Hárvöxtur á vitlausum stöðum

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég lagði mig síðdegis á dögunum og náði að blunda. Þegar ég rumskaði strauk  ósjálfrátt  yfir hökuna og uppgötvaði eitt gróft hár, sem stóð beint út í loftið. Ég fékk hjartslátt og fálmaði eftir þessum óvini og reif hann upp með rótum. Fyrir nokkrum mánuðum hafði ég rifið upp annað gróft grátt hár á þessum sama stað á hökunni. Ömurlegt ellimerki. Komin með rót á hökuna sem framleiðir hár sem minnir á skegghár karla.

Af hverju fór þetta svona illa í mig? Ég veit það ekki en ég minntist orða amerískrar vinkonu minnar sem sagði að með árunum missti maður hár þar sem maður vildi hafa það en fengi í staðinn hár á staði þar sem maður vildi alls ekki hafa það. Þetta gráa hárstrá er dæmi um þetta.

Reyndin er sú að margar konur eru alla ævina að berjast við eigin hárvöxt. Stelpur með liðað hár vilja hafa slétt hár. Þær sem eru með slétt hár reyna að krulla það við hátíðleg tækifæri. Ég fæddist með liðað hár og ef ég legði saman allar þær stundir sem ég notaði daglega fram yfir fertugt til þess að berja hverja einustu bylgju í burtu þá væru það örugglega nokkur vinnuár samtals. Mikið sé ég eftir þeim tíma. Ég væri sennilega enn að berjast við liðina ef hárgreiðslukonan mín hefði ekki skammað mig og sagt mér að hætta þessari vitleysu. Ég  hef ekki tekið upp hárblásara síðan. Hárið fær bara að vera eins og því er eiginlegt. Það hefur enginn kvartað yfir þessu kæruleysi.

Þegar ég stóð á tvítugu dvaldi ég eitt ár við nám í Arkansas í Bandaríkjunum. Ég var á heimavist með Suðurríkjastúlkum frá vel efnuðum heimilum. Fæstar höfðu farið út fyrir landsteinana en ein þeirra hafði þó farið til Þýskalands með foreldrum sínum. Í tilfefni af komu minni á heimavistina fór hún að segja félögum sínum lífsreynslusögur úr þessu ferðalagi þegar það hafði verið staðfest að ég byggi ekki í snjóhúsi á Íslandi. Háskinn í ferðinni hennar hafði verið hárvöxtur á ungum stúlkum á meginlandi Evrópu. Vitið þið – þær voru með hár á fótunum og í armkrikunum. Ojj barasta. Þær voru eins og ömurlegir karlar. Ég sat hljóð undir þessum umræðum og mitt litla sjálfstraust varð að engu. Sama dag fór í út í snyrtivörubúð og keypti mér rakvél og kvenraksápu og vonaðist til að enginn hefði tekið eftir því að ég var fædd með hár á fótunum. Ojj barasta!

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir nóvember 16, 2020 08:02