Hver er á bak við nafnið?

Í gegnum tíðina hafa margir rithöfundar kosið að skrifa undir dulnefnum. Ástæðurnar eru margvíslegar. Lengi var til að mynda talið ókvenlegt að skrifa og konur tóku sér því karlanöfn til að skáldsögur þeirra fengju brautargengi. Sumir kunnu ekki við nöfn sín en aðrir völdu þannig bókmenntagrein að ekki þótti hæfa stétt þeirra eða stöðu að skrifa slíkt. Þá var gott að skýla sér bak við dulnefni. Kíkjum á bak við grímuna.

Bandaríski stjórnmálamaðurinn og fyrrum forsetinn Benjamin Franklin hafði frekar svartan húmor. Hann skrifaði lesendabréf í the New-England Courant árið 1722 undir nafninu Mrs. Silence Dogood. Látið var að því liggja að Silence væri miðaldra ekkja og hún hafði margt að segja um þau mál er efst voru á baugi í samfélaginu hverju sinni meðal annars krínólínur.

Washington Irving var sagnfræðingur og stjórnmálamaður. Um tíma stúderaði hann lög en var ekki að eigin sögn sérlega góður námsmaður. Hann stofnaði bókmenntatímarit með vinum sínum og þar skrifuðu þeir alls konar greinar, smásögur og ritgerðir undir mismunandi nöfnum. Árið 1809 sendi hann frá sér A History of New York from the Beginning of the World to the End of the Dutch Dynasty og skrifað Diedrich Knickerbocker fyrir henni. Þetta var pólitísk háðsádeila og henni fylgdi stutt úttekt á lífi og starfsferli Diedrich og líklega þarf ekki að tíunda það að blöðin hófu strax leit að hinum úrilla höfundi sem ekki fannst því að mati Washingtons var það hluti af gríninu. Áður en bókin kom út hafði hann nefnilega auglýst eftir Knickerbocker, hollenskum sagnfræðingi sem sagður var hafa horfið frá hóteli sínu. Næst birtist svo yfirlýsing frá meintum hóteleiganda sem tilkynnti af ef herra Knickerbocker kæmi ekki og borgaði hótelreikninginn myndi hann gefa út handrit sem sá hafði skilið eftir á herberginu til að ná inn fyrir kostnaði. Þetta virkaði og bókin var rifin út þegar hún kom í verslanir. Þekktastur er Washington fyrir The Legend of Sleepy Hollow og  Rip Van Winkle.

Neitaði að taka við bréfum Lewis Carroll

Lewis Carroll hét réttu nafni Charles Lutwidge Dodgson. Fyrsta bók hans undir skáldanafni kom út árið 1856. Hann valdi að skrifa undir dulnefni vegna þess að hann var hæglátur og hógvær og vildi ekki þann ágang sem hlaust af því að senda frá sér skáldverk. Hans aðalstarf var kennsla við Oxford-háskóla og sagt var að þegar menn sendu bréf stíluð á Lewis Carroll á skrifstofu hans þar hafi hann neitað að taka við þeim. Þetta gerði hann til að viðhalda þeirri trú manna að þeir væru alls ekki einn og sami maður, hann og Lewis þessi Carroll.

Brontë-systur voru uppi á svipuðum tíma og Charles Dodgson. Þær hófu rithöfundaferilinn á að gefa út ljóðabók árið 1846. Útgefandinn taldi ekki söluvænlegt að senda út á markaðinn bók með ljóðum eftir þrjár konur. Charlotte fékk þess vegna nafnið Currer, Emily varð Ellis og Anne, Acton. Þær bættu síðan við eftirnafninu Bell en það var millinafn prestsins heima í sveitinni þeirra. Þegar þær hófu síðan að gefa út skáldsögur sínar gerðu þær það undir eigin nafni.

Annar samtímamaður þessara mögnuðu höfunda bjó hinum megin Atlantsála. Samuel L. Clemens var óstýrlátur og nokkuð ofvirkur framan af ævi. Hann vann á fljótabátum Mississippi og þar mældu menn dýpið reglulega þegar siglt var um varasamari hluta þess fljóts. Kallið mark twain sagði til um að nægilega djúpt væri undir bátnum til að óhætt væri að sigla áfram. Á löngum siglingum var Samuel vanur að lesa allt sem hann komst yfir, þar á meðal sögur af ánni eftir gamalan skipstjóra á fljótabátunum. Sögurnar voru ekkert sérstaklega vel unnar og Samuel sendi honum reglulega bréf og gagnrýndi verk hans óspart og dró sumt af skrifum hans sundur og saman í háði. Þegar gamli maðurinn fékk hjartaáfall og dó kenndi Samuel sér að nokkru leyti um það og sagði: „Það eina sæmilega sem ég gat gert var að taka nafnið hans og sjá til þess að það færi ekki til spillis.“

