Sér fram á að lækka flugið í áföngum

Það að ljúka formlega störfum á vinnumarkaðinum er mikil breyting fyrir flesta. Vinnustaðurinn þar sem margir hafa unnið árum saman, er óneitanlega stór hluti af lífi hverrar manneskju. En það er afar misjafnt hvernig aðstæður fólks eru þegar að starfslokum kemur og stundum eru þau alls ekki formleg.

Ég hugsaði talsvert um hvernig lífið yrði án þess að stunda vinnu árin áður en ég hætti að vinna. Mér fannst það aldrei kvíðvænlegt, sá að vinkonur mínar sem voru eldri en ég lifðu góðu lífi og leið bara ágætlega. Móðir mín hafði ávallt unnið utan heimilis og var sátt við að hætta að vinna, svo hún var mér líka fyrirmynd. Ég setti mér ákveðnar reglur eins og að halda vissum dagsrytma, fara á fætur á morgnana, stunda reglulega líkamsþjálfun, hitta fólk og fara á mannamót, hitta í kaffi fyrrum kollega og skipuleggja kvöldin svo eitthvað sé nefnt.

Þetta sagði einn þeirra einstaklinga sem Lifðu núna spurði hvernig starfslok þeirra hefðu verið eða hvernig þeir sæju starfslokin fyrir sér. „Maður tilheyrir ekki lengur einhverju ákveðnu samfélagi sem er vinnustaðurinn og vinnumarkaðurinn og finnur sig svolítið útundan,“ sagði einn viðmælendanna, en sá það sem kost að hafa frelsi til að ráðstafa tíma sínum að eigin ósk.

Ég hætti í reglulegri vinnu þegar maðurinn minn komst á eftirlaun og hætti í sinni vinnu. Við fluttum í hús í sveit sem við höfðum átt í nokkur ár. Seldum stórt hús sem við áttum á höfuðborgarsvæðinu og keyptum minni blokkaríbúð sem við leigjum út. Lífeyrisgreiðslur hans, leigutekjurnar og það að við gátum borgað upp skuldir okkar gera það að verkum að við komumst vel af og getum gert það sem okkur langar til.

Annar viðmælandi ákvað að nota þau tímamót þegar skipulagsbreytingar áttu sér stað á vinnustað hans, til að láta af störfum. Áður hafði hann notfært sér 95 ára regluna og farið í hálft starf.

Það var mitt val að hætta á þessum tíma og ég hafði undirbúið þau skil vel, skildi ekki eftir neina lausa enda. Fyrst á eftir var ég iðulega með hugann við það svið sem ég vann við og hvernig mál þróuðist þar, talaði um það við gamla kollega o.fl. en ég efaðist aldrei um að ákvörðun mín var rétt og ég saknaði ekki vinnustaðarins og reyndar fárra vinnufélaga, heldur ekki viðfangsefnanna sem höfðu þó verið mér mikilvæg og stór hluti af mínu lífi og áhugasviði. En lífið er óútreiknanlegt og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Hjá mér tók t.d. við að eignast ástvin og hefja nýtt samband og það er tímafrekt!

Aðrir sjá það ekki endilega fyrir sér að hætta störfum á vinnumarkaðinum þó að afmælisdögunum fjölgi.

Mín starfslok verða að líkindum „fljótandi“ en ekki formleg og ákveðin, eins og ég sé og heyri hjá ýmsum í kringum mig, bæði ríkisstarfsmönnum og fólki á almennum vinnumarkaði. Í sjálfu sér hugsa ég ekki einu sinni um að minnka vinnu, hvað þá að hætta, en sé fram á að lækka flugið í einhverjum áföngum síðar. Hvenær og hvernig? Hef ekki hugmynd!

Enn aðrir ganga mjög skipulega til verks þegar formlegum störfum á vinnumarkaði lýkur.

Ég fór að starfa af auknum krafti í nokkrum félagasamtökum til að tryggja samband við vini og samfélagið. Ég hef svo í gegnum árin safnað ýmsu „drasli“, gögnum og munum úr mínum störfum og áhugamálum, til að vinna úr þegar að starfslokunum kæmi. Sæki í ýmsan fróðleik úr bókum og blöðum, sem ekki hefur gefist tími til að vinna með áður, s.s. ættfræði og ýmislegt úr sögu og menningu liðinnna ára og alda.

Svo eru þeir sem eru hættir á vinnumarkaði, en samt ekki.

Þeir sem vinna erfið störf eru vafalaust fegnir að hætta, en aðstæður fólks eru mismunandi. Ég er mjög sátt við mín starfslok, en ég verð sjötug í sumar. Hins vegar er ég svo heppin að fyrir stjórnvisku rektors Háskóla Íslands, Jóns Atla Benediktssonar, þá gefst starfsfólki HÍ sem vill og getur, kostur á að vinna áfram í afmörkuðum verkefnum eftir sjötugt. Samið er frá ári til árs, verkefnin verða að vera til staðar, fólk heldur ekki sínum stöðum og ekki er um fullt starf að ræða. Ég er því ekki alveg komin að því að hætta að vinna.

Einn viðmælandi Lifðu núna hefur starfað sjálfstætt um langt skeið en hefur minnkað við sig vinnu síðustu árin.

Það þykja mér vera forréttindi og ég hef getað haldið áfram að njóta starfsins með því að minnka umfangið. Hjá mér verður þetta þannig að ég læt verkefnin fjara út. Þetta gerist því ekki á einu augnabliki. Ég hef valið að gera þetta svona og ég nýt þess fram í fingurgóma. Daginn sem ég verð hætt alveg mun ég fyrst og fremst hugsa um þetta mikla frelsi. En ef ég væri til dæmis að hætta vegna aldurs á tilteknum degi sem opinber starfsmaður fyndist mér ég áreiðanlega vera sett til hliðar eins og ég væri orðin óþörf.

Hópurinn sem svaraði spurningum Lifðu núna um starfslokin: Atli Rúnar Halldórsson, Elín Siggeirsdóttir, Eyþór Elíasson, Margrét S. Björnsdóttir, Sylvía Guðmundsdóttir og Valgerður Magnúsdóttir.

Ritstjórn maí 8, 2018 06:02