Ragnhildur Erla Bjarnadóttir skrifar
Ísland hefur á svo margan hátt áhrif á líf systur Jóhönnu sem er aðalpersóna sögunnar. Hún kynnist Höllu, íslenskri stúlku sem kemur til Parísar til að stunda nám við Sorbonne. Þær deila herbergi og verða nánar vinkonur. Halla kennir systur Jóhönnu íslensku og Jóhanna Höllu frönsku og árið líður við nám og störf. Bréf berst til Páfagarðs frá Kaþólska biskupnum á Íslandi þess efnis að mögulega sé eitthvað óviðurkvæmilegt að eiga sér stað í Landakotsskóla sem er stjórnað af séra Ágústi Frans og er systir Jóhanna beðin um að fara til Íslands og athuga hvort fótur sé fyrir þeim aðdróttunum sem þar er ýjað að.
Tuttugu árum síðar er systir Jóhanna beðin öðru sinni að fara til Íslands vegna þessa sama máls og í þetta sinn er hún staðráðin í að reyna að hitta Höllu vinkonu sína þótt þær hafi ekki haft samband í áratugi.
Sagan er einstaklega fallega skrifuð, ljóðræn, spennandi og hugljúf. Þetta er bæði ástar- og glæpasaga en sögð á svo yfirvegaðan og fallegan máta að glæpurinn verður ekki aðalatriðið heldur samskipti sögupersónanna og breiskleiki þeirra. Það voru ákveðin forréttindi að fá að kynnast systur Jóhönnu.
Textabrot úr bókinni
Hann hafði gerst sekur um glæp. Þau voru að prjóna og hann hafði gleymt sér. Hann gleymdi sér oft því það var svo gott að láta hugann reika, hann gat farið með mann svo langt í burtu þangað sem sorgin var ekki til og næturnar liðu í fallegum draumi. Stundum fór hann á bæinn þar sem hann hafði verið í sveit í hittifyrra, inn í hlöðu og henti sér í heyið, stundum að læknum þar sem murtan faldi sig undir bökkum. Stundum inn í sögurnar í teiknimyndablöðunum sem pabbi hans hafði keypt handa honum úti í heimi. Aldrei á sjúkrahúsið og aldrei út í kirkjugarð.
Hún hafði hrifsað af honum garnið og prjónana og skipað honum að leggja hendurnar á borðið. Þær titruðu svolítið en hann gerði eins og honum var sagt, handarbökin upp. Hin börnin þóttust einbeita sér að handavinnunni en hann fann að þau horfðu öll á hann – og hana þar sem hún stóð yfir honum.
Enn saurgar þú þig í augliti Guðs, sagði hún og fór að rekja upp það sem hann hafði þó komið í verk, upphafið á trefli. Hvað á þessi óskapnaður að vera?