Skilríki skilríkjanna vegna

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar. 

„The Computer says no.“ Þessi setning var margtuggin í óborganlegum atriðum í þáttunum Little Britain og hefur æ síðan orðið að nokkurs konar samnefnara eða lýsingu á ósveigjanleika kerfis þar sem haldið er fast við eitthvað til þess eins að geta valdið öðrum óleik. Skriffinnskan á hæsta stigi eða ólipurð í samskiptum. Svona yfirleitt læt ég þetta ekki trufla mig en stundum finnst mér þessi einstrengingsháttur svo yfirgengilegur að hann nær að ergja mig ofurlítið. Og hér koma nokkur dæmi.

Í fyrrahaust skiptum við hjónin yfir á vetrardekk eins og aðrir Reykvíkingar. Maðurinn minn fór með bílinn á dekkjaverkstæði sem er eitt margra útbúa sama fyrirtækis. Daginn eftir var ég á leið í vinnu þegar tölva bílsins sendir mér skilaboð um að eitt dekkjanna sé loftlítið. Þannig vildi til að í sömu götu og vinnustaðurinn minn er eitt margra verkstæða sem rekið er undir þessu nafni. Ég renndi því beint þangað, gekk inn í afgreiðsluna og spurði manninn sem þar sat hvort þeir gætu athugað þetta fyrir mig.

„Já, eftir sjö mínútur,“  svaraði hann. „Við opnum klukkan átta og klukkuna vantar enn sjö mínútur í.“

Ég tek það fram að þegar ég ók að fyrirtækinu voru allar hurðir inn á þjónustusvæðið opnar og þar var hópur starfsmanna á fullu að undirbúa daginn og opið var inn í móttökuna þar sem þessi maður sat. Ég þurfti því ekki að banka á neinar dyr eða brjóta mér leið að afgreiðsluborðinu. Ég þakkaði honum hins vegar lipurðina, gekk út og keyrði nokkra tugi metra að öðru dekkjaverkstæði í sömu götu. Þegar þangað kom vantaði klukkuna fimm mínútur í átta og sjálfsagt að taka á móti mér. Ég borgaði með ánægju þær 12.000 kr. sem viðkomandi rukkaði mig fyrir að gera við dekkið.

Öryggið á oddinn

Við Íslendingar viljum líka gjarnan tryggja öryggi og sjá til þess að enginn fái afgreitt það sem hann ekki á skilið en stundum finnst mér nóg um. Til dæmis má nefna Íslandspóst. Nú þarf fólk iðulega að sýna skilríki þótt það geti framvísað sms-i og tölvupósti frá fyrirtækinu um að að það eigi hjá því pakka. Samkvæmt starfsfólki er þetta vegna þess að sendandinn krefjist þess. Gott og vel, en hvers vegna nægir þá ekki að sýna í símanum ljósmynd af vegabréfi eða ökuskírteini? Við því hef ég fengið þau svör að starfsfólki sé uppálagt að afhenda aðeins gegn framvísun leyfðra persónuskilríkja.

Vissulega gengur yfirmönnum þeirra það eitt til að sjá til þess að enginn nái að svíkja út sendingar sem ætlaðar eru okkur. Það ber að þakka en stundum er fastheldnin í reglurnar ekki best. Ég hef búið í sextán ár á sama stað og allan þann tíma verslað við apótek sem er örskammt frá heimili mínu. Fyrir nokkrum árum var í kjölfar þess að konu, sem glímdi við fíknisjúkdóm, hafði tekist að svíkja út nauðsynleg verkjalyf krabbameinssjúklings settar þær reglur að starfsfólki apóteka bæri að ganga úr skugga um að réttur einstaklingur fengi afhent rétt lyf. Jú, ég gat skilið að þessi ráðstöfun væri gerð þótt þau lyf sem ég þarf að nota að staðaldri séu þess eðlis að ekki er nokkur leið að misnota þau beygði ég mig undir þessar nýju reglur.

Ég er alltaf með ökuskírteinið mitt í bílnum en það er um það bil fjörutíu og fjögurra ára gamalt og myndin þar að auki nánast vangamynd svo í raun gæti þessi kona verið hver sem er. Engu að síður fara starfsmenn apóteksins fram á að sjá þetta skírteini í hvert skipti sem ég kem þar við og það þrátt fyrir að tveir starfsmenn þess þekktu mig orðið með nafni. Vissulega er það ekki mjög mikil fyrirhöfn að taka ökuskírteinið úr lokuðu hólfi í bílnum í hvert sinn sem ég kem í apótekið en stundum myndi ég þiggja ofurlitla lipurð og þjónustulund.

Að þekkja eða þekkja ekki mann

Mér hættir nefnilega til að gleyma að það þarf að vera með. Ég er nýkomin úr vinnu, þarf að versla í matinn og man svo að lyfið vantar. Þá er stormað í apótekið en alltaf og ég meina alltaf er ég rekin öfug út í bíl eftir aldraða ökuskírteininu með vangamynd af ungri konu, þrátt fyrir að ég geti sýnt mynd af vegabréfinu mínu í símanum og félagsskírteini frá stéttarfélagi mínu með mun nýrri mynd af mér og öllum sömu upplýsingum og á ökuskírteininu. Það skilríki opnar mér leið að blaðamannafundum um allan heim þar sem saman koma valdamiklir menn en ekki að lyfjunum mínum sem veita enga vímu sama hversu mikið er tekið af þeim. Systir mín notar þessi sömu lyf og í apótekinu í hverfinu hennar er henni heilsað þegar hún kemur og aldrei beðin um skilríki. Starfsfólkið er búið að sjá þau margoft og þekkir hana. Þau eru ekki eins mannglögg í mínu apóteki. En takk góða starfsfólk fyrir að vera svona reglufast og ósveigjanlegt.

Um daginn hitti þannig á að ég var á leið heim úr vinnu og mundi að mig vantaði lyf svo ég kom við í apóteki aðeins lengra frá heimili mínu. Og viti menn þarna nægði mynd af vegabréfinu, skilríki sem sýnir mig eins og ég lít út í dag. Ég fékk afgreitt það sem mig vantaði og hér eftir mun ég taka þennan krók og versla í þessu tiltekna apóteki vegna þess að ég upplifi þetta sem þjónustulipurð. Hugsanlega finnst öðrum starfsmenn þar sýna of mikla tilslökun og það er sanngjarnt viðhorf. Mér hefur hins vegar alltaf fundist að þegar við festumst í að fylgja bókstafnum of fortakslaust eigum við á hættu að festast svo rækilega í skrifræðinu að það beri heilbrigða skynsemi ofurliði. Að mínu mati er til að mynda mun öruggara að trúa að ég sé ég ef skoðaður er pressupassi eða vegabréf með fimm ára gamalli mynd fremur en að trúa fertugu ökuskírteini með vangamynd af einhverri konu.

Steingerður Steinarsdóttir júlí 4, 2024 07:00