Út var að koma bráðsmellin bók sem heitir SEGIR MAMMA ÞÍN ÞAÐ? Hún inniheldur gamansögur úr íslenska skólakerfinu og já – merkilegt nokk! – það gerist margt skemmtilegt þar, þó svo að fréttir þaðan séu ekki alltaf upplífgandi. Höfundur bókarinnar er Guðjón Ingi Eiríksson og hér á eftir verður gripið niður í bókina sem er fáanleg í öllum bókaverslunum:
DHL
„Í kringum aldamótin síðustu átti þáverandi formaður Nemendafélags Menntaskólans í Kópavogi von á sendingu frá Amazon í Bandaríkjunum. Þetta var eitthvað sem nota átti á nemendaskemmtun, en það varð töf á afhendingunni og var pilturinn búinn að fara ófáar ferðir inn á skrifstofu skólans til að hringja í DHL á Íslandi og spyrjast fyrir um pakkann. Hann var orðinn ákaflega pirraður á seinaganginum og því að þetta skyldi dragast um marga daga – og nú var komið að skemmtuninni.
Eftir hádegi, sama dag og skemmtunin átti að vera, var formaðurinn mættur enn eina ferðina inn á skrifstofuna til að hringja í DHL. Var honum þá sagt að pakkinn væri kominn til landsins og á leiðinni með bíl til hans í Kópavogi.
Leið samt og beið, einhverra hluta vegna, en tuttugu mínútum áður en skemmtunin átti að hefjast var bílstjóri DHL mættur með sendinguna á skrifstofu skólans og var umsvifalaust náð formann nemendafélagsins, sem orðinn var allstressaður, til að kvitta fyrir móttökuna. Þegar hann gekk inn á skrifstofuna hóf hann að ausa úr skálum reiði sinnar yfir bílstjórann út af töfunum og endaði svo á því að segja:
„Ég hélt að DHL ætti að senda hlutina hratt til fólks en nú veit ég að DHL þýðir bara … Djöfulli … Helvíti … Lengi!“
Af sögukennara í MA
Aðalsteinn Sigurðsson var lengi sögukennari við Menntaskólann á Akureyri, þann skóla sem hann útskrifaðist sjálfur frá sem stúdent. Kennsla hans var í afar föstum skorðum og tók litlum breytingum milli ára, en þótt svo væri höfðu margir nemendur dálæti á honum og lögðu sig virkilega fram við sögunámið.
Einhverju sinni var Aðalsteinn með gamla og snjáða bók í höndunum; bók sem hann hafði stuðst við í kennslunni árum saman. Þá gerist það að einhver af nemendunum tekur eftir því að spotti hangir niður úr kili bókarinnar og bendir honum á þetta.
Aðalsteinn ætlar að kippa spottanum burt, en þá tekst ekki betur til en svo að það raknar upp úr kilinum og fyrr en varir er bókin við það að detta í sundur. Þá lítur sögukennarinn framan í bekkinn og segir sposkur á svipinn:
„Nú, þetta er greinilega sjálfur söguþráðurinn!“
Páll Helgason
Páll Helgason fæddist á Siglufirði árið 1941 og kenndi siglfirskum ungmennum íslensku lungann úr starfsævi sinni, fyrst við gagnfræðaskólann og síðar grunnskólann, alls frá 1965 til 2007. Þá var hann jafnframt organisti og kórstjóri við Siglufjarðarkirkju um fjórtán ára skeið. Það var alltaf mikið fjör í kringum Pál og átti hann það til að stríða samkennurum sínum þegar færi gafst – sem var nokkuð oft.
Páll lést árið 2021.
Séra Vigfús Þór Árnason var prestur á Siglufirði um þrettán ára skeið, frá 1976 til 1989, og kenndi þá einnig við grunnskólann.
Einu sinni sem oftar lá leið Vigfúsar í kaupfélagið eftir kennslu. Hann fyllir körfuna af vörum, fer svo að kassanum og tínir varninginn upp á búðarborðið. Þegar búið er að stimpla inn verðið og Vigfús búinn að setja vörurnar í poka ætlar hann að sjálfsögðu að borga fyrir þær. Þá vandaðist hins vegar málið. Þegar hann dregur veskið upp úr jakkavasanum minnti það einna helst á sálmabók. Búið var að vefja utan um það límbandi, langsum og þversum og myndaði það kross. Og svo mikið var notað af límbandinu að líklega fór heil rúlla í verkið. Þóttist Vigfús kannast við handbragð samkennara síns, en það sem meira var: Ekki var nokkur leið að vinna á þessu á staðnum og endaði ævintýrið með því að presturinn fékk vörurnar skrifaðar og kom hann aftur síðar til að greiða fyrir þær.
Einhvern morguninn mætti Vigfús í skólann með mikla skjalatösku, greinilega spariskjalatöskuna — af því að þetta var ekki sú sem hann var vanur að hafa með sér í skólann – og það var mikill asi á honum. Hann sagðist þurfa hafa hraðar hendur við kennsluna, því hann ætti þá eftir að keyra að Hólum í Hjaltadal og mæta þar á prestastefnu um hádegisbilið.
