Stigu dansinn strax við fyrsta ABBA lagið

Haustfagnaður Ferðaskrifstofu eldri borgara fór fram með glæsibrag á Hótel Grímsborgum fyrr í þessum mánuði.

Alls tóku 115 manns þátt í gleðinni og salurinn var þétt setinn. Þar fór fram ferðakynning fyrir árið 2022, snæddur var gómsætur kvöldverður að hætti Grímsborga og Guðni Ágústsson fór með gamanmál.

Loks flutti hljómsveit Gunnars Þórðarsonar sína rómuðu ABBA-sýningu þar sem gestir stigu dansinn strax við fyrsta lag og þar til yfirlauk.

Þátttakendur gistu á Hótel Grímsborgum og snæddu morgunverð saman daginn eftir. Gestir héldu síðan glaðir heim á leið og margir höfðu á orði að þeir myndu láta sjá sig aftur ef slík hátíð yrði endurtekin.

Að sögn Sigurðar K. Kolbeinssonar hjá Ferðaskrifstofu eldri borgara eru allar líkur á því, þar sem það sem vel tekst leiði ávallt af sér framhald.

Ritstjórn október 21, 2021 15:01