Umfram dauðsföll hlutfallslega næstlægst á Íslandi

Þótt aðgerðir stjórnvalda meðan á COVID19-faraldrinum stóð  voru umdeildar og þótti ýmsum um of á réttindi borgaranna gengið. Nú er að sjá að árangur af þessum hamlandi aðgerðum hafi verið mikill. Á vef stjórnarráðsins var birt í morgun fréttatilkynning um að umfram dauðsföll hafi verið hér hlutfallslega næstlægst innan OECD-ríkja.

Nýleg skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) bendir til þess að sóttvarnaaðgerðir á Íslandi á tímum heimsfaraldurs Covid-19 hafi verið árangursríkar. Niðurstaðan leiðir í ljós að af OECD-ríkjunum voru dauðsföll á Íslandi á Covid-19 tímanum færri en búast hefði mátt við miðað við fólksfjölgun og aldurssamsetningu þjóðarinnar. Aðeins á Nýja-Sjálandi var hlutfall umframdauðsfalla lægra.

Þegar leiðrétt hefur verið fyrir lýðfræðilegum breytum og tekið er tillit til fólksfjölgunar leiðir samanburður í ljós að dauðsföll í OECD-ríkjunum voru að meðaltali 5,3% fleiri á árunum 2020-2022 en á samanburðarárunum fyrir heimsfaraldur Covid-19. Munur milli landa hvað þetta varðar er hins vegar verulegur. Níu lönd af 41 skera sig úr, þar sem dauðsföll á Covid-árunum voru færri en búast mátti við miðað við árin fyrir heimsfaraldurinn. Þetta eru Nýja-Sjáland (-4,4%), Ísland (-3,9%), Noregur, Írland, Austurríki, Kórea, Svíþjóð, Lúxemborg og Ísrael. Þau ríki OECD þar sem umframdauðsföll voru langflest eru Kólumbía (+23,5%) og Mexíkó (+30,5%).

Höfundar skýrslunnar gera ítarlega grein fyrir þeirri aðferðafræði sem samanburðurinn byggir á, enda hefur áður verið birtur samanburður um umframdauðsföll á tímum Covid-19 sem sýnir aðrar niðurstöður. Í fyrri samanburði hefur ekki verið leiðrétt fyrir ýmsum lýðfræðilegum breytingum sem skipta máli svo samanburðurinn sé raunhæfur. Þar vegur þungt ört hækkandi hlutfall aldraðra og fólksflutningar sem hafa leitt til umtalsverðra breytinga á íbúafjölda auk aldurssamsetningar einstakra landa. Heilt yfir hefur hlutfall 65 ára og eldri hækkað um 19% á svæðinu frá 2015 til 2022. Í meðfylgjandi skýrslu hafa þessar leiðréttingar verið gerðar.

Ritstjórn janúar 31, 2024 12:30