Hallgrímur Thorsteinsson í verslunarrekstri

Hallgrímur Thorsteinsson er borinn og barnfæddur Garðbæingur og margfrægur fjölmiðlamaður bæði í útvarpi og á dagblöðum. Hann er kvæntur Ragnheiði Óskarsdóttur  og segir hann brosandi að börn þeirra séu meira að segja líka sest að í Garðabænum, öll nema eitt sem sé enn búsett í næsta bæ, kallaður Reykjavík.

Hallgrímur hefur verið að gera ýmislegt frá því hann hætti fjölmiðlavafstri en hann segist hafa verið kominn með nóg

af fjölmiðlum í bili. Undanfarið hefur hann meðal annars verið að gera podköst fyrir Storytel, aðallega í kringum bókmenntahátíðarnar á haustin og síðan setti hann upp vefsíðu sem hann kallaði Hljómkerann. Sú síða var ætluð þeim sem brunnu fyrir “góðu sándi” eins og Hallgrímur segir. “Þetta voru hljómpælingar fyrir nörda,” bætir hann við.

Nú er Hallgrímur kominn í stöðu aðstoðarmanns hjá Ragnheiði konu sinni við rekstur á verslunum á Garðatorgi og á Laugavegi. Á Garðatorgi eru höfuðstöðvar verslunarinnar Ilse Jacobsen en sú verslun opnaði fyrst í Garðabænum 2005 og því orðin 15 ára. Þau opnuðu síðan aðra Ilse Jacobsen verslun við Laugaveg 33 í Reykjavík. “Ég hef komið meira inn í reksturinn á fyrirtækinu með tímanum og síðan bættum við öðru dönsku merki við og opnuðum verslun á Garðatorgi með því merki sem heitir BAUM UND PFERDGARTEN svo nú rekum við þrjár verslanir, eina í Reykjavík og tvær á Garðatorgi og þar að auki 2 netverslanir og heildsölu. Svona fyrirtæki er eins og ungviði sem vex og dafnar ef því er vel sinnt,” segir Hallgrímur og brosir. “Annars lognast það bara út af og deyr. Okkur hefur sem betur fer tekist að sinna  þessu fyrirtæki vel. Í kringum það hafa orðið til netverslanir sem þarf að sinna meir og meir, ekki síst nú á covid tímum.”

Hallgrímur dvelur nú í sumarbústað þeirra hjóna fyrir austan fjall en hann er með viðkvæm lungu og forðast covid eins og hann getur. Þá er gott að eiga athvarf í sveitinni.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 20, 2020 21:42