5 leiðir til að skemmta sér með barnabörnunum á Barnamenningarhátíð

Barnamenningarhátíð – lýðræði og kraftur í Miðborginni fer fram dagana 23. – 28. apríl. Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg og sýnir glöggt að börn kunna að skapa og njóta menningar. Það eru viðburðir um alla borg og hér er kjörið tækifæri fyrir afa og ömmur að skemmta sér með barnabörnunum og upplifa áhugaverða menningarviðburði. Frítt er inn á alla viðburði.

  1. Byggingarlist, Breiðholtið og borgin okkar

Hvernig horfir arkitektúr og borgarskipulag við börnum? Í anddyri Norræna hússins er hægt að sjá sýninguna Byggingarlist, Breiðholtið og borgin okkar en þar er að finna verk nemenda í Hólabrekkuskóla sem unnin voru í vetur í samstarfi við kennara og fræðslufulltrúa Norræna hússins. Krakkarnir fengu innblástur frá sýningunni Wasteland Island og sjálfbærni í byggingarlist, uppbygging Breiðholtsins og hönnun Alvars Alto eru leiðarsteinar í verkunum. Sýningin opnar 23. apríl 2024 og verður opin meðan hátíðin stendur yfir.

  1. Það sem vantar – myndlist hinsegin félagsmiðstöðvar

Á Kjarvalsstöðum verður myndlistasýningin Það sem vantar.  Þar eru til sýnis verk eftir unglinga Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar. Þema sýningarinnar er listafólkið sjálft, þeirra sýn og reynsluheimur. Listaklúbburinn hefur heimsótt Listasafn Reykjavíkur reglulega í vetur þar sem þau hafa rýnt í listaverk, speglað sig í þeim og velt því fyrir sér hvaða skilaboð þau vilji koma áleiðis til gesta í gegnum eigin listsköpun. Afrakstur þeirrar vinnu er fjölbreytt og einlæg sýning ungs listafólks á uppleið. Sýningin opnar 23. apríl og stendur út hátíðina. Hér er kjörið tækifæri til að njóta fjölbreytileika mannlífsins og hinna margbreytilegu birtingarmynda lista.

3. BIG BANG á sumardaginn fyrsta

Sumardagurinn fyrsti á sérstakan sess í hjörtum íslenskra barna enda vorið komið. Tónlistin verður í aðalhlutverki þegar vorkomunni verður fagnað þann 25. apríl í Hörpu. BIG BANG tónlistarhátið fyrir ungt fólk er evrópsk hátíð sem hefur það að markmiði að setja upplifun barna í forgrunn. Harpa fyllist af börnum sem vilja njóta tónlistar í víðum skilningi. Dagskráin er fjölbreytt og afar metnaðarfull og samanstendur af tónleikum, innsetningum og tónlistartengdum smiðjum undir handleiðslu fagfólks í tónlist. Meðal þeirra sem fram koma er lúðrasveitin Svanur sem mun trylla lýðinn, plötusnúðurinn Ívar Pétur þeytir skífum fyrir börnin á Baby rave, hljómsveitin Celebs verða með tónleika sem munu ekki svíkja neinn, Fellakrakkar munu flytja frumsamda tónlist og margt fleira stórskemmtilegt. Allir ættu að finna sér eitthvað að sínum smekk á BIG BANG.

  1. UNGI sviðslistahátíð

UNGI sviðslistahátíð opnar formlega í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 25. apríl með sýningunni Sjáðu mamma, engar hendur sem breski sviðslistahópurinn Daryl&Mimbre kemur sérstaklega til þess að sýna á Barnamenningarhátíð. Sýningin er 30 mínútna danssýning sem fjallar um vináttu og þroska á fallegan  hátt. Sýningin nýtir það einstaklega vel að annar dansarinn er í hjólastól sem opnar fyrir skapandi flæði og óvæntar lausnir. Sýningin er aðgengileg öllum þar sem hún notast ekki við talaðan texta, aðeins dans og tónlist. Fleiri stórglæsilegar sýningar verða á boðstólum meðan hátíðin stendur yfir og eru þær sýndar í Tjarnarbíói og Borgarleikhúsinu. Aðgangur er ókeypis og hægt er að panta miða á netfanginu ungipostur@gmail.com eða koma hálftíma fyrir sýningu og fá miða. Nákvæma dagskrá er að finna á https://reykjavik.is/barnamenningarhatid/dagskra og sjálfsagt að kynna sér allt það sem er í boði.

  1. Ævintýrahöllin, fjölskyldudiskó og fleira og fleira

Bókasöfnin í höfuðborginni eru ekki lengur bara útlánastofnanir með bækur. Þar er hægt að njóta fjölskrúðugrar menningar og taka þátt í spennandi viðburðum allt árið um kring og Barnamenningarhátíð er þar engin undantekning. Hér á eftir eru nefndir nokkrir spennandi og skemmtilegir viðburðir í bókasöfnum.

Í Ævintýrahöllinni í Borgarbókasafninu Grófinni er hægt að sjá myndlistarsýninguna Allir með sem verður opin alla vikuna frá 23. – 28. apríl. Um er að ræða samsýningu listaverka eftir nemendur í leikskólunum Ævintýraborg, Grænuborg, Miðborg og Tjörn. Samvinna, vinátta, umhverfi og tungumál einkenna sýninguna en öll verkin leiða okkur á mismunandi slóðir í gegnum hugarheim þessara allra yngstu listamanna.Verkin á sýningunni urðu til út frá þema hátíðarinnar 2024 sem er lýðræði.

Hvað er betra en að dansa og skemmta sér. Það verður boðið upp á fjölskyldudiskó í Miðgarði í Borgarbókasafninu í Úlfarsárdal. Þar sér DJ Ívar Pétur sér um að halda uppi stuðinu miðvikudaginn 24. apríl frá klukkan 17:00-18:00. Eftir dansinn verður svo boðið upp á afslöppun í sögustund á náttfötunum klukkan 19:00-19:30. Það er fátt jafn notalegt og að koma í sögustund á bókasafninu og alltaf best að njóta skemmtilegra sagna á náttfötunum.

Auk þessa má nefna að fjölskyldujóga og krílastund, ýmsar föndursmiðjur verða í boði á bókasöfnunum Krakkakarókí verður á sínum stað fyrir þau sem vilja stíga út fyrir þægindarammann og syngja af hjartans list og Æskusirkusinn sýnir sirkusatriði fyrir gesti og bjóða öllum að prófa. Dans Brynju Péturs og Dans Afríka verða svo með danspartý og danssýningu og það mun engan svíkja. Síðan má róa sig niður með því að hlusta á upplestur á ýmsum tungumálum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 22, 2024 07:00