Að láta sér líða vel

Steinunn Þorvaldsdóttir

Steinunn Þorvaldsdóttir kennari hjá Líkamsrækt JSB skrifar

Yfirleitt tengjum við vellíðan við slökun og hvíld. Það er einmitt í því ástandi sem við gefum okkur tíma til að láta hugann reika og renna yfir það sem skiptir máli í lífinu. Slökunin felur það jafnframt í sér að vera ekki viðvarandi ástand, annars væri hún ekki eins kærkomin og mikið tilhlökkunarefni og raun ber vitni.

Til þess að geta notið hvíldar þarf líkaminn að fá næga áskorun og örvun. Við þurfum að styrkja vöðvana og beinin, halda liðunum smurðum og efla þolið og liðleikann. Þetta eru engin ný sannindi en þarna liggur grunnurinn að líkamlegri og andlegri líðan okkar.

Öll hreyfing er betri en engin. Hins vegar er ekki sama hvernig staðið er að líkamlegri þjálfun. Ef þess er ekki gætt að líkamanum sé beitt rétt, getur það skilað sér í verkjum og vanlíðan. Ef þjálfunin er ekki nógu markviss, verður árangurinn í samræmi við það. Ef þjálfunin miðast ekki við að hver og einn læri að hlusta á eigin líkama og vinna með hann út frá eigin forsendum, er ekki líklegt að ávinningurinn verði nægjanlega góður.

Það myndast ákveðin orka þar sem fólk kemur saman til góðra verka. Hérna hjá JSB myndast einstakur og jákvæður kraftur sem konurnar og stelpurnar kalla fram hver hjá annarri og ekki síst hjá okkur kennurunum. Dansmenningin er allt um lykjandi og grunnurinn liggur þar. Stöðug fræðsla og þekking heldur okkur líka á tánum í allri okkar þjálfun.

Markmiðið með þjálfuninni okkar hjá JSB er skýrt. Hún miðast við að efla og styrkja líkamann þannig að hann þjóni okkur sem best og kalli fram þessa góðu tilfinningu og vellíðan sem er svo eftirsóknarverð.

 

 

Ritstjórn október 26, 2017 11:51