Held að allir hafi áhyggjur

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

Stjórn Landssambands eldri borgara skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir verkfall lækna. Stjórn Landssambandsins samþykkti um helgina ályktun þar sem það er harmað að svo skuli komið að læknar á Íslandi neyðist til að fara í verkfall til að vekja athygli á kjörum sínum. Í ályktuninni segir ennfremur:

„Það er ljóst að heilbrigðiskerfi landsins er verulega laskað og mikil þörf á fjármagni til að endurreisa það. Landsspítalinn er í mikilli þörf fyrir aukið fjármagn til að geta sinnt lögbundnum skyldum sínum.   Við skorum á stjórnvöld að koma í veg fyrir enn meiri skaða en nú stefnir í, og veita meira fjármagni inn í heilbrigðiskerfið. Við treystum því að stjórnvöld grípi nú þegar til aðgerða til að koma í veg fyrir verkfall lækna, sem myndi rýra traust sjúklinga á heilbrigðiskerfinu enn frekar en orðið er og biðlistar lengjast enn meira“.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambandsins sagði í dag að allir hefðu áhyggjur af stöðunni sem upp er komin, bæði ungir og gamlir. „Fólk trúir  þessu bara ekki fyrr en verkfall skellur á,“ sagði hún.

Forystumenn lækna hafa margítrekað í fjölmiðlum að öryggi sjúklinga verði tryggt, þrátt fyrir verkfall.

 

Ritstjórn október 26, 2014 15:23