Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur fjallar um dansarann Karenu og glímu hennar við að dansa sóló í dansverki eftir frægan danshöfund en á sama tíma takast á við flókið ástarsamband. Maðurinn sem hún er ástfangin af deyr og sagan byrjar þar sem hún situr í á aftasta bekk í jarðarför hans. Karen lætur eins lítið fyrir sér fara og hún getur og það er augljóst að önnur kona er réttmætur syrgjandi þessa manns.
Karen er dansari í dansflokki og þekkir vel líkamlegum sársauka. Söknuður, eftirsjá og sorg er hins vegar nýtt fyrir henni. Þegar ástin bregst leggur hún allt í sölurnar fyrir listina og dansar sólóið af fullkominni innlifun. Hún hrekur frá sér æskuvinkonu sína vegna þess að hún getur ekki gefið af sér, svo yfirþyrmandi eru þessar tilfinningar sem hún er að takast á við. Hún leggur hins vegar af stað eftir jarðarförina til að hitta vinkonu sína og kannski ná að byggja brýr.
Þetta er flókin og marglaga saga þótt hún sé ekki löng og höfundur beitir nýstárlegum og áhugaverðum aðferðum við að koma henni á framfæri. Stundum minnir textinn á dansspor og hreyfingum er lýst af miklu listfengi. En hér er líka verið að minna á að án sársauka verður engin sköpun. Ekkert nýtt verður til eða sprettur upp þar sem engin átök eiga sér stað. Allar aðalpersónurnar eru listamenn, Karen dansari, maðurinn sem hún er ástfangin af ljósmyndari, vinkona hennar söngkona og í för með henni slæst píanóleikarinn Ýmir.
Þau keyra fram á nýhafið eldgos á leiðinni og bjarga auk þess manni úr sjónum sem hætti sér of langt út og útsogið greip hann. Með því er verið að minna á miskunnarleysi og afl náttúrunnar en um leið sköpunarmátt hennar. Aldan er á stöðugri hreyfingu og engin bára eins. Hún þurrkar út, sléttir og breytir fjörunni, brýtur land og mótar. Eimyrjan úr iðrum jarðar byggir upp, brennir, breytir, skaðar en svo hefst tími nýrrar uppbyggingar. Gróðurhula leggst yfir og græðir sárin.
Sagan er skrifuð í ljóðrænum og ákaflega meitluðum stíl. Hún dregur upp margvíslegar áhrifamiklar myndir sem allar flytja þann boðskap er hreyfing, breyting og umbylting séu eðlilegt ástand. Það er hvorki hægt að frysta tímann, augnablikið í ljósmyndum né beisla náttúruna og sköpunarkraftinn. Menn verða að aðlagast breytingunum, byggja upp að nýju eftir erfiðleika og umskipti.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.