Hver kannast við orðið matvendni ?

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Hver kannast við orðið matvendni ? Það er að finna í Íslenskri orðabók og er útskýrt sem kræsni, kostavendni og vandlæti á mat. Þetta orð kom upp í hugann þegar ég horfði á Skaupið um áramótin og sænska þáttinn Besta mataræðið, þar sem var verið að fjalla um  mataræði og hvað fólk borðar og hvað ekki. Þegar ég var að alast upp og gat ekki borðað steiktu lifrina hennar mömmu var ég sögð matvönd. Ég átti að skammast mín þar sem börn væru sveltandi í útlöndum. Ég fékk ekkert í staðinn fyrir lifrina. Kartöflurnar urðu að duga í það mál.

Nú er öldin önnur. Í þættinum Besta mataræðið sagði kokkur á veitingastað frá því hvernig nærri helmingur gesta hans væri stundum með sérþarfir og hvernig hann þyrfti að dansa eftir því. Undanfarin sumur hef ég ferðast um með sextán manna hópa Bandaríkjamanna. Í einum hópnum voru sex með sérþarfir. Einu sinni til tvisvar á dag þurfti ég að gera boð á undan mér vegna hádegisverðar og kvöldverðar og fara yfir lista sérþarfa: borðar ekki rautt kjöt, borðar ekki kjúkling, ofnæmi fyrir skelfiski, hatar fisk, glúten óþol, keto, vegan, laktosa ofnæmi, hnetuofnæmi. Ég gekk svo í gegnum próf við hvert mál þegar ég var að eyrnarmerkja sérþarfirnar einstaklingunum í hópnum mínum. Það var nefnilega persónuleg móðgun ef eitthvað fór úrskeiðis í þessum efnum. Að setja kjúkling fyrir fram vegan og fisk fyrir framan fiskhatarann. Guð hjálpi mér!

Þetta er mér umhugsunarefni. Á hvaða ferðalagi erum við? Í fyrsta lagi held ég að allar þessar sérþarfir leiði til aukinnar matarsóunar, burt séð frá allir aukavinnunni sem þetta hefur í för með sér. Í öðru lagi finnst mér dónalegt að hafna mat sem að mér er réttur þar sem ég er gestkomandi. Bjóddu frönskum fjölskyldum upp á þetta. Þær myndu henda gestinum út fyrir dónaskap. Þar borðar þú það sem að þér er rétt.

Þegar ég mætti ferðalanginum mínum með glútenofnæmið með stærðar Vínarbrauð í munninum, hugsaði ég mitt. Næsta dag lét ég sem ég gleymdi því að tilkynna glútenofnæmið hennar. „Þetta er allt í lagi, Siggý, því ég hef ekkert fitnað í ferðinni“. Þá missti ég endanlega samúðina með ofnæminu hennar.

Ég hef verið með sérþarfir í sambandi við mataræði síðustu tuttugu ár. Ég hætti að borða kolvetni. Ég er oft boðin í mat en ég hef aldrei nefnt það einu orði að ég borði helst ekki kolvetni. Það er alltaf eitthvað á borðum sem ég get borðið. Ég fær mér bara lítið af kolvetnaríka matnum og læt ekki á neinu bera og fer alltaf heim södd og glöð.

Þurfum við ekki að fara skoða þetta aðeins betur. Er ekki nóg að vera með matvönd börn þó við séum ekki með fullorðið fólk sem vill ekki þetta og vill ekki hitt. Auðvitað er til fólk með ofnæmi og það ber að virða en ég legg til að hinir komi með eigin mat í nestiboxi í næsta matarboð.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir janúar 27, 2020 08:00