Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur og kennari hjá Líkamsrækt JSB skrifar:
Það líður varla sá dagur að við sjáum ekki einhvers konar leiðbeiningar um hvernig við getum lifað betra og innihaldsríkara lífi. Margar greinar og pistlar af þessu tagi eru á netinu og víðar og eykst fjöldinn svo fyrir og í kjölfar hátíðis- og tyllidaga. Allt þetta framboð gefur sterklega til kynna að eftirspurnin sé í svipuðu hlutfalli og má því ætla að þörfin fyrir handleiðslu á sviði bættra lifnaðarhátta sé mikil.
Það er líka rökrétt að ætla að fjölmennur hópur fólks telji sig á almennum villigötum varðandi mataræði, hreyfingu og almenna líðan, jafnt andlega sem líkamlega. Les- og myndefnið sem stendur til boða er svo sett fram af glaðlegu og hressilegu fólki sem kennir okkur 5 frábærar æfingar til að halda okkur í formi, gefur 7 safauppskriftir sem koma okkur vel nærðum inn í daginn og tilgreinir 1 leiðina til að grennast nógu hratt og komast í sparifötin um helgina, eða eitthvað annað í svipuðum dúr. Leiðbeiningunum er pakkað snyrtilega inn í aðgengilegan og númeraðan ramma sem undirstrikar hvað þetta er í rauninni lítið mál. Sé tekið mið af þeim sem gefur leiðbeiningarnar má svo ætla að árangurinn sé nánast pottþéttur, hún eða hann er náttúrulega í æðislegu formi og veit sínu viti.
Ráðleggingarnar eru í sjálfu sér ágætar en öllu verra er að hugsa til allrar þessarar óhamingju sem er á sveimi og dúkkar upp með svona reglulegu millibili, fyrir og eftir sumarfrí og eftir jól og áramót. Refsi- og sjálfspíningarþörfin er líka oft náinn fylgifiskur svona hugleiðinga. Sjálfsgagnrýni og meðvitund um skynsamlega lifðaðarhætti er klárlega af hinu góða, en þetta niðurbrot og neikvæðni sem vill oft loða við þá sem finna sjálfum sér allt til foráttu er ekki til eftirbreytni. Til þess að byggja sig upp og bæta líf sitt er ágætt að hafa í huga að langflestir efast reglulega um sjálfa sig – það er partur af því að vera mennskur. Fallega, fræga og lukkulega fólkið, sem kennir allar þessar tölusettu leiðir til lífshamingju, á alveg sína slæmu tíma. Í því samhengi langar mig til að ljúka þessum pistli með Sex atriðum til umhugsunar í dagsins önn:
- Það getur enginn verið endalaust hress og kátur.
- Allir eiga sína slæmu daga.
- Þú græðir ekkert á því að telja þér trú um að þú sért ekki í lagi.
- Ef þú vilt breyta einhverju í eigin fari gerðu það þá af væntumþykju og skilningi í eigin garð.
- Það er ekki hægt að gera allt rétt alltaf.
- Það er hægt að leggja rækt við sig og lifa góðu lífi.