Að panta mat eftir strikamerki

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Mér þykir gaman að fara á veitingahús og borða góðan mat. Ég klæði mig í betri föt og athöfnin byrjar með því að skoða matseðilinn. Myndir af girnilegum réttum eru skoðaðar og heiti og verð eru rædd. Svo er pantað. En þessi byrjun á heimsókn á veitingahús er greinilega á útleið. QR-kóðinn er að taka við.

Við ákváðum að fara til Spánar í nokkrar vikur til þess að hvíla okkur á snjónum fyrir norðan. Fyrsta morguninn  í Malaga fórum við á kaffihús til þess að fá okkur morgunverð. Við báðum um matseðil en þjóninn benti okkur á strikamerki sem var límt á borðshornið. Við höfðum aldrei séð svona merki og spurðum hvort hann ætti ekki venjulegan matseðil. Hann hristi höfuðið en játaði svo treglega að hann ætti einhvers staðar uppi í hillu gamaldags matseðil en hann væri reyndar ekki uppfærður. Hann skellti rykföllnu eintaki á borðið og við pöntuðum heldur þungbúin. Við vorum greinilega “out” í augum þjónsins. Við ákváðum að þarna færum við aldrei aftur.

En þetta var bara byrjunin. QR-kóðinn hefur greinilega tröllriðið rekstri veitingahúsa á Spáni. Strikamerki á litlum kubbi eða límmiði á borðshorni. Það er málið í dag. En hvað er QR-kóði. Ég gúgglaði fyrirbærið og fékk eftirfarandi skýringu. QR-kóði stendur fyrir Quick Response og er strikamerki sem hægt er að geyma gögn á bak við og maður á að skanna þetta merki með því að nota myndavél í síma eða í öðru snjalltæki. Og þá loks getum maður séð hvað staðurinn hefur á boðstólnum. Hve lengi er hægt að gera einfalda hluti flókna!

Við hittum íslenska fullorðna konu á förnum vegi í Malaga og fórum að ræða þetta umrædda strikamerki. Hún hristi höfuðið og sagði að það væri alltaf verið að örgra okkur með nýjum tæknilegum áskorunum. Hvað var að prentuðu matseðlunum? Getur verið að Covid og sóttvarnaraðgerðir hafi verið hugsunin á bak við þessar ”framfarir”. Varla. Við fórum á fínan veitingastað eitt kvöldið og þar var bara kóðin frægi í boði. Þegar við ætluðum að standa upp og fara, dró þjónninn upp úr vasa sínum gamlan og subbulegan snjallsíma. Eftir drjúga leit í símanum, hallaði hann sér yfir mig og gerði tilraun til þess að sýna hvað væri í boði, allt á spænsku. Ég var kominn með þreyttan síma mannsins í hendur og við pöntuðum eitthvað tvennt, en fengum þrjá rétti. Allir þrír voru fjarri því sem við héldum að við værum að panta. Ef  þjóninn hefði verið með Covid hefði hann örugglega náð að smita okkur.

Þegar við komum aftur heim í snjóinn fyrir norðan fórum við á Rub 23.Við fengum í hendur fallegan matseðill í möppu og góð ráð frá elskulegum þjóni. Við þökkuðum okkar sæla fyrir að Ísland er ennþá með ”gamaldags” matseðla sem hægt að skoða og panta eftir án þess að missa æruna í augum þjónsins.

Sigrún Stefánsdóttir maí 16, 2022 07:14