Segir aldraða vera minnkandi kerfisbyrði

Kostn­aður almanna­trygg­inga vegna líf­eyris aldr­aðra mun lækka á næstu árum, að óbreyttum regl­um. Þetta segir Bene­dikt Jóhann­es­son, tryggingastærð­fræð­ingur og fyrr­ver­andi fjár­mála­ráð­herra, í grein í nýjasta tölu­blaði Vís­bend­ing­ar, vikurits um viðskipti og efnahagsmál.

Samkvæmt samantekt Kjarnans segir Bene­dikt í greininni að oft sé talað um að hluti af vel­ferð­ar­byrð­inni svo­nefndu sé bæði kostn­aður við eft­ir­laun og umönnun aldr­aðra. Í því sam­hengi gleym­ist þó oft að líta á skatt­ana sem aldr­aðir greiði, en þannig standi þeir undir hluta af sam­fé­lags­kostn­að­in­um.

Skattgreiðslur aldraðra aukist umfram fólksfjölgun

Útreikn­ingar Bene­dikts, sem byggja á skýrslu Talna­könn­unar um líf­eyr­is­kerfið fyrir Birtu líf­eyr­is­sjóð, sýna að skatt­greiðslur aldr­aðra hafi auk­ist umfram fólks­fjölgun á síð­ustu árum. Þær munu nú vera tæp­lega fimmtán pró­sent af heild­ar­skatt­greiðsl­um, en alls eru 16 pró­sent íbúa lands­ins á elli­líf­eyr­is­aldri. Til sam­an­burðar borg­uðu aldr­aðir aðeins átta pró­sent af heild­ar­skatt­tekjum árið 2005, þrátt fyrir að hafa verið 14 pró­sent af mann­fjöld­anum þá.

Benedikt Jóhannesson

Í fram­tíð­inni býst Bene­dikt svo við að skatt­greiðslur aldr­aðra muni aukast enn frekar, sam­hliða hækk­andi líf­eyr­is­tekjum þeirra. Því til stuðn­ings bendir hann á spá Talna­könn­unar um hlut­fall eft­ir­launa af launum lands­manna á næstu árum, en sam­kvæmt henni mun það vaxa hraðar en hlut­fall aldr­aðra af íbúum lands­ins. Með þessu lækkar kostn­aður almanna­trygg­inga vegna líf­eyris aldr­aðra, að óbreyttum regl­um.

Benedikt segir þetta sýna tvennt: „Ann­ars vegar að líf­eyr­is­greiðslur eru orðnar mun meiri en áður var, en jafn­framt að aldr­aðir hafa með líf­eyr­is­sparn­aði lagt fram sinn skerf til þjóð­ar­bús­ins og rangt að telja þá byrði á sam­fé­lag­inu þegar allt er talið með.“

Afnám tekjutenginga kosti TR 100 milljarða

Bene­dikt fer einnig yfir fyrri útreikn­inga sína sem sýndu að fullt afnám tekju­teng­ingar líf­eyr­is­greiðslna myndi kosta Trygg­inga­stofnun rík­is­ins (TR) um 100 millj­arða króna. Hann segir töl­una sennilega vera nær 105 millj­örðum króna ef allir þeir sem eru með líf­eyr­is­rétt­indi fengju fullan líf­eyri frá TR og að 35 pró­sent þeirra fengju fulla heim­il­is­upp­bót. Benedikt tekur þó fram að þessir útreikn­ingar séu ekki nákvæm­ir. Aftur á móti ættu þeir að gefa nokkra mynd af hugs­an­legum kostn­aði Trygg­inga­stofn­unar vegna þessa. Ekki mætti þó gleyma að hluti ­fjár­hæðarinnar færi aftur til rík­is­ins í formi tekju­skatta.

Ritstjórn janúar 31, 2022 12:00