Enginn vill vera einmana

„Fimmti hver Íslendingur 67 ára og eldri er stundum eða oft einmana. Stundum er það alvarlegt mál, flókið og erfitt að vera einmana. Þú getur valið að vera einn, en enginn vill vera einmana. Afleiðingar einmanaleika og félagslegrar einangrunar geta verið bæði líkamalegar og andlegar“, sagði í tilkynningu um málþing um einmanaleika eldra fólks sem haldið var nýlega. Það var Landssamband eldri borgara sem hélt málþingið í samvinnu við Farsæla öldrun – Þekkingarmiðstöð með stuðningi heilbrigðisráðuneytisins.

Ráðherra einmanaleika í Bretlandi

Víða um lönd hafa menn í auknum mæli beint sjónum að líðan og einmanaleika eldra fólks. Í skýrslu sem nýlega kom út á vegum Norrænu ráðherranefndarinar um einmanaleika eldra fólks á Norðurlöndum segir að þar og víðar hafi verið gripið til aðgerða í því skyni að minnka einmanaleika meðal eldra fólks. Aðgerðir breta hafi vakið mesta athygli, en árið 2018 var sett þar á laggirnar sérstakt ráðherraembætti einmanaleikans. Norrænar rannsóknir á einmanaleika sýna að einmanaleiki er mestur meðal yngra fólks og fólks á aldrinum 75 ára og eldra. Einmanaleiki meðal eldra fólks hefur ekki aukist hlutfallslega. Samt eru mun fleiri einmana nú eða áður, þar sem hlutfall eldra fólks af heildaríbúafjöldanum fer hækkandi.

Einmanaleiki minni á Norðurlöndunum

Samanborið við önnur Evrópulönd, er einmanaleiki á Norðurlöndum minni en þar. Á Norðurlöndunum er einmanaleiki meðal eldra fólks mestur í Finnlandi og Svíþjóð.  Fram kemur í skýrslunni að Norðurlöndin hafi ýmislegt gert til að draga úr einmanaleika. Norska ríkisstjórnin hafi þannig tekið einmanaleika inn í lýðheisluverkefni sín, með það að leiðarljósi að auka félagslega þáttöku eldra fólks. Í Danmörku hefur verið gripið til verkefna í sveitarfélögunum í samvinnu við félagasamtök, til að minnka einmanaleika þeirra sem fá heimaþjónustu. Félagsþjónustan í Svíþjóð hefur veitt fjármagni til verkefna sem stuðla að því að rjúfa einangrun og einmanaleika fólks, svo og Finnar og Íslendingar. Hjá Reykjavíkurborg er til dæmis í gangi verkefnið Aldursvæn borg.

Að vera einn eða hafa misst maka

Einmanaleiki tengist oft heilsuleysi og félagslegri einangrun og í skýrslunni segir að hann geti leitt til ótímabærs dauða. Yfirleitt er orsakasamband milli einmanaleika og slæmrar andlegrar og líkamlegrar heilsu. Í skýrslunni segir að einmanaleikarannsóknir séu vaxandi vísindasvið, en langtímarannsóknir skorti og einnig sérstakar rannsóknir á einmanaleika eldra fólks. Ýmsir áhættuþættir þegar kemur að einmanaleika, séu ekki nægilega mikið rannsakaðir til að unnt sé að komast að skýrri niðurstöður um ástæðurnar fyrir því að eldra fólk er einmana. Þó hafi verið sýnt fram á að þættir eins og þeir að eiga ekki maka, hafa misst maka. hafa lítið samband við aðra og lítinn félagslegan stuðning, auki hættuna á að menn verði einmana.  Helsta niðurstaða skýrslunnar er að það þurfi að rannsaka einmanaleika eldra fólks á Norðurlöndum betur.

 

Ritstjórn september 16, 2020 14:58