Hætti að vinna til að passa ömmubarnið

Það er alltaf eitthvað um að ömmur taki sig til að gæti barnabarnanna á meðan foreldrarnir vinna. Og það gerist jafnvel að ömmur hætta að vinna til að passa þau heima. Þessa grein eftir ömmu sem hætti að vinna, rákumst við á á vefnum consider.com. Hún fylgir hér í lauslegri þýðingu.

Ég varð móðir tvítug og amma þegar ég var fimmtug. Í millitíðinni var ég svo heppin að krækja mér í ýmis starfsheiti og dágóðar tekjur. Þegar dóttir mín tilkynnti okkur á mæðradaginn í fyrra að hún væri ófrísk, leið ekki á löngu áður en ég var farin að velta ömmuhlutverkinu fyrir mér og næsta kafla í lífinu.

Eftir nokkurra mánaða samræður og útreikninga, nokkur tár og nokkur glös af víni var nýi samningurinn minn tilbúinn.  Ég hætti í fullu starfi í febrúar á þessu ári til að taka við umönnun ömmubarnsins. Það fól í sér að ég gaf uppá bátinn tekjurnar og fríðindin sem ég hafði haft í vinnunni og einnig hugsanlegar stöðuhækkanir. Þessu skipti ég út fyrir allt annars konar gæði og óáþreifanlegri.

Frá því ég söðlaði um, hafa málin verið rædd áfram, fleiri tár hafa runnið og fleiri vínglös verið drukkin. En mér finnst ennþá að þetta hafi verið ein besta ákvörðun sem ég hef tekið.  Ástæðurnar fyrir því eru þessar:

Fjölskyldan eitt það mikilvægasta sem við eigum

Það er dýrt að eiga börn og barnagæsla kostar mikið. Það að ég skuli passa dótturdóttur mína, sparar dóttur minni peninga, en ég sé þetta líka sem fjárfestingu – í fjölskyldunni minni.

Dóttir mín og tengdasonur eru þakklát fyrir að geta andað rólega yfir daginn, vitandi það að dóttir þeirra er í öruggum höndum ömmu sem elskar hana, í stað þess að vera á barnaheimili. Þau eru jafnframt þakklát fyrir að geta sparað sér peninga. Ég er hins vegar þakklát fyrir að geta myndað tengsl við ömmubarnið mitt.

Hún lærir eitthvað nýtt á hverjum degi og það geri ég líka. Við verðum báðar sterkari og vitrari með hverjum deginum sem líður.

Alveg eins og með peninga á bankareikningi. Því meira sem þú leggur inn í upphafi, þeim mun meira vex upphæðin og það verður auðveldara að bæta við.

Ég var á stöðugum hlaupum fimmtíu fyrstu árin mín á þessari jörð og beið eftir að merkja við á tékklistanum allt það sem ég hafði áorkað.

Á þeirri vegferð, var ég oft fjarverandi í daglegu lífi fjölskyldunnar. Ég var kannski viðstödd, en ekki alltaf með hugann við það sem var að gerast. Ég hugsaði ekki um að njóta augnabliksins. Þess í stað var ég önnum kafin við að skipuleggja hvað ég ætlaði að gera næst.

Núna er það aðalverkefnið að njóta þess þegar dótturdóttir mín brosir og hjalar. Það er á við heilt ævintýri að njóta stundanna með henni, jafnvel þegar hún grætur, þegar maturinn fer út um allt og þegar ég merki vaxandi þrjósku og sjálfstæði hjá henni.

Hún heldur mér yngri og ég verð besta útgáfan af sjálfri mér.

Hefurðu eytt tíma með litlu barni nýlega. Upp og niður og út um allt. Það tekur ótrúlega mikið á, en gefur meiri orku en margt það sem menn upplifa eftir miðjan aldur.

Þó ég hafi lagt mig fram um að vera líkamlega virk alla mína ævi, hefur gæsla ömmustelpunnar minnt mig á að ég er ekki þrítug lengur. En með hverri vikunni sem líður, lærir hún nýja hluti, ég læri líka ýmislegt uppá nýtt og saman verðum við sterkari og vitrari.

Ritstjórn nóvember 27, 2018 07:46