Þann 28. október síðastliðinn var liðin hálf öld frá frumsýningu leikritsins Saumastofunnar eftir Kjartan Ragnarsson. Verkið var skrifað í tilefni Kvennaárs Sameinuðu þjóðanna árið 1975 og markaði margvísleg tímamót. Til að byrja með var þetta í fyrsta sinn sem sett var á svið leikrit í íslensku leikhúsi sem hverfðist fyrst og fremst um konur og leikkonur voru í öllum aðalhlutverkum. Í öðru lagi talaði verkið beint inn í umræðuna um vanmat á störfum kvenna sem náð hafði hámarki með kvennafrídeginum fjórum dögum fyrr.
Söngleikurinn um konurnar á saumstofunni sem lögðu niður vinnu til að halda upp á sjötugsafmæli vinnufélaga síns bætti þess vegna heilmiklu við fréttaflutning og umtal í kjölfar kvennafrídagsins og segja má að leikritið, kvennafrídagurinn og hljómplatan Áfram stelpur verði líklega órjúfanlega tengd í hugum fólks í framtíðinni. Saumastofan sló í gegn og varð ein vinsælasta sýning Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó. Gekki í þrjú ár samfleytt.
Síðan hefur Saumastofan verið sýnd margoft um allt land. Áhugaleikfélög taka verkið reglulega til sýningar og enn í dag talar það til áhorfenda. Verkið fangar vel tíðaranda ritunartímans en boðskapur þess er tímalaus ekki hvað síst í ljósi þess að enn berjast konur fyrir stöðu sinni á vinnumarkaði og fyrir jöfnum tækifærum á við karla. Það fjallar um heldur óvenjulegan dag á saumastofunni Saumur þegar sex saumakonur ákveða að leggja niður störf til að halda upp á 70 ára afmæli saumakonunnar Siggu. Á meðan á veislunni stendur deila konurnar lífsreynslu sinni í gegnum sögur og söng. Þær eiga allar að baki margvíslega lífsreynslu og eiga það sameiginlegt að kjör þeirra og lífsskilyrði eru mótuð af feðraveldinu.
Höfum við gengið til góðs?

Nú er aftur kvennaár og þess vegna gaman að rifja upp kvennasamstöðu ársins 1975 sem náði hámarki á Arnarhóli en hélt áfram í vinsældum Saumastofunnar og plötunnar Áfram stelpur. Bæði verkin voru full baráttuanda, krafti og endurspegluðu samstöðu kvenna og ekki hvað síst sameiginlega reynslu kvenna.
Saumastofan var fyrsta leikverk höfundar Kjartans Ragnarssonar en hann var enginn nýgræðingur á leiksviðinu. Texti verksins er frábærlega vel uppbyggður og söngtextar og tónlistin grípandi og falleg. Persónurnar í verkinu eru líka trúverðugar og aðlaðandi. Það er því mikið fagnaðarefni að í tilefni 50 ára afmælisins mun Saumastofan koma út á bók í fyrsta sinn og blásið verður til útgáfuhófs í Borgarleikhúsinu sunnudaginn 9. nóvember næstkomandi kl. 13:00 á Litla sviðinu.
Borgarleikhúsið býður unnendum söngleikja, Saumastofunnar og íslenskar sviðslistasögu að fagna þessum tímamótum og mæta í útgáfuhófið og njóta þess að hlusta á sérfræðinga rifja upp sögu þess. Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur á Leikminjasafni, mun fjalla um tilurð og sögulegt mikilvægi Saumastofunnar, Magnús Þór Þorbergsson, leiklistarráðunautur Leikfélags Reykjavíkur, segir frá framlagi Kjartans Ragnarssonar til sögu LR, og valin atriði úr söngleiknum verða lesin og auðvitað sungin.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							
							





