Sjötugir með svipaða orkuþörf og 7-11 ára börn

Orkuþörf manneskjunnar minnkar með aldrinum. Fólk um sjötugt hefur svipaða orkuþörf og 7 – 11 ára barn. Þetta sagði  Ingibjörg Gunnarsdóttir næringarfræðingur á LSH, en hún flutti nýlega fyrirlestur um næringu eldra fólks á starfslokanámskeiði spítalans.  „Þetta eru hundleiðinlegar fréttir“ bætti hún við „og  það getur valdið þyngdaraukningu ef einstaklingurinn heldur áfram að borða eins og hann gerði kannski um þrítugt“.

Orkuþörfin minnkar með hverjum áratug

Orkuþörf fólks um þrítugt er talin vera að meðaltali um 2.500 hitaeiningar á dag hjá körlum en 2.100 hjá konum, en Ingibjörg segir að það sé svo upp og ofan hvoru megin við meðaltalið fólk sé. Þegar við eldumst minnkar dagleg þörf okkar fyrir hitaeiningar. Á hverjum áratug eftir miðjan aldur minnkar orkuþörf karla um 160 hitaeiningar, en kvenna um 100 hitaeiningar.  Hundrað hitaeiningar er kannski ekki mikið, en ef fólk heldur áfram að borða jafn mikið og áður þyngist það smátt og smátt. Ingibjörg segir að það sé ágætis viðmið að borða þannig að við hvorki léttumst né þyngjumst. „Það er ekki endilega æskilegt að léttast mikið eftir miðjan aldur, nema það sé að læknisráði. Það er ágætis viðmið að lifa heilsusamlegu lífi og þyngjast ekki“ segir hún.

Varaforði getur komið sér vel

Ingibjörg segir það líka sjónarmið, að það sé gott fyrir eldra fólk að eiga varaforða, ef það veikist. „Það er ágætt að líkamsþyngdarstuðullinn sé 27-28, svo lengi sem það hefur ekki áhrif á heilsuna. En sé fólk fast í þyngdaraukningu verði það að reyna að stöðva þá þróun“.

Þörfin fyrir næringu sú sama

En það er nauðsynlegt fyrir eldra fólk að vera vel nært og það er ákveðin hætta á vannæringu þegar orkuþörfin minnkar. „Þörfin fyrir næringarefni er yfirleitt sú sama og áður“, segir Ingibjörg. Hún segir vöðvarýrnum eina af örsökum  þess að orkuþörf manna minnkar með aldrinum. „En ef fólk fylgir ráðleggingum sjúkraþjálfara og annarra um reglulega hreyfingu, viðheldur það vöðvamassanum og þá gerist það ekki jafn skart að orkuþörfin minnkar“, segir hún. Hún segir líka að alla jafna þurfi fólk ekki á  fæðubótarefnum að halda, nema D-vítamíni, sem allir ættu að taka. „Ef fólk fær næga næringu úr matnum, gera fæðubótarefnin lítið til viðbótar. Fólk er að taka þetta blindandi án mælinga á næringarástandi, en þessi efni koma aldrei í staðinn fyrir hollt mataræði“. Ingibjörg ítrekar nauðsyn þess að við séum vel nærð þegar við eldumst og segir að eldra fólk eigi ekki að brasa við að vera í megrun á efri árum að ástæðulausu.“Það græðir ekkert á því heilsufarslega“, segir hún.

Ráðleggingar miðaðar við heilbrigða

Ingibjörg benti á það í fyrirlestrinum að næringarráðleggingar væru fyrst og fremst forvarnarráðleggingar, ætlaðar heilbrigðu fólki með það að markmiði að efla heilsu bæði til skamms og langs tíma litið.  Þær væru ekki sniðnar að þörfum einstaklinga með sjúkdóma eða aðra kvilla sem gætu haft áhrif á þörf fyrir næringarefni.

 

 

Ritstjórn febrúar 24, 2020 07:45