lítið af fiski. Ég var búinn að telja sjálfum mér trú um þetta og það hljómaði mjög vel. En reyndin var allt önnur. Það var mjög einfalt að skrifa svona dagbók og ég hvet alla til að prófa það. Matardagbókin hafði strax áhrif á mataræði mitt og það varð svo augljóst hvað ég var að gera rangt. Það var með hjálp Elísabetar að ég breytti því sem þurfti að breyta en ég umbylti engu.”

Var sólginn í salt og mjólkurvörur og borðaði mikið af kjöti

Í æsku var Albert með fjölmarga hvíta bletti á nöglunum. Af matarsögu hans úr sveitinni í æsku hans þótti Elísabetu ljóst að Albert hefði skort magnesíum og D vítamín til að vinna á móti öllu kalkinu sem hann hafði fengið úr mjólkurvörunum sem hann innbyrti í ríkum mæli sem barn eins og títt var til sveita. Svo var hann með krónískar blóðnasir sem hættu þegar hann jók grænmetis- og ávaxtaneyslu því C vitanin styrkir æðaveggina. “Þetta eru bara tvö lítil dæmi um það hvað matur hefur mikil áhrif á okkur,” segir Albert.

Þau Elísabet og Albert hittust upp frá þessu vikulega í nokkurn tíma og hún leiðbeindi honum með nokkur atriði sem hann hafði grun um að væru áhrifavaldar varðandi líkamlega líðan sína og fékk staðfestingu á hjá henni. Eitt var gífurleg saltlöngun og þá ráðlagaði hún honum að drekka mysu daglega og sjá hvað gerðist. Það tók hann 10 daga að finna mun.

Sama meðferð hentar alls ekki öllum

Í byrjun segist Albert hafa verið fordómafullur og ætlaði nú alls ekki að fara að láta þennan næringarfræðing taka allt út úr fæðinu hans sem honum þætti gott. Það kom honum því þægilega á óvart hvað Elísabet var jákvæð. Hann sagði henni til dæmis strax að hann drykki kaffi með rjóma og ætlaði alls ekki að fara að hætta því. Hún sagði þá rólega: Já, og hvað með það. “Og það var ekkert mál og svo ræddum við um skynsemina í því að hugsa um sinn eigin lífsstíl,” segir Albert.

Fræðslan skiptir mestu máli

“Við náðum að hittast reglulega og  smám saman sá ég að hugsunarháttur Alberts tók að breytast og hann varð tilbúinn í þær breytingar sem þurfti að gera,” segir Elísabet. “Það er fyrst og fremst fræðsla sem leiðir til hugarfarsbreytingar sem þarf að eiga sér stað svo hægt sé að breyta einhverju. Fyrr er fólk ekki tilbúið. Við tölum alls ekki um kíló og ekki um hitaeiningar.” Albert bætir við að hann hafi prófað ýmislegt, m.a. að taka kolvetni alveg út. “Það varð alveg ótrúlega leiðinlegt tímabil,” segir hann og hlær dátt. “Ég hef átt mínar bestu stundir í alvöru kaffi- og kökuboðum og þætti alveg ógurlega sorglegt að þurfa að sleppa þeim. Við fundum samt út að mér leið vel þegar ég sleppti kolvetnunum og núna stýri ég mataræði mínu þannig að ég reyni að borða lítið af kolvetnum fyrri part dags. Sá taktur hentar mér mjög vel. Ég hef aldrei haft mikla matarlyst á morgnana og fyrir mér eru röng skilaboð að borða þegar ég er ekki svangur.”

Elísabet og Albert smita kátínu þar sem þau fara. Myndina tók Olga Helgadóttir.

Hlustaðu á líkamann

Albert fær sér alveg kókosbollu ef hún er í boði. “Ég veit að það er bara allt í lagi að borða hálfa kókosbollu en ekki fjórar þótt mér þyki þær góðar,” segir Albert. Elísabet bætir við að svo skipti jafnmiklu máli hvað komi frá okkur og það sem fari ofan í okkur. “Nú vitum við að meltingin skiptir gífurlegu máli varðandi bæði andlega og líkamlega heilsu. Öll flóran þarf að vera í lagi ef við viljum vera hraust.” Albert segir að í fyrsta sinn hafi hann farið í gegnum dimmasta tíma ársins nú í ár án þess að finna fyrir skammdegisþyngslum. Hann þakkar það breytingunni á lífsstílnum þótt hann hafi ekki umbylt neinu.

Njótum ríkulega frekar en horfa á hitaeiningar

Elísabet segir um Albert að hann sé mjög gott dæmi um heilbrigðan mann sem án nokkurrar ýkju tekur lífsstílinn föstum tökum, er félagslega sterkur og uppsker meiri lífsgæði. “Félagsnetið í kringum okkur skiptir miklu máli,” segir hún. “Við þurfum að horfa á heilsuna heildrænt. Við eigum alls ekki að fórna matarboði með skemmtilegu fólki af því við erum sífellt að hugsa um hitaeiningar. Förum frekar í matarboðið og njótum matarins og samverunnar ríkulega og skemmtum okkur. Það eru aldrei veislur alla daga.”

Alltaf hægt að vera betri útgáfa af sjálfum okkur

Albert og Elísabet hafa haldið fyrirlestra um þessa sameiginlegu  sýn á lífið sem þau hafa og verið fengin að tala í fyrirtækjum í Reykjavík og í Skyrgerðinni í Hveragerði. Þau tala um mikilvægi þess að vera meðvitaður án þess að bylta öllu sínu lífsmynstri. “Oft þarf ekki að breyta svo miklu heldur kemur breytingin af sjálfu sér þegar við förum að gefa því gaum sem við setjum ofan í okkur,” segja sælkerinn og næringarfræðingurinn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn mars 9, 2018 06:39