Sjúklingum fækkar en kostnaðurinn eykst

Fólki sem leggst á sjúkrahús hér á landi fækkaði töluvert á tíu ára tímabili frá 2003 til 2012, samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu. Þrátt fyrir það fer kostnaður við rekstur þeirra sívaxandi. Tölur embættisins sem koma fram í skýrslunni „Legur, legudagar og meðallegutími á sjúkrahúsum 2003-2012“ sýna að legur á sjúkrahúsum voru rúmlega 48.000 árið 2003, en tíu árum síðar árið 2012 voru þær rúmlega 42.500, eða um 12% færri. Flestir sjúklingar leggjast inn á lyflæknisdeildir sjúkrahúsanna.

Eldra fólki fækkar líka

Sjúkrahúslegur fólks yfir 67 ára aldri voru rúmlega 14.000 árið 2003, en rúmlega 13.800 árið 2012, en þess bera að geta að í tölunum frá Landlækni er verið að tala um sjúkrahúslegur sem eru skemmri en 90 dagar. Engu að síður virðist minna um að þeir sem eru 67 ára og eldri liggi á sjúkrahúsum nú, en fyrir rúmlega tíu árum. En hver er ástæðan fyrir því að kostnaður spítalanna eykst stöðugt þótt fólk liggi minna á spítulum?

Sama þróun í öðrum löndum

Gylfi Ólafsson heilsuhagfræðingur segir að þetta sé þróunin í öllum hinum vestræna heimi. Innlögnum á sjúkrahús fækki og legutími styttist en kostnaður aukist á sama tíma. Þetta sé ákveðin þversögn, en fyrir þessu séu nokkrar meginástæður. „Það eru að koma nýjar og nýjar aðferðir við að lækna sjúkdóma sem áður voru ólæknandi og dýr og flókin tæki sem þekktust ekki áður. Þá er meira um dýr og flókin lyf, betur menntað starfsfólk og kröfur um meiri þjónustu á sjúkrahúsunum, til dæmis einbýli“.

Kemur öllum til góða

Gylfi segir að það sé ekki kostnaðarþátturinn sem drífi þetta áfram, heldur séu læknisfræðilegar ástæður þarna að baki. Botnlangaaðgerð sé nú gerð í gegnum lítið op á kviðnum, og það sé reynt að koma fólki sem fyrst á fætur til dæmis eftir bakaðgerðir svo endurhæfing geti hafist. Sængurkonur sem eitt sinn lágu á spítala í viku til tíu daga eftir fæðingu, fari nú heim samdægurs. „Þetta kemur öllum til góða“ segir Gylfi, „ Sjúkrahúsin nýtast betur og hægt er að sinna fólki á göngudeildum sem er ódýrara. Ljósmæður fara svo daglega heim til nýbakaðra foreldra, fyrst eftir fæðingu“.

Ritstjórn september 18, 2014 14:00