Hagstærðirnar yfirtaka umræðuna

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Hagfræði hefur í sífellt ríkari mæli verið smeygt inn í hin margvíslegustu viðfangsefni. Þetta hefur gerst hér eins og víðar, og virðist ekkert vera bundið við það sem eðlilegt er að fjalla um út frá hagstærðum eða kennningum, heldur ná jafnframt til þátta sem áður voru afgreiddir á grundvelli allt annarra forsendna. Ýmsir í útlöndum hafa áhyggjur af þessari þróun og halda því fram að hún grafi undan lýðræðinu. Það er meðal annars vegna þess, að með því að snúa hagfræði upp á hin ýmsu málefni, þá sé auðveldara að forðast vandamálin. Ekki þarf að leita langt eftir staðfestingu á slíku. Stjórnmálaumræðan er eðlilega nærtæk skýring.

Dæmi um það hvernig stjórnmálamenn koma sér undan því að ræða málefnin en vísa í staðinn í hagtölur eru nánast daglegt brauð í fréttum. Eitt slíkt var á RÚV um daginn. Velferðarráðherra var spurð um þá ákvörðun stjórnvalda, að stytta atvinnuleysisbótatímann úr þremur árum í tvö og hálft. Svar ráðherrans var meðal annars, að nú væri góður tími til að fara í þessa aðgerð, því tölur Hagstofunnar sýndu að atvinnuleysi hefði ekki verið minna síðan á árinu 2008. Spyrja má, hvað það gagnist þeim sem hafa verið atvinnulausir í tvö og hálft ár eða lengur, og eru enn atvinnulausir, að aðrir hafi hugsanlega fengið vinnu. Hinir atvinnulausu eru ekkert betur settir við slíkar aðstæður. Ráðherrann ræddi lítið sem ekkert um vanda þeirra sem eiga við langtímaatvinnuleysi að stríða, en vísaði í Hagstofuna, sem reyndar má efast um að sýni rétta mynd af stöðu mála, og sagði að ríkisstjórnin teldi best að atvinnulausir fengju vinnu. Hver er ekki þeirrar skoðunar? Þessi viðbrögð ráðherrans eru dæmigerð fyrir það hvernig stjórnmálamenn koma sér hjá því að takast á við vandamálin, en nýta sér hins vegar hagtölur í staðinn.

Þó þessi tiltekni ráðherra sé nefndur hér, þá er hagtölu-ofnotkun af þessu tagi langt frá því að vera einsdæmi. Ráðherrar og stjórnmálamenn almennt virðast illa haldnir af þessum kvilla. Sjáið bara kjaraviðræður. Seðlabankastjóri segir að þjóðarbúið þoli ekki meiri launahækkanir en sem nemur einhverri ákveðinni prósentutölu, sem tekur mið af verðmætasköpun. Næsta víst er að slíkt getur verið rétt nálgun fyrir seðlabankastjórann, sem verður að horfa á heildarmyndina. Atvinnurekendur og stjórnvöld grípa þetta svo á lofti, og vara við að allt fari fjandans til ef vikið verður frá þessum mikilvægu sannindum. Og niðurstaðan er oftast að hinir lægst launuðu fá minnst. Réttlæti er þá ekkert endilega málið.

Og hvernig talaði forsetinn í áramótaávarpi sínu?

„Við vitum þó öll að margt þarf að bæta, að áfram bíða verkefni úrlausnar, að sumt í okkar þjóðfélagi er jafnvel enn með þeim hætti að ekki verður við unað til lengdar.

Þar skiptir mestu, eins og ég hef áður ítrekað á nýársdag, að útrýma fátæktinni sem þjakar of marga, einstæðar mæður, aldraða og öryrkja.

Nú þegar vöxtur er í flestum greinum, glíman við hrunið að mestu að baki, ættum við að sameinast um það sjálfsagða markmið að enginn Íslendingur þurfi að búa við fátækt, að öllum séu tryggð mannsæmandi lífskjör; uppfylla loksins kröfuna sem alþýðuhreyfingar settu á oddinn.“

Hér er margt sem hægt væri að benda á, en athyglisvert er orðalagið: „Nú þegar vöxtur er í flestum greinum, …“ Það var nefnilega það. Vöxturinn virðist, að mati forsetans, vera forsenda þess að hægt sé „sameinast um það sjálfsagða markmið að enginn Íslendingur þurfi að búa við fátækt.“ Þetta eru týpísk hagfræðikenningaáhrif á lausn verkefna sem fyrir liggja. Það virðist samkvæmt þessu vera erfitt að útrýma fátækt nema vöxtur í efnahagslífinu sé til staðar. Hvað með það sjónarmið, að auka jöfnuð, sama hvað, og sama hver staðan er? Sumir eru þeirrar skoðunar að það ætti að vera forgangsverkefni. Einhverjir voru jafnvel þeirrar skoðunar á sínum yngri árum.

Hvers vegna viðgengst þetta, ár, eftir ár, eftir ár? Það skýrist fyrst og fremst af því hvernig hagfræðin, hagstærðirnar og kenningarnar, hafa gjörsamlega yfirtekið umræðuna. Og hvers vegna ætli það sé? Jú, vegna þess að það einfaldar allt. Það er miklu auðveldara að ræða málin út frá hagtölum frekar en út frá vandamálunum sem slíkum, eða út frá réttlæti eða jöfnuði eða einhverju álíka.

Það væri hægt að nefna fjölmörg önnur dæmi um ofnotkun á hagstærðum og túlkun á þeim, sem flækir málin og skilur málefnin sem slík oft eftir útundan, svo sem varðandi húnsæðismál, fjármálakerfið og ekki hvað síst menninguna.

Ekki má misskilja það sem sagt er hér. Hugsanleg hagtölu-ofnotkun hefur ekkert með hagfræði eða hagfræðinga að gera. Hagfræðin er auðvitað stórmerkileg fræðigrein og margir hagfræðingar færir í sínu fagi. En það er einmitt það sem stjórnmálamenn ættu frekar að nýta í stað þess að þykjast sjá lausnirnar með því að vísa til hagstærða í tíma og ótíma.

Þetta er vond þróun. Við hljótum að eiga hugmyndaríkara fólk sem getur sinnt þeim verkefnum sem takast þarf á við án þess að fela sig á bakvið hagstærðir eða hagfræðikenningar við hvert tækifæri sem gefst.

 

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson janúar 5, 2015 14:20