Styð heilshugar baráttu Gráa hersins

Kjör eldri borgara hafa verið til umræðu hér  á vefnum Lifðu núna og verða næstu vikurnar. Lifðu núna sendi fjórar spurningar á fulltrúa velferðarnefndar alþingis; Hvað finnst þér um skerðingar á ellilífeyri í almannatryggingakerfinu og málssókn Gráa hersins? Finnst þér eðlilegt að tekjur eldri borgara hækki einu sinni á ári og þá í samræmi við neysluvísitölu en ekki launavísitölu einsog staðreyndin er? Ert þú þeirrar skoðunar að það eigi að afnema skerðingarnar? Hvað með skerðingar vegna atvinnutekna? Svör fjögurra fulltrúa í nefndinni hafa þegar birst. Nú er komið að formanni nefndarinnar, Helgu Völu Helgadóttur þingmanni Samfylkingarinnar, að svara og svör hennar eru eftirfarandi:

Við í Samfylkingunni styðjum það að óskertur ellilífeyrir almannatrygginga verði aldrei lægri en lágmarkslaun og að dregið verði verulega úr tekjutengingu lífeyrisgreiðslna. Einnig er mikilvægt þarf að draga úr vægi tekjuskerðingar vegna sérstakrar uppbótar á lífeyri (krónu á móti krónu skerðingu).Við í Samfylkingunni höfum lagt til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lægstu launataxta í samræmi við kjarasamninga og verði 390 þús. kr. árið 2022. Einnig höfum við lagt til að sú hækkun sé afturvirk frá 1. apríl 2019, til samræmis við hækkun launa samkvæmt lífskjarasamningi. Því miður hefur ríkisstjórnin hafnað þessu.

Varðandi málsókn Gráa hersins þá hefur það því miður sýnt sig að réttindabarátta skilar sér oftar en ekki eftir umtalsverða vinnu og dýra baráttu í gegnum dómskerfið. Þá fyrst neyðast stjórnvöld til að bregðast við og er þar skemmst að minnast niðurstöðu dóms vegna búsetuskerðingar. Því styð ég heilshugar baráttu Gráa hersins og tel mikilvægt að niðurstaða berist sem fyrst í því máli.

Vinna sem lengst

Við í Samfylkingunni styðjum það að afnema skerðingar vegna atvinnutekna, mikilvægt er að slíkt mál sé unnið vel og vandlega og í góðu samstarfi við alla aðila. Það er ekki sjálfstætt markmið í sjálfu sér að sem flestir eldri borgarar séu þátttakendur í atvinnulífinu, vinni sem lengst og sem mest og á köflum langt umfram það sem heilsan leyfir, en það á að hverfa frá þeim aldursfordómum sem felast í skyldu til að segja fólki upp þegar það hefur náð ákveðnum aldri á sama tíma og taka verður tillit til ólíkra starfa og erfiðleikastigs. Almannatryggingakerfið á að styðja við fólk sem kýs að fara á eftirlaun þegar slíkt er heimilt en ekki neyða fólk til að ljúka störfum sé það enn með fulla starfskrafta og vilja til þess. Samfélagið á að auka virkni íbúa, sinna þörfum þeirra eftir fremsta megni og auka lífsgæði en ekki hamla með óréttlátu og úr sér gengnu kerfi. Við þurfum að meta þann mannauð sem finnst með hverjum og einum íbúa landsins. Það mun auka hagsæld til muna.

 

 

Ritstjórn ágúst 31, 2020 14:36