Páll hefur greinilega komist í skjalatöskuna góðu sem beið undir fatahenginu, eftir að komast í hið mikla og geistlega ferðalag, því þegar Hólafundurinn hófst við ræðu biskups, þá fór Vigfús svolítið annars hugar að tína upp úr töskunni mikilvæg pappírsgögn — en var fljótur að pakka öllu saman, þegar á borðinu fyrir framan hann lágu óvænt nokkur Playboy-blöð. Hvernig Palli komst yfir þau er hins vegar ekki vitað.
Þegar Þórarinn Hannesson, þá íþróttakennari við Grunnskóla Siglufjarðar en nú við Menntaskólann á Tröllaskaga, og Kristín Anna Guðmundsdóttir, kona hans, eignuðust fyrsta barn sitt saman mætti faðirinn hróðugur á kennarastofuna og tilkynnti stoltur að myndarlegur drengur væri fæddur. Það rigndi yfir Þórarin hamingjuóskum og eftir að hann hafði sagt sonurinn væri rúmar 16 merkur spurði Ragna Guðlaugsdóttir, sem kenndi íþróttir með Þórarni:
„Hvað var hann langur?“
Áður en föðurnum gæfist rúm til að svara gall við í Páli, þar sem hann sat í stólnum sínum með neftóbaksröndina á handarbakinu:
„Hvort meinarðu fyrir eða eftir getnað?“
Regína, þessi sómakæra kona, roðnaði og blánaði og skaut á Pál, að alltaf þyrfti hann að snúa út úr öllu. Hann taldi þetta aftur á móti ósköp eðlilega spurningu.
Þversagnir Flensborgara
Hugtakið þversögn hafði mismunandi merkingu hjá nemendunum í Flensborgarskólanum og fékk meðal annars þessar „útskýringar“ á íslenskuprófi:
- Þversögn er sögn sem er þver í sínum málum.
- Það er þegar ein sögn fer þvert á aðra.
- Þversögn er sögn fyrir þvert fólk sem hugsar bara um sjálft sig.
- Það er sögn sem liggur þvert niður textann.
Nokkur gullkorn úr leikskólum
„Þegar englarnir koma of seint að sækja mann þá verður maður draugur.“
„Hvaða staf á afi þinn?“
„Hann á bara kross af því að hann er svo gamall.“
„Ég stækka svo mikið að fötin eru farin að minnka á mig.“
„Kannt þú ekki mannasiði?“
„Nei, bara konusiði.“
„Einu sinni var enginn jólamatur hjá okkur, bara lamb.“
„Sá hleypur hratt sem síðast hlær.“
„Fyrst fær maður barnatennur, svo fullorðinstennur og þegar maður missir þær þá fær maður franskar.“
Uppgröfturinn
Sigurgeir Jónsson var um árabil kennari í Vestmannaeyjum, fyrst við Barnaskólann, þá Gagnfræðaskólann en lengst af við Stýrimannaskólann, auk kennslu við Grunnskólann í Hveragerði um ríflega eins árs skeið í kjölfar gossins í Heimaey 1973. Hann er jafnframt afkastamikill rithöfundur og liggja eftir hann fjölmargar bækur af ýmsum toga, allt frá smásagnakveri upp í doðranta um hin ýmsu efni.
Í einni bóka hans, Nýjar sögur og sagnir í Vestmannaeyjum, er þetta meðal annars að finna:
Árið 1982 var afhjúpaður á Stakkagerðistúni minnisvarði um Oddgeir Kristjánsson tónskáld og höfðu Rotary-menn í Eyjum forgöngu um það verk. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin að minnisvarðanum, í nóvember 1981, var margmennt á Stakkó og m.a. voru þar staddir nemendur úr barnaskólanum. Þeim hafði verið sagt að þarna myndi Svava Guðjónsdóttir, eiginkona Oddgeirs, taka fyrstu skóflustunguna að minnisvarðanum um mann sinn.
Eitthvað höfðu þær upplýsingar skolast til hjá smáfólkinu. Hrefna, dóttir Oddgeirs, heyrði á tal tveggja lítilla stúlkna í þann mund sem móðir hennar var að munda skófluna og önnur þeirra spurði hvað konan væri að gera. Hin var aftur á móti með það alveg á hreinu og svaraði:
„Hún er að fara að grafa upp manninn sinn.“
Fengitíminn
Þegar Ingveldur Ragnarsdóttir kenndi við 5. bekk í Grunnskóla Hellissands spurði hún eitt sinn á prófi í náttúrufræði:
„Hvað gerist á fengitímanum.“
Eitt svarið sem hún fékk sló öllum öðrum við. Það var:
„Þá hafa bændur mök.“
Þetta er bara brotabrot af þeim gullmolum sem finna má í bókinni SEGIR MAMMA ÞÍN ÞAÐ? og það er nokkuð víst að hún á erindi til fólks á öllum aldri.