 „Næst birtist svo yfirlýsing frá meintum hóteleiganda sem tilkynnti af ef herra Knickerbocker kæmi ekki og borgaði hótelreikninginn myndi hann gefa út handrit sem sá hafði skilið eftir á herberginu til að ná inn fyrir kostnaði.“

Ákvað að gefa nafninu virðingu

Óhætt er að segja að hann hafi gert það því enn í dag eru fáir sem ekki hafa heyrt af Mark Twain og sögum hans. Samuel fékk vinnu við dagblaðið Territorial Enterprise í Virginia City árið 1862 og þar hóf hann fyrst að nota skáldanafnið Mark Twain. Fyrir þann tíma höfðu birst eftir hann skopteikningar með áletruninni Josh en auk þess ritaði Samuel þrjár háðsgreinar undir nafninu Thomas Jefferson Snodgrass í daglaðið Keokuk Post. Skáldanöfn voru vinsæl meðal blaðamanna á þessum tíma og algengt að menn skrifuðu dálka undir slíkum nöfnum. Samuel var gjarn á að túlka fréttir og bregða upp nýstárlegum sjónarhornum á margt af því sem lenti á hans borði í vinnunni og líklega hefur honum þess vegna þótt þægilegt að ekki allir vissu hver stæði að baki skrifunum.

Guðmundur Magnússon skrifaði gríðarlega vinsælar skáldsögur undir höfundarnafninu Jón Trausti. Hann var alinn upp í fátækt og naut þess vegna ekki langrar skólagöngu. Árið 1895 flutti hann til Reykjavíkur frá Melrakkasléttu og fékk vinnu í prentsmiðju. Hann hélt til Kaupmannahafnar næsta ár og nam prentiðn í tvö ár. Fyrstu tvær bækur hans voru ljóðabækur sem fengu ekki góða dóma gagnrýnenda. Þær gaf hann út undir eigin nafni og hugsanlega hefur hann talið að dómarnir yrðu vinsamlegri ef gagnrýnendur vissu ekki hver hann væri, í það minnsta kaus hann gefa út skáldsögur undir öðru nafni. Guðmundur lést úr spænsku veikinni árið 1918 aðeins 45 ára gamall. Bækur hans, Heiðarbýlið, Anna á Stóruborg og Halla eiga eftir að halda nafni hans á lofti um ókomna tíð.

Samtíða Jóni Trausta var Örn Arnarson. Hann hét réttu nafni Magnús Stefánsson og er þekktastur fyrir ljóðabókina Illgresi. Líkt og Guðmundur var hann alinn upp í mikilli fátækt og átti þess ekki kost að afla sér mikillar menntunar. Honum tókst þó að ljúka kennaraprófi en starfaði ekki lengi við það. Hann var heilsubilaður og dó árið 1942, 58 ára gamall. Ekki er vitað af hverju Magnús kaus að skrifa undir dulnefni en menn hafa giskað á að hann hafi kviðið viðtökunum þegar fyrstu ljóð hans birtust og ekki þorað að leggja sál sína í dóm almennings með þeim hætti.

„Auk þess eru steinar almennt taldir harðir og kaldir og Steinn þurfti að bregða yfir sig brynju og stæla sig því hann vissi að ljóðum hans yrði ekki vel tekið af öllum löndum hans því hann kaus að brjóta upp hefðbundin ljóðform.“

Harður sem steinn

Aðalsteinn Kristmundsson tók upp skáldanafnið Steinn Steinarr. Einhverjar vangaveltur voru um það vestur í Ísafjarðardjúpi þar sem hann var fæddur og uppalinn að hann hafi verið rangfeðraður. Engar sönnur hafa verið færðar á það en hugsanlega hafði það eitthvað með það að gera að hann kaus að taka upp annað nafn þegar hann fór að skrifa. Það kemur fram í ævisögum hans að ekki var sérlega kært með honum og föður hans og það kann að vera að hann hafi þess vegna valið sér nafn sjálfur. Steinninn er líka í ljóðum hans tákn breytinga, steinninn er ekki jarðfastur heldur rúllar af stað og veldur umskiptum hvar sem hann fer. Auk þess eru steinar almennt taldir harðir og kaldir og Steinn þurfti að bregða yfir sig brynju og stæla sig því hann vissi að ljóðum hans yrði ekki vel tekið af öllum löndum hans því hann kaus að brjóta upp hefðbundin ljóðform. Að auki var líf hans fátæktarbasl og það er aldrei auðvelt. Almennt er þó nú álitið að Steinn Steinarr sé meðal áhrifamestu skálda tuttugustu aldar.

