Sjónhverfing spegilsins

Hvernig birtist veröldin í spegli? Er spegilmyndin alltaf ofurlítið á skjön við raunveruleikann? Hún er í það minnsta sjö nanósekúndum of sein. Sú staðreynd kemur fram í bók Bennýjar Sifjar Ísleifsdóttur, Speglahúsið. Líkt og fyrri bækur þessa frábæra höfundar er þessi einstaklega vel skrifuð, textinn lifandi og lipur og fléttan snilldarlega uppbyggð.

Rósa er hárgreiðslukona, hefur í tuttugu ár rekið eigin stofu og alið börnin sín upp hjálparlaust. Hún er orðin amma og helst til undanlátssöm þegar kemur að því að taka ábyrgð af börnum sínum. Innst inni veit hún að það kann ekki góðri lukku að stýra og þau þurfa að læra að standa á eigin fótum. Þess vegna ákveður hún að selja hárgreiðslustofuna og kaupa æskuheimili föður síns á Mjóafirði og setja þar upp kaffihús. Húsið heitir Brekkufótur og við kynnumst því á tveimur tímaskeiðum. Í nútímanum þegar Rósa kemur þangað og fyllir það lífi að nýju og þegar Þorleifur og Helena bjuggu þar ásamt Elliða syni sínum, Lísu tengdadóttur sinni og tvíburunum Þórönnu og Helenu yngri.

Húsið er sérstætt að því leyti að Lísa er lömuð eftir slys og Elliði mágur hennar gerir allt hvað hann getur til að létta henni lífið, meðal annars að koma fyrir speglum á svo hugvitsamlegan hátt að frá legubekknum þar sem hún liggur flesta daga getur hún fylgst með lífinu í húsinu og umhverfi þess. Hann er ástfangin af mágkonu sinni er Erlingur bróðir hans yfirgaf konu og börn eftir slysið, treysti sér ekki til að búa með lamaðri konu. Katrín gerist ráðskona í speglahúsinu en hún er að flýja ofbeldisfullan barnsföður sinn og þess vegna hentar henni vel að setjast að í afskekktri sveit með börnin sín tvö, Erlu og Árna.

Að spegla sig á samfélagsmiðlum

En speglarnir eiga sér einnig skírskotun í nútímanum. Unga fólkið, Heiða, dóttir Rósu og önnur tengdadóttir hennar, deila gjarnan lífi sínu á samfélagsmiðlum. Tengdadóttirin er vinsæll áhrifavaldur. kann að taka myndir og hengja við þær áhugaverðar klisjur og frasa. Rósa skilur ekki alveg þessa þörf fyrir að spegla líf sitt á þennan hátt og senda út mynd sem er ávallt örlítið á skjön við veruleikann, sjö nanósekúndum of sein og spegluð. Það er áhugaverður samanburður að Lísa sem vegna lömunar sinnar gat ekki farið út og tekið þátt í lífinu fyrir utan en gat notið einhverra lífsgæða vegna speglanna kjósa þessar konur að vera ekki í núinu, taka ekki þátt í lífinu heldur senda það frá sér inn á miðlana. Eiga sér hliðarsjálf eða hliðartilveru vandlega ritskoðaða. Útlitið skiptir öllu máli, yfirborðið eins og það birtist öðrum.

Benný Sif hefur einstakt lag á að skapa áhugaverðar og sterkar kvenpersónur. Hún hefur ótrúlegt vald á íslensku máli og leikur sér gjarnan að því að koma að gömlum orðum og orðtökum. Hún kann líka þá list að flétta saman orð á frumlegan og fallegan máta. Í þessari sögu bætist svo við gáta sem þarf að leysa, dulrænir fyrirburðir, skrýtin fjölskyldutengsl og samspil innan fjölskyldan þar sem skyldir sem og óskyldir geta gefið af sér þá ást og umhyggju sem börn þarfnast.

Þessi skemmtilegi höfundur byrjaði seint að skrifa. Hún er fædd árið 1970 og fyrstu bækur hennar komu út árið 2018, Jólasveinarannsóknin og Gríma. Sú fyrrnefnda er barnabók, fjörug og skemmtileg en sú síðari skáldsaga um konur í íslensku sjávarþorpi einkum vinkonurnar, Grímu og Önnu. Árið eftir kom Álfarannsóknin önnur barnabók, þá Hansdætur, heillandi saga af Gratíönu, einni dætra Evlalíu, einstæðrar móður þriggja barna sem hún á með þremur mönnum. Ekki burðugur bakgrunnur í byrjun síðustu aldar. Næst sendi hún frá sér skáldsöguna, Djúpið, árið 2021 og framhald Hansdætra, Gratíana kom ári síðar. Það er enginn vafi að Benný Sif er meðal áhugaverðustu rithöfunda okkar og allar hennar bækur hreinn og klár unaðslestur.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 11, 2024 08:35