Þurrkur í augum algengur

Algengt er að fólk þjáist af augnþurrki sem verður  þegar augun framleiða ekki nóg af tárum eða að tárin gufa of fljótt upp. Þeir sem eru með augnþurrk fá oft á tilfinninguna að þeir séu með aðskotahlut í augunum og þá sérstaklega á morgnana. Eitt megineinkenni augnþurrks er að tárin flæða í auknum mæli en oft er þetta bara það að tárakirtlarnir eru að eldast.

Augnþurrkur leggst frekar á konur en karla og oftast á barnshafandi konur eða konur eftir tíðahvörf. Fjölmargir fá augnþurrk í tengslum við sjúkdóma á borð við gigt og aðra sjálfsofnæmissjúkdóma. Þetta gildir sérstaklega um konurnar. Þá eru þeir sem nota snertilinsur í áhættuhópi eins og kemur fram í greininni Þurr augu á vef Sjónlags

Þurr augu verða ekki læknuð fullkomlega en hægt er að meðhöndla þau.

„Yfirleitt er ekki er hægt að lækna augnþurrk en meðferðin byggir á að halda einkennum niðri og meðhöndla undirliggjandi orsakir ef hægt er. Aðaleinkenni eru sviði, pirringur/kláði, roði í augum og aukið tárarennsli. Augnþurrkur er hins vegar ekki eina ástæða fyrir auknu tárarennsli; þrengsli eða lokun á táragöngunum sem liggja niður í nefholið eða öldrunarbreytingar á augnlokum geta valdið auknu tárarennsli. Þetta er hægt að útiloka með því að sprauta saltvatni niður táragöngin og skoða útlit og legu augnloka,“ segir Sigríður Þórisdóttir augnlæknir.

Hvernig er hægt að vita hvort um augnþurrk er að ræða? Einkenni þurra augna eru tár sem falla í auknum mæli, óskýr sjón, pirringur í augum, kláði, sviði og óþægindi, þreyta eða roði eftir mikla áreynslu á augun. Lyf valda stundum augnþurrki með því að og minnka táraframleiðslu frá tárakirtlinum, snertilinsur soga í sig vökvann í augunum og svo blikkar augað sjaldnar við tölvuna auk þess sem þar er líka oft þurrt.

Ritstjórn júlí 14, 2014 15:54