Agatha Christie er auðvitað þekktust fyrir bráðsnjallar sakamálasögur en hún skrifað sextíu og sex slíkar. Það væri sennilega nægilegt ævistarf fyrir flesta en Agatha skrifaði líka ástarsögur undir skáldanafninu Mary Westmacott. Hún vildi ekki að fólk vissi hver stæði að baki þeim vegna þess að henni fannst þessar bókmenntagreinar óskyldar og ekki heppilegt að fólk færi að bera saman morðsögurnar og rómantíkina.

C.S. Lewis höfundur Narníu-bókanna, Out of the Silent Planet og Four Loves meðal annarra bók skrifaði líka undir nöfnunum Clive Hamilton og N.W. Clerk. Undir nafninu Clive Hamilton gaf hann út Spirits in Bondage og Dymer og svo árið 1961 A Grief Observed um sorgina við að missa eiginkonu. Hann kaus að nota skáldanafnið því hann vildi ekki að menn tengdu höfund Narníu-sagnanna við þennan sorgmædda ekkil.

Vildi ekki tengjast sjónvarpsþáttum

Rithöfundurinn og prófessorinn Isaac Asimov skrifar einnig undir nafninu Paul French. Hann er þekktastur fyrir vísindaskáldsögur og vísindarit en þegar hann var beðin að skrifa unglingabækur kaus hann að taka upp annað nafn. Lucky Star-bækurnar eru vissulega vísindaskáldskapur líka en Isaac óttaðist að gerðar yrðu eftir bókunum sjónvarpsþættir og þá vildi hann ekki að nafn hans væri tengt við þær svo Paul French varð til. Ekkert varð hins vegar úr gerð þáttanna og Isaac viðurkenndi að hann hefði skrifað þessar sex bækur.

Eftir að höfundar hafa náð miklum vinsældum í einhverri tiltekinni bókmenntagrein getur verið erfitt að senda frá sér eitthvað gerólíkt því sem áður hefur komið út. Höfundur hinna vinsælu barnabóka um galdrastrákinn Harry Potter, J.K. Rowling tók upp nafnið Robert Galbraith þegar hún fór að skrifa sakamálasögur. Að sögn vildi hún ekki að viðhorf manna til þeirra bóka lituðust af væntingum og áhrifum Harry Potter-bókanna en því miður lak útgáfufyrirtækið mjög fljótt hver stæði að baki. Þeir höfðu áhyggjur af sölunni svo hver Robert Galbraith er var ekki leyndarmál lengi.

Þegar Michael Crichton var við nám í læknaskólaum í Harvard hóf hann að skrifa og gefa út spennusögur undir nafninu John Lange og Jeffrey Hudson. Þetta gerði hann til þess að kennararnir hans kæmust ekki að því að hann væri að vinna svo krefjandi vinnu meðfram náminu. Síðar gaf hann út sínar vinsælustu bækur undir eigin nafni, Jurassic Park þar á meðal en á síðari árum hefur hann einnig tekið sér höfundarnafnið Michael Douglas. Það er sett saman úr hans nafni og nafi bróður hans en þeir skrifuðu saman bókina Dealing. Margar af bókum hans komu út eftir lát hans árið 2008.

 „Hver Stella er vita án efa mjög fáir því enn hefur ekki tekist að koma upp um höfundinn þótt margir hafi verið nefndir til sögu sem líklegir.“

Þeir sem enginn veit hverjir eru

Stephen King kaus sér nafnið Richard Bachman vegna þess hve afkastamikill hann er. Yfirleitt gefa höfundar ekki út fleiri en eina bók á ári en Stephen virðist ekki í nokkrum vandræðum með að skrifa nokkrar. Til þess að fólk fengi ekki yfir sig nóg að King-nafninu tók hann upp þetta nafn. Meðal þeirra bóka sem komu út undir því höfundarheiti eru Rage frá árinu 1977, The Long Walk árið 1979, Roadwork árið 1981, The Running Man 1982, Thinner 1984, The Regulators 1996 og Blaze 2007.

Nú og svo eru það þeir sem enginn veit hver er. Ítalska skáldkonan Elena Ferrante nýtur gríðarlegra vinsælda um allan heim. Napolí-bækurnar um þær Lilu og Lenú eru heillandi og einstaklega vel unnar. Fyrir tveimur árum reyndi ítalskur blaðamaður að uppljóstra hver hún væri en vopnin snerust í höndum hans þegar allir lesendur Elenu um heim allan höfnuðu frétt hans og sögðu að engu skipti hver höfundurinn væri, bækurnar stæðu fyrir sínu og ef hún vildi ekki gera uppskátt um raunverulegt nafn sitt væri það hennar val. Þetta er aðdáunarverð afstaða og segir margt um styrkleika bókanna.

Íslendingar eiga svo Stellu Blómkvist og harðsoðnar sakamálasögur hennar þykja virkilega skemmtilegar. Hver Stella er vita án efa mjög fáir því enn hefur ekki tekist að koma upp um höfundinn þótt margir hafi verið nefndir til sögu sem líklegir.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 25, 2024 07:00