Ekki tilbúnir að greiða hálfan lífeyri

„Mjög fáar umsóknir hafa borist þrátt fyrir að Tryggingastofnun hafi auglýst þennan möguleika fyrir áramót. Hugsanleg skýring er að fáir lífeyrissjóðir eru tilbúinir enn sem komið er að greiða hálfan lífeyri,“ segir Margrét Jónsdóttir deildarstjóri lífeyrisdeildar TR, þegar hún er spurð hversu margir hafi nýtt sér þann möguleika að taka hálfan lífeyri frá TR á móti hálfum frá lífeyrissjóði.

„Til að geta átt rétt hjá Tryggingastofnun þurfa umsækjendur að eiga rétt á að taka hálfan lífeyri hjá sínum lífeyrissjóði. Hálfur lífeyrissjóður og hálfur lífeyrir hjá TR verður að ná ákveðinni upphæð sem nú er 236.484 kr. á mánuði. Við höfum verið í sambandi við Landssamband lífeyrissjóða og sjóðirnir voru flestir ekki tilbúinir að mæta þessum kröfum um áramótin þegar lögin tóku gildi. Reiknað er með að það verði ekki fyrr en í vor en lífeyrissjóðirnir verða að svara fyrir það,“ segir Margrét. Hún segir að Tryggingastofnun geti ekki áætlað hversu margir komi til með að sækja um á árinu þar sem réttindi hjá lífeyrissjóðum eru mjög óljós.

Uppfylla þarf ákveðin skilyrði til að fá hálfan lífeyri á móti hálfun lífeyrir hjá TR.  Lífeyrissjóðir, innlendir og erlendir, sem viðkomandi á rétt í verða að samþykkja töku á hálfum lífeyri. Að samanlögð réttindi frá öllum lífeyrissjóðum og TR séu að lágmarki jöfn fullum ellilífeyrir hjá Tryggingastofnun og að greiðslur frá TR og lífeyrissjóðunum hefjist samtímis. Það merkilega er ef til vill að tekjur hafa ekki áhrif á greiðslur hálfs lífeyris og því þarf fólk ekki að skila inn tekjuáætlun til Tryggingastofnunar. Það gildir um allar skattskyldar tekjur svo sem atvinnutekjur, lífeyristekjur og fjármagnstekjur. Fólk má því vinna samhliða töku hálfs ellilífeyris.

Þeir sem eru að velta fyrir sér þessum möguleika að taka hálft og hálft ættu að hafa í huga að TR segir á heimasíðu sinni að meginreglan sé að taka ellilífeyri við 67 ára aldur. Ef valið er að taka hálfan ellilífeyri fyrr eða seinna komi til sérútreikninga. Sé töku flýtt til 65 ára aldurs komi til lækkun á þann hluta sem tekinn er og frestaði hlutinn hækkar sé honum frestað fram yfir 67 ára aldur. Kjósi fólk að fresta töku lífeyris til áttræðs komi til hækkun á þann hluta sem tekinn er eftir 67 ára aldur og frestaði hlutinn haldi áfram að hækka þar til fullur ellilífeyrir er tekinn. Nánari upplýsingar er að finna hér á heimasíðu Tryggingastofnunar.

Ritstjórn febrúar 15, 2018 